Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 07. maí 1996, kl. 21:25:18 (5752)

1996-05-07 21:25:18# 120. lþ. 132.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, JBH
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur

[21:25]

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Þeir hæstv. ráðherrar fjármála og félagsmála eiga það sameiginlegt á þessum vordögum að þeir ganga saman sem svarnir fóstbræður fram fyrir skjöldu og stíga fram undir merkjum hinna miklu umbótamanna sem vilja kollvarpa úreltum lögum og drösla verkalýðshreyfingunni á Íslandi sárnauðugri inn í nútímann. Báðir hafa á orði að fyrir þeim vaki að breyta ævafornri og úreltri löggjöf. Hæstv. félmrh. fer aftur í kreppuárin 1938 þegar þrælalögin voru sett sem sumir kölluðu þá, en aðrir mannréttindaskrá hins vinnandi fólks. Ég er að tala um vinnulöggjöfina árið 1938 en hæstv. fjmrh. vitnar til þess að löggjöfin um opinbera starfsmenn er frá árinu 1954 og þjóðfélagið hefur tekið stakkaskiptum síðan.

Nú kann það að vera svo að eitthvað vefjist fyrir mönnum að trúa því að leiðin inn í nútímann liggi um hlaðið á Höllustöðum. En það kemur sumum nokkuð í opna skjöldu en (Gripið fram í.) hins vegar er það kannski svo að margir vilja fremur trúa því að hæstv. fjmrh., sem er gamalt stríðshross úr seinfærri baráttu gegnum ,,Báknið burt``, sé enn við listann sinn og sé nú þótt eitthvað sé farið að líða á starfsdaginn að reyna að koma fram gömlum baráttumálum sem sumir héldu að væru orðin rykfallin.

Nú vill svo til, herra forseti, að þegar við hugleiðum rök þeirra fóstbræðra, rökin um úrelta löggjöf, rökin um gerbreytta þjóðfélagshætti, rökin um að það sé þörf á því að breyta löggjöfinni m.a. til þess að auka á samræmi, draga úr mismunun milli annars vegar opinbera geirans, almenna vinnumarkaðarins, rökin um valddreifingu, rökin um meiri ábyrgð, rökin um nútímalegri stjórnunarhætti, allt er þetta hvert og eitt umræðuverð sjónarmið, ekki ætla ég að draga úr því. Ég nefni þetta í upphafi máls míns vegna þess að ég held að fjmrh. væri hollt að hugsa til fóstbróður síns sem kannski hefur gengið ögn lengra fram fyrir skjöldu, þ.e. hæstv. félmrh.

Hvað vakti fyrir hæstv. félmrh.? Hann sagði á einföldu og auðskildu máli sem svo: ,,Ég vil dreifa valdinu frá verkalýðsforustunni og til fólksins og þá vil ég taka upp gamalt baráttumál um að heimila og lögfesta réttinn til stofnunar vinnustaðarfélaga, fyrirtækjafélaga.`` Í annan stað sagði hann: ,,Ég vil færa ákvörðunarvaldið frá fámennisstjórnum stéttarfélaga til fólksins á vinnustöðunum þegar kemur að kjarasamningum, umboð til kjarasamninga, atkvæðagreiðslur um kjarasamninga og atkvæðagreiðslur um miðlunartillögur. Ég er með öðrum orðum að berjast fyrir auknu lýðræði í hreyfingu sem er stöðnuð og lýtur fámennisstjórn.`` Og í þriðja lagi sagði hann: ,,Vil ég í nafni ábyrgðartilfinningar í þjóðfélaginu vegna þess að verkföll eru auðvitað ekki bara mál þeirra sem fara í verkföll heldur líka þeirra sem verða við það að búa, þriðji aðilinn, þjóðfélagið sem ekki er í verkfalli.`` Þess vegna vildi hæstv. félmrh. skilgreina betur og skilyrða hvert væri hlutverk ríkissáttasemjara til þess að leysa slík viðkvæm deilumál. Þetta þrennt, valddreifing, aukið lýðræði, aukin ábyrgð. Sannleikurinn er sá að af því að þetta kom úr svo óvæntri átt um hlaðvarpann á Höllustöðum, þá urðu ýmsir til þess að klappa fyrir þessu og segja: Þetta er bara nokkuð djarflega mælt. Sumir sögðu jafnvel: Mæl þú manna heilastur.

