Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 07. maí 1996, kl. 17:20:20 (5744)

1996-05-07 17:20:20# 120. lþ. 132.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur

[17:20]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að endurtaka að það hefur hvergi komið neitt fram sem bendir til þess að í þessu frv. sé verið að taka á réttindum eða skyldum sem um hefur verið samið í kjarasamningum. Hv. þm. hefur ekki getað sýnt fram á það og mun ekki geta sýnt fram á það því það er ekki hægt. (Gripið fram í: Það er rangt. Þetta er útúrsnúningur.)

Í öðru lagi hefur fjmrh. sýnt nefndarstarfinu mikinn áhuga vegna þess að á hverjum einasta fundi hafa setið fulltrúar ráðherrans til þess að veita allar þær upplýsingar sem um hefur verið beðið. Það er ekki til siðs að ráðherrar sæki þessa fundi vegna þess að kjörnir þingfulltrúar sitja þessa nefndarfundi en ráðherrarnir koma að sjálfsögðu og taka þátt í þremur umræðum í málinu. Það er alveg óþarfi að að segja að það sé alvanalegt, eins og mátti skilja á hv. þm., að ráðherrar sæki nefndarfundi. Svo er ekki. Þar til viðbótar stóð nú þannig á að ég gat ekki komið á þessum tiltekna tíma. Að tala um ósvinnu í þessu sambandi er því náttúrlega algjörlega út í bláinn. Þetta vildi ég að kæmi fram en á síðari stigum mun ég að sjálfsögðu fjalla efnislega um það sem kom fram í ræðu hv. þm. Þetta þarf að koma mjög skýrt fram hér í upphafi og frammíköll og hróp einstakra þingmanna geta ekki breytt staðreyndum.