Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 07. maí 1996, kl. 21:15:58 (5748)

1996-05-07 21:15:58# 120. lþ. 132.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur

[21:15]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég mun síðar í þessum umræðum víkja að nokkrum efnisatriðum og sýna hv. þm. fram á að hann virðist ekki hafa lesið nægilega vel hvorki frv. né gildandi lög. En ég eins og sjálfsagt margir aðrir sem hlustuðu á ræðu hv. þm. vorum yfir okkur hrifnir af því hvernig hann hafði áhuga á því að sýna fram á hin góðu viðhorf sín gagnvart opinberum starfsmönnum og gegn þeirri fornaldareinræðishyggju sem nú ríkti um hve launin væru lág, um það að það þyrfti að virða grundvallarleikreglur, virðingu fyrir samkomulagi á milli vinnuveitenda, ríkisins og starfsmanna ríkisins.

Hverfum aðeins nokkur ár aftur í tímann til ársins 1990. Byrjum reyndar á árinu 1989 um vorið þegar gerður var tímamótasamningur eins og það hét hjá þáv. ríkisstjórn, samningur sem lagði grundvöll að framtíðarsamskiptum ríkisins, ríkisstjórnarinnar og Bandalags háskólamanna. Svo gerist það nokkru seinna á augabragði, ekki með lögum á Alþingi heldur með bráðabirgðalögum þeirrar ríkisstjórnar að kauphækkuninni var svipt burtu og bannað var að hækka laun í nokkra mánuði eftir það. Finnst mönnum sem hlusta á þessa ræðu sem var flutt í marga klukkutíma í dag það vera trúverðugt að koma hér upp og flytja ræðu eins og hann flutti? Finnst fólki þetta vera góður málflutningur? (SvG: Er ráðherrann reiður?) Ráðherrann er ekki reiður en það getur vel verið að einhver sé reiður sannleikanum, þar á meðal sá sem hér kallar fram í því að hann ásamt síðasta ræðumanni sat einmitt í þeirri ríkisstjórn sem ráðherra ásamt hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni og með bráðabirgðalögum tóku þeir af kjarasamninga sem þeir höfðu sjálfir sett í samningum við launamenn nokkru áður. Getur ekki hv. þm. rifjað þetta frv. upp áður en hann segir að þetta sé það versta sem hann hefur séð áratugum saman?