[21:30]

Nú rifja ég þetta upp vegna þess að Höllustaðabóndinn, hæstv. félmrh., hefur heldur betur lent í umferðarslysi á framfarabrautinni og er hætt við að honum endist lítt erindi til þess að tosa öðrum inn í nútímann eins og komið er fyrir honum. Það er eiginlega eins og hann hafi (Gripið fram í: Verið klessukeyrður.) já, verið klessukeyrður á hlaðvarpanum. Hér eru dómsorðin. Hér liggur fyrir umsögn Lagastofnunar Háskólans sem hv. félmn. bað um og þar er ekki verið að tala neina tæpitungu um hvernig fór fyrir umbótaáætlun félmrh. Þar segir skýrt og skorinort að meginatriðið sem var um ábyrgð ríkissáttasemjarans og sameiginlegar miðlunartillögur sem hann átti að hafa vald til að tengja saman tillögur margra óskyldra stéttarfélaga, með leyfi forseta:

,,Ákvæði i-liðar 6. gr. frv. um sameiginlega miðlunartillögu ríkissáttasemjara og atkvæðagreiðslu um hana fer í bága við alþjóðasamning Vinnumálastofnunarinnar sem Ísland er aðili að, nr. 98, eins og félagafrelsisnefnd Alþjóðavinnumálastofnunarinnar hefur túlkað sáttmálann.``

Þetta lætur ekki mikið yfir sér. En þetta segir hvorki meira né minna en það að frv. félmrh., mannsins sem ætlaði að drösla verðugum sem óverðugum inn í nútímann, tókst ekki betur til í framkvæmd en svo að Lagastofnun Háskólans kemst að þeirri niðurstöðu að hér sé um að ræða brot á grundvallarskuldbindingum okkar á vinnumarkaði um félagafrelsi samkvæmt túlkun félagafrelsisnefndar og þar fauk það.

Næsta mál. Með leyfi forseta segir svo: ,,Hætt er við að ákvæði frv. um samþykkt miðlunartillögu teljist ekki samrýmast rétti manna til frjálsra samninga samkvæmt alþjóðasáttmálum.``

Hér er ekki verið að tala um nein aukaatriði málsins. Hér er verið að tala um sjálfan kjarna málsins, að tillögurnar, sem hæstv. félmrh. hafði lagt svona mikla vinnu í og svona mikilvægar var að kæmust fram, samrýmast ekki rétti manna til frjálsra kjarasamninga. Þriðja atriðið er síðan þetta, með leyfi forseta:

,,Vakin er athygli á því að fram hafa komið sjónarmið um að skipan félagsdóms kunni að fara í bága við [það er ekki fullyrt] 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu,`` samanber XIII. kafla, þ.e. rétturinn til að skjóta máli til úrskurðaraðila sem sannanlega væri óvilhallur og óhlutdrægur og væri því að treysta.

Með öðrum orðum er tilraun hæstv. félmrh. dæmd harkalega í þremur grundvallaratriðum. Við þetta er síðan að bæta að vakin er athygli á ýmsum álitamálum sem snerta líka grundvallaratriði. Þar eru t.d. fyrstu tillögur hæstv. félmrh. um heimildina til að stofna vinnustaðarfélög á vinnustöðum með lágmarksfjöldanum 250 manns að því tilskildu að þrír fjórðu taki þátt. Í þessari álitsgerð Lagastofnunar er að vísu ekkert kveðið upp úr um að það sé brot á lögum eða skuldbindingum. Þó nú væri. En það eru hins vegar færð mjög sannfærandi rök fyrir því að ákvæðið eins og það kom frá félmrh. standist ekki vegna þess að hann hafi ekki heimildir til þess að mismuna fólki á vinnumarkaðinum með slíkum takmörkunarákvæðum að því er varðar fjölda. Það muni ekki standast frelsi til kjarasamninga, frelsi gagnvart vali milli félaga og reyndar jafnræðisreglu.

Því næst er vakin athygli á því að ekki sé tekið nægilegt tillit til réttinda annarra stéttarfélaga sem eiga félaga á viðkomandi vinnustöðum.

Það er fleira sem sagt er vera fullkomlega álitamál. Þá nefni ég sérstaklega þar sem fjallað er um fjöldauppsagnir en það á frv. félmrh. sameiginlegt með frv. hæstv. fjmrh. að það varðar þau mál, þ.e. hópuppsagnir sem gripið er til en þar er áhersla lögð á að einnig á því sviði verði að virða vissa lagavernd sem felst í alþjóðlegum skuldbindingum sem við höfum tekið á okkur og reyndar að því er varðar samúðarvinnustöðvun.

