Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 07. maí 1996, kl. 17:21:56 (5745)

1996-05-07 17:21:56# 120. lþ. 132.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, Frsm. minni hluta ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur

[17:21]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Ágúst Einarsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er hægt að rekja ýmislegt sem viðvíkur bæði svokallaðri æviráðningu, biðlaunum, veikindamálum, fæðingarorlofi og málskotsrétti og mörgu fleiru sem tengist kjarasamningum sem tekið er á með íþyngjandi hætti í þessu frv.

Varðandi það að ráðherrann neitaði að mæta á fund efh.- og viðskn. má geta þess að hann mætir á fund fjárln. og aðrir ráðherrar ef svo ber undir. Ég vil einnig geta þess að með mér í minni hluta nefndarinnar eru hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og Jón Baldvin Hannibalsson, tveir fyrrv. ráðherrar. Og það var upplýst að --- það er ekkert alvanalegt en kemur fyrir --- að menn hafa aldrei talið það neitt tiltökumál að mæta í þingnefnd til að skýra tiltekna þætti í sínum þingmálum. Herra forseti, framkoma hæstv. fjmrh. gagnvart þingnefndinni varðandi þetta mál er ámælisverð.