Virðulegi forseti. Ég sagði í upphafi að ég héldi að það ætti að vera íhugunarefni fyrir hæstv. fjmrh. sem hefur ekki enn fengið slíka dóma inni í sínu frv. að líta á ófarnað hæstv. félmrh., fóstbróður síns í þessu stríði, vegna þess að sá sem hér talar talar út frá þeim forsendum að vissulega komi til álita að skoða, ræða, rökræða og semja um breytingar á vinnumarkaðnum. Þar er ekkert heilagt frekar en annars staðar. En það er afar slæmt þegar þannig tekst til að menn fara fram með slíku offorsi eftir að hafa slitið viðræðum í miðjum klíðum að henda fram frv. sem er slík hrákasmíð að það stenst ekki í grundvallaratriðum sæmilega óvilhalla umfjöllun lögfræðinga út frá spurningum um hvort það standist grundvallaratriði í vinnurétti, hvort það virði grundvallarreglur um frjálsa kjarasamninga og alþjóðlegar skuldbindingar.

Að vísu er það svo að sérfræðingar í vinnurétti, þar á meðal virtur lögfræðingur sem hefur áður verið vitnað til í þessum umræðum eins og Gestur Jónsson, lögfræðingur BSRB, hefur fært fyrir því rök að einnig hæstv. fjmrh. sé á hálum ís að því er varðar a.m.k. tvenn eða þrenn meginmálefni sem hér er verið að taka á. Hins vegar er það staðreynd að efh.- og viðskn., í allri þeirri umræðu sem farið hefur fram um þetta frv. þar, hefur ekki með formlegum hætti farið þess á leit eins og hv. félmn. um það að leita lögfræðilegrar umsagnar Lagastofnunar Háskólans eða annarra óvilhallra aðila til þess að fá úr þessu skorið að svo miklu leyti sem það er hægt án þess að leita til dómstóla. Það er nefnilega ekkert eftir af frv. hæstv. félmrh. Vinnustaðarfélögin eru undir stóru spurningarmerki um það hvort þau standist skuldbindingar, jafnræðireglu og lög. Atkvæðareglurnar sem hann setti, sjöfaldar, flóknar, eru raunverulega dæmdar óframkvæmanlegar einfaldlega vegna þess að að því er varðaði miðlunartillögurnar þar sem sáttasemjari átti að fá vald til þess að dæma menn til samflots í óskyldum félögum er niðurstaðan sú að samkvæmt atkvæðareglunum sem áttu að auka lýðræðið er niðurstaðan sú að það er ekki hægt að fella miðlunartillögu. Og að dæmunum sem hafa verið tekin um það er vikið í mörgum greinum. T.d. má taka dæmi af miðlunartillögu sem væri borin fram í félagi sem hefur 15 þúsund félaga, þar sem 40% aðila greiddu atkvæði. Við skulum segja að niðurstaðan væri sú að 1.000 manns samþykktu miðlunartillöguna, en 4.999 væru á móti. Þessi miðlunartillaga væri samkvæmt þessum lögum og reglum samþykkt þótt 4.999 væru á móti en 1.000 með þá væri þetta samþykkt þótt 85% mundu hafna niðurstöðunni.

Það er hægt að taka jafnvel enn þá fráleitara dæmi í 5.000 manna félagi. Ef þátttakan væri 30%, 1.500 mundu hafna tillögu en þrír einstaklingar samþykkja þá væri þetta samþykkt miðlunartillaga samkvæmt þessu. Þetta væri samþykkt miðlunartillaga þótt þrír samþykktu en 1.500 á móti vegna þess að þröskuldurinn um lágmarksþátttöku mótatkvæða fullnægði ekki ákvæðum frv.

Þessi dæmi ættu kannski að nægja til þess að álykta sem svo: Frómar eru óskirnar og mjög áhugaverður málflutningurinn um nauðsyn umbótanna en þetta eru skýr og ótvíræð dæmi um feigðarflan. Jafnvel þótt maður hafi enga ástæðu til þess að rengja góðan hug hæstv. félmrh. þótt maður væri allur af vilja gerður til þess að vilja taka til jákvæðrar umræðu hugmyndir hans, þótt maður vilji jafnvel taka undir nauðsyn breytinga og umbóta, þá er framganga hans í málinu þvílíkt flas og til þvílíks ófagnaðar að það er verr af stað farið en heima setið. Hæstv. félmrh. er búinn að koma málum í óefni. Að vísu má vera af því að það er ekkert eftir af þessu nema hylkið og umbúðirnar og innihaldið er fokið samkvæmt þessari umsögn að niðurstöðurnar verði ekki eins ambögulegar en eftir stendur spurningin: Af hverju þetta flas? Af hverju að fara offari? Af hverju þessi dreissuga framganga og öll þessi kokhreysti? Ég ætla að keyra þessi mál í gegn þegar ljóst er að svo er kastað höndunum til undirbúningsins að málið stenst ekki, þolir ekki skoðun, það er óvandað. Þetta eru viðvörunarorð og þetta varðar, virðulegi forseti, það mál sem við erum að ræða hér vegna þess að við erum í raun og veru að ræða um vinnumarkaðinn á Íslandi og tvö frumvörp, annað um almenna vinnumarkaðinn, hitt um opinbera geirann, sem bæði hafa það sama yfirlýsta markmið að víkja frá úreltum ákvæðum og laga löggjöfina að breyttum þjóðfélagsháttum. Það er þegar sannað mál að í fyrra tilvikinu að því er varðar almenna vinnumarkaðinn er þetta allt í skötulíki. Við erum núna að ræða um tilraun tvö að því er varðar opinbera geirann og fyrra dæmið er einfaldlega til viðvörunar og til viðvörunar um hvað? Um það að flas er ekki til fagnaðar í þessum málum. Um það að þessi mál eru afar viðkvæm og vandmeðfarin, um það að æskilegt væri ef menn eru að leita erlendra fyrirmynda að taka þá líka til fyrirmyndar aðferðafræðina og vinnubrögðin sem við höfum kynnst hjá öðrum þjóðum. Hver eru þau? Það kemur m.a. fram í greinargerð með þessu frv. að endurskoðun gamalla laga, endurnýjun rammalöggjafarinnar um samskipti aðila á vinnumarkaðnum og í opinbera geiranum, hugmyndir um nýja stjórnunarstefnu og annað þess háttar sem hér er verið að reyna að bera á borð, voru ekki keyrðar í gegn með þvílíku offorsi og ekki með þeirri aðferð að ætla að leggja fram slíkt frv. án þess að á undan gengi ítarlegt samráð, án þess að látið verði á það reyna til þrautar hvort unnt verði að ná sameiginlegri niðurstöðu því að væntanlega er það svo að ef þess er á annað borð kostur að ná slíkum sameiginlegum niðurstöðum þá er það haldbetra og líklegra til að standast í framkvæmd en ef menn fara fram með einhliða aðgerðum án samráðs.

Hvað tók það mörg ár í grannlöndum okkar að undirbúa og ræða og leita samráðs og þæfa hugmyndirnar áður en komist var að niðurstöðu um breytingar? Að jafnaði tók það um fjögur ár og í einu Norðurlandanna er nefnt að ferillinn hafi reyndar verið tíu ár. Það hálfa væri nú nóg, ég gæti sætt mig við það. En þetta lýsir auðvitað allt annars konar viðhorfum allt annars konar undirbúningi og í kjarna málsins, hæstv. fjmrh., allt annars konar stjórnunarstefnu vegna þess að partur af hinni nýju stjórnunarstefnu er náttúrlega að gera upp við sig hvort við ætlum að keyra þetta í gegn einhliða og taka afleiðingunum ef það er gert í blóra við eiginlega öll samtök starfsmanna ríkisins. Er það gæfulegt? Ætlum við að taka af því áhættuna? Eða er hæstv. fjmrh. og hæstv. ríkisstjórn að segja: Við höfum enga trú á því að það geti orðið nein samstaða um breytingar.

[21:45]

Herra forseti. Ef við lítum nú á stöðu mála á vinnumarkaðnum og höfum í huga bæði almenna vinnumarkaðinn og opinbera starfsmenn, þá ætla ég seinastur manna að neita því að það er að mörgu að finna. Það er margt sem er gagnrýnt og það eru margar hugmyndir uppi um breytingar. Það er fyrst og fremst eitt sem við stöldrum við þegar við lítum á launakjör fólks á Íslandi. Það er að Ísland er orðið láglaunaland í þeim skilningi að við þolum ekki lengur samanburð við þjóðir sem við höfum hingað til haft til samanburðar. Við erum að dragast aftur úr öðrum þjóðum í launum og reyndar í launakjörum. Launin eru miklu lægri, taxtarnir eru miklu lægri en í þessum viðmiðunarlöndum. En við bætum okkur það upp með meiri atvinnuþátttöku í heild í þjóðfélaginu og miklu lengri vinnutíma, svo miklu lengri vinnutíma að á almenna markaðnum er það a.m.k. svo að það munar hvorki meiru né minna en tveimur og hálfum mánuði á ári sem venjulegur íslenskur verkamaður vinnur lengur en samsvarandi viðmiðunarhópar t.d. í Danmörku. Launin duga ekki til framfærslu fjölskyldu, launin sem menn fá fyrir vinnu sína í dagvinnu eru svo lág og þeir sem geta bæta sér það upp með aukinni atvinnuþátttöku og lengri vinnutíma, þeir sem eiga kost á því. Því næst eru það að ráðstöfunartekjurnar eftir skatta. Þar dregur svolítið úr bilinu einfaldlega vegna þess að þrátt fyrir allt er skattbyrðin ekki eins þung á Íslandi og í viðmiðunarlöndunum.

Engu að síður eru gallar fram komnir í skattkerfinu okkar sem varða grundvallarafkomu, sérstaklega barnafjölskyldna og þá ungra fjölskyldna sem eru á því aldursskeiði að þurfa raunverulega að afla verulegra tekna til þess að standa undir húsnæðisútgjöldum þegar útgjaldamynstrið er mest. Með öðrum orðum, samanburðurinn á einhverjum tilteknum hópum er þannig að nú orðið er sennilega ekki búið jafnilla að neinum hópum manna, af hálfu hins opinbera á Íslandi, eins og þessum barnafjölskyldum sem hafa mikla skuldabyrði og þurfa að vinna sig út úr skuldum. Ástæðurnar eru einfaldar, þ.e. þær blasa við augum. Það er kannski ekki einfalt að taka á því. En ástæðurnar eru fyrst og fremst þær víðtæku tekjutengingar sem gripið hefur verið til á undanförnum árum --- sá sem hér talar ber vissulega sína ábyrgð á þeim alveg eins og hæstv. fjmrh. --- bæði að því er varðar bótagreiðslur til launþega og lífeyrisþega og eins skerðingar á bótagreiðslum. Þetta hefur leitt til þeirrar niðurstöðu að í reynd eru jaðarskattar á þessa launþegafjölskyldur orðnar svo háar að menn geta ekki lengur unnið sig út úr skuldum.

Það er gríðarleg miðstýring á vinnumarkaðinum á Íslandi, vissulega í opinbera geiranum þar sem ein nefnd fer með samninga fyrir hönd vinnuveitandans við stéttasamtökin og vissulega á almenna markaðnum þar sem öll fyrirtæki á Íslandi framselja umboð til stjórnar Vinnuveitendasambandsins og endanlega til eins samningamanns til þess að fara með alla samninga á almenna vinnumarkaðnum. Þarna eru stór samflot. Þarna eru voðaleg meðaltöl. Og út úr þessu koma kjarasamningar sem menn geta fyrst og fremst gagnrýnt fyrir það að í þeim er enginn sveigjanleiki, í þeim er lægsti samnefnarinn og í þeim eru meðaltölin. Reynslan af þessu er ekki góð, hvorki þegar við lítum á árangurinn, hver niðurstaðan er varðandi launin, kjörin og kaupmáttinn, né þegar við lítum á möguleikana á því að taka tillit til breytilegrar afkomu atvinnugreina, fyrirtækja o.s.frv. Þetta er raunhæf og alvarleg gagnrýni, ekki tilbúin. Þetta er eitthvað sem fólk í landinu finnur fyrir og varðar líka, ekki bara tölur um afkomu, heldur einnig réttindin. Þ.e. þetta leiðir til einnar allsherjarmeðaltalsmennsku og þetta leiðir til vinnuþrælkunar og þetta leiðir til kuldalegs samfélags með meira áreiti og álagi á fjölskyldur og heimili en þyrfti að vera. Spurningin út frá þessari umræðu er: Er ekki þetta eitt af því sem ætti að vera forgangsverkefni einnar ríkisstjórnar að breyta? Er hæstv. ríkisstjórn að reyna að breyta þessu? Eru það tillögur hennar í skattamálum? Ég vísa t.d. til forgangsverkefnisins, umræðunnar sem hér hefur verið um fjármagnstekjuskatta, sem er einfaldlega í því fólgið að lækka stórlega skatta á þá 10% skattgreiðenda á Íslandi sem eru efnamestir, á kostnað þeirra sem lakari hafa kjörin.

Þrátt fyrir nokkurn vott um nokkurn efnahagsbata þótt hann hvíli á veikum grunni, vott um að við erum komnir út úr verstu kreppunni sem staðið hefur í sjö ár, þá er það í þessu umhverfi sem fólk upplifir öryggisleysið um afkomu sína og atvinnuöryggið. Það er þungur undirtónn í þessari umræðu allri saman. Við höfum verið að upplifa atvinnuleysi í fyrsta sinn í mörg ár, séð það í návígi. Flestar fjölskyldur á Íslandi þekkja það með einum eða öðrum hætti af eigin reynd, ekki allar en mjög margar. Við erum að lifa mikið breytingaskeið og það er djúpstæð tilfinning og kvíði í hugum mjög margra gagnvart starfsörygginu, ótti við öryggisleysi og auk þess finna margir að þeir eru beittir ranglæti eða skilningsleysi af hálfu opinberra aðila þegar kemur t.d. að umræðunni um skattamálin.

Í framhaldi af þessu og að þessu sögðu, virðulegi forseti, tel ég rétt að beina augunum svolítið að opinbera geiranum sérstaklega, að samskiptum ríkisvaldsins og starfsmanna ríkisins, vegna þess að frv. sem hér er verið að ræða er borið þannig fram að hæstv. fjmrh. í nafni ríkisstjórnar segir: ,,Ég legg fram frv. sem ég vil fá afgreitt með meiri hluta Alþingis með mjög skömmum undirbúningi og á mjög skömmum tíma``, samanber þessi fjögur ár sem ég vitnaði til áðan, ,,... og það er vitað að þetta er gert án þess að leitað hafi verið eftir, gerð tilraun til að fá fulltrúa stéttarfélaganna til samráðs, samstarfs og samninga.`` (Fjmrh.: Þetta er ekki rétt.) Ég heyri að hæstv. fjmrh. segir: Þetta er ekki rétt. Ég á sæti í efh.- og viðskn. Ég hef setið kvölds og morgna við að lesa umsagnir forsvarsmanna stéttarfélaganna. Ég hef setið í viðræðum við forsvarsmenn stéttarfélaganna. Og ef hæstv. fjmrh. segir: ,,Þetta er ekki rétt``, þá er hann að lýsa þessa hópa, þessa tugi forsvarsmanna opinberra starfsmanna sem við okkur hafa talað í efh.- og viðskn. ósannindamenn vegna þess að það sem þeir hafa sagt er einfaldlega þetta: ,,Við höfum verið reiðubúnir til viðræðna. Við höfum verið reiðubúnir til samninga. En það hefur ekki verið hlustað á okkur. Það hefur ekki verið boðið upp á slíkar viðræður. Við höfum ekki komið að undirbúningi þessa máls.`` Og þegar þeir koma að því eftir á og lýsa mótmælum sínum og gagnrýni, þá er spurningin þessi: Hefur verið tekið tillit til þess? Hefur stjórnarmeirihlutinn gefið sér tíma til þess? Ég veit hvað hv. formaður efh.- og viðskn. mun segja um það. Hann mun segja: ,,Já, það hefur farið fram mjög málefnaleg umræða í nefndinni og að hluta til eins og við höfum getað án þess að breyta meginstefnu frv.``, held ég að hann orði það: ,,Það hefur verið reynt að taka tillit til breytinga til bóta sem stjórnarandstaðan hefur komið með.``

Hv. þm. Ágúst Einarsson sem var frsm. minni hlutans fyrr í dag hefur farið yfir það. Hann hefur farið yfir þessar breytingartillögur og þetta er ekki svar við því sem ég er að ræða vegna þess að ég er einfaldlega að segja eftirfarandi: Á opinbera markaðnum gildir ákveðin jafna, kjarasamningajafna. Hún er þessi: Kjör opinberra starfsmanna mynda eina heild, annars vegar af þeim réttindum sem þeir hafa annaðhvort áunnið sér í samningum eða fengið staðfesta í löggjöf og svo hins vegar útborguðum launum þeirra.

Í umræðunum í efh.- og viðskn. var það rifjað upp að sá formaður samninganefndar ríkisins væri áreiðanlega ekki til sem hefði ekki í kjaraviðræðum við starfsmenn ríkisins sagt: ,,Í ljósi þess að þið hafið meiri réttindi á mörgum sviðum en gerist og engur á almenna markaðnum getið þið ekki gert kröfur um sambærileg laun.`` Með öðrum orðum, rökin fyrir því að það eru almennt séð lægri laun í opinbera kerfinu eru þau að opinberir starfsmenn njóti meiri réttinda og þau séu launaígildi. Það er almennt viðurkennt að réttindastaða opinberra starfsmanna er betri en almennt gengur og gerist á almenna markaðnum. Það er jafnframt viðurkennt að launin almennt séð eru lægri og þau eru lægri vegna þess að þessi rök hafa verið notuð í öllum kjarasamningum lon og don svo langt aftur í tímann sem elstu menn muna. Þessi jafna er staðreynd og það er staðreynd að að svo miklu leyti sem ráðningarfesta opinberra starfsmanna er meiri en annarra, þá hafa þeir goldið þess í launum. Þetta er talið til meiri réttinda. Það er ekkert vafamál og ég hef engan heyrt neita því að í öllum þessum kjarasamningaumræðum hefur verið sagt: ,,Það er staðreynd að opinberir starfsmenn njóta betri lífeyrisréttinda en gerist og gengur gerist á almenna markaðnum.`` Það hafa menn reiknað sem ígildi svo og svo mikilla launa og þess vegna er sagt: ,,Vegna betri lífeyrisréttinda er réttmætt og rök fyrir því að laun opinberra starfsmanna séu lægri. (Fjmrh.: Þetta er rétt.) Þetta er rétt. Meira að segja hæstv. fjmrh. neitar ekki þessu. Það er kannski ástæða til þess að staldra við þetta því að þetta á við um ráðningarfestuna, þetta á við um lífeyrissjóðina alveg tvímælalaust, þetta á við um fjöldamargt annað sem myndar kjör opinberra starfsmanna í formi réttinda. Það er alveg sama hvort við teljum það veikindaréttindi eða fæðingarorlof eða hvað annað sem verið er að fjalla hér um.

Af því að minnst var á lífeyrisréttindin, er þess að geta að það er ekki bara að þeir fóstbræður, hæstv. fjmrh. og hæstv. félmrh., séu með frumvörp sem varða réttindaþáttinn, annars vegar í samningum við opinbera starfsmenn og hins vegar almenna markaðinn. Hæstv. fjmrh. bar fram frv. um breytingar á lífeyrisréttindum. Það er ástæða til þess að rifja það upp að hæstv. forsrh. greip fram fyrir hendur hæstv. fjmrh. eins og er kækur hans stundum og dró það frv. til baka. Hann gerði það eftir að opinberir starfsmenn höfðu fengið tryggingastærðfræðing til þess að meta frv. Þá héldu opinberir starfsmenn því fram að það hefði ekki staðist sem upp var lagt með í frv., nefnilega að í því fælist engin skerðing á áunnum réttindum. Tryggingastærðfræðingurinn komst að þeirri niðurstöðu að hér væri ekki um sambærileg verðmæti að ræða, nýja frv. tryggði ekki sömu verðmæti, í því fælist skerðing.

Hæstv. forsrh. virðist hafa viðurkennt að svo væri. Að minnsta kosti vildi hann draga frv. til baka og hann gerði meira. Það var ekki nóg með að hann segði: ,,Það skal standa að við tryggjum öll áunnin réttindi þannig að opinberir starfsmenn verði í engu sviptir áunnum réttindum.`` Hann bætti líka við, og það er ástæða til að staldra við það, því sem menn hafa skilið sem svo að hann viðurkenndi líka að það ætti að tryggja þeim óbreytta ávinnslu réttinda eins og þetta heitir á máli opinberra starfsmanna.

[22:00]

Ég er með í höndunum, virðulegi forseti, viðtal við Eirík Jónsson, formann Kennarasambands Íslands, þar sem hann er að fjalla um samskipti sín við ríkisvaldið í tilefni af samkomulagi um tilflutning verkefnatilfærslu til sveitarfélaganna og framlagningu þessara frumvarpa. Hann segir um þau mál hluti sem varða kjarna þessarar umræðu og ég leyfi mér að hafa eftir honum, með leyfi forseta:

,,Það voru einkum þrjú atriði sem félögin settu sem skilyrði fyrir að taka þátt í samvinnunni á ný, þ.e. að lífeyrisréttindi haldist óskert í nútíð og framtíð, að félögin eigi rétt á að segja upp kjarasamningum komi til þess að lögum um réttindi og skyldur kennara og skólastjóra verði í framtíðinni breytt í andstöðu við félögin og í þriðja lagi að samningsréttur kennara og skólastjóra verði ekki skertur.

Ríkisstjórnin hefur með bréfi dags. 26. mars sl. heitið okkur að lífeyrisréttindi kennara og skólastjóra verði til framtíðar jafnverðmæt núverandi réttindum, áunnin réttindi haldi sér. Jafnframt hefur forsrh. lýst því yfir að núverandi sjóðfélagar muni halda öllum áunnum réttindum svo og öðrum sem þeir geta vænst að ávinna sér samkvæmt gildandi lögum.``

Þetta er það sem heitir á máli opinberra starfsmanna ávinnsla réttinda. Þeir minna á að það er einkennandi fyrir launakerfi opinberra starfsmanna og reyndar réttindakerfi að starfsaldurshækkanir eru mjög einkennandi fyrir þær þannig að réttindi manna vinnast með tíð og tíma. Maður sem hefur verið í opinberu starfi í 13 ár getur vænst þess að á 15. ári bæti hann við þessi réttindi. Það er ávinnslan, þ.e. hann er ekki bara hugsanlega sviptur áunnum réttindum heldur einnig þeim réttindum sem eru handan við hornið í tíma talað. Hæstv. forsrh., það er ekki hægt að skilja þessi orð á annan veg en þann gagnvart lífeyrissjóðsréttindum en að hann sé að segja: Ég er ekki bara að tala um áunnin réttindi þeirra sem eru nú starfandi heldur líka ávinnsluna fram í tímann séð á grundvelli óbreyttra laga. Af þessu tilefni er ástæða til þess að spyrja alveg sérstaklega hæstv. fjmrh.: Ég er ekki að gera það að gamanmálum að spyrja hæstv. fjmrh. hvort hann sé sammála lögfræðinni hjá hæstv. forsrh., ég læt það liggja á milli hluta. Ég spyr bara hvort hæstv. fjmrh. sé sáttur við þessa yfirlýsingu hæstv. forsrh. Og er hann sammála þeirri túlkun sem hér er birt af hálfu formanns Kennarasambandsins um það hvað í því felst? Það er að segja að nú sé komin fram skuldbinding af hálfu ríkisstjórnarinnar um hvort tveggja: Jafnverðmæt réttindi óskert, öll áunnin réttindi núverandi starfsmanna óskert og varin og líka það að halda öllum áunnum réttindum, svo og öðrum þeim sem þeir geta vænst að áunnin séu samkvæmt gildandi lögum. Er fjmrh. samþykkur þessu? Er þetta skuldbinding af hálfu ríkisstjórnarinnar? Ef svörin við þessum spurningum eru já burtséð frá því hvort þetta er skynsamlegt eða ekki eða góð lögfræði, hver er þá niðurstaðan? Hverjar eru ályktanirnar? Ég leyfi mér að spyrja hæstv. fjmrh.: Megum við vænta þess að þessar sömu grundvallarreglur gildi að öllu leyti, ekki bara gagnvart lífeyrisréttindum heldur líka gagnvart öðrum réttindum? Er þessi tékki hæstv. forsrh. gildur? Verður tekið við honum í fjmrn.? Verður hann uppáskrifaður? Verður hann greiddur og á hann bara við lífeyrisréttindi eða á hann við allan réttindapakkann?

Það er ástæða til þess að halda því líka til haga í þessari umræðu að það er ekki bara að forsrh. hafi lýst þessu yfir í nafni ríkisstjórnar, heldur hafa sveitarfélögin einnig með bréfi dags. 21. mars samþykkt að kennarafélögin geti sagt upp kjarasamningum komi til þess að lögum um réttindi og skyldur kennara og skólastjóra verði breytt í andstöðu við félögin, þ.e. ef lögin um réttindi og skyldur sem hér er verið að breyta verða einnig látin ná til kennara og skólastjóra, þá viðurkennir Samband sveitarfélaga, hinn nýi vinnuveitandi, að það sé tilefni til uppsagnar. Hvað þýðir það? Það þýðir að þau eru að viðurkenna að ef opinberir starfsmenn verða sviptir réttindum sem eru ígildi kjara séu samningar lausir og þá eigi að setjast að samningaborði. Til hvers? Væntanlega til þess, það felst í því viðurkenning, að þá eigi að bæta skert réttindi með bættum launum. Merkingin getur ekki verið önnur. Það er með öðrum orðum fullkomin viðurkenning á jöfnunni sem er grundvallarjafnan í þessu máli að skerðing á réttindum kallar á samninga. Það má ekki taka þau af bótalaust einhliða heldur kallar þetta á samninga um að bæta það t.d. í launum, ekki bara lífeyrisréttindi heldur einnig önnur þau réttindi sem á liðnum árum hafa verið viðurkennd sem ígildi launa, sem hluti af heildarkjörum.

Virðulegi forseti. Það er ekki lokið öllum þessum yfirlýsingum og bréfum hæstv. ráðherra því að eftir er hlutur félmrh., framúrstefnumannsins. Hér segir, með leyfi forseta:

,,Loks lýsti félmrh. því yfir á fundi með forustumönnum heildarsamtaka launafólks að hann væri tilbúinn til að gera breytingar á fram komnu frv. um stéttarfélög og vinnudeilur að því er varðar miðlunartillögur og afgreiðslu þeirra sem er búið að dæma ólöglegt þannig að núverandi lagagrein um það efni standi óbreytt.`` Gjafir eru gefnar eða hitt þó heldur. En það er eiginlega komið að hæstv. fjmrh. að halda í kapphlaupinu í við hina tvo á undanhaldinu um að gefa til baka eitthvað af þessu sem átti að taka. Þeir eru á fullu, þeir eru á harðaspretti, forsrh. og félmrh., að draga í land eða hala út og nú er bara eftir yðar hlutur í skut.

Herra forseti. Það þarf ekki að eyða orðum að því hvernig fór um sjóferð hæstv. félmrh. En hvað með þau góðu og fjálglegu áform sem hæstv. fjmrh. hefur þó uppi um nútímavæðingu? Ég sagði það við 1. umr. þessa máls að því verður ekki haldið fram með rökum að allt í þessu frv. sé óalandi, óferjandi og óhafandi og ekki að nokkru ræðandi. Það hefur enginn sagt það. Það hefur enginn sagt það heldur af hálfu stéttarfélaganna. Við höfum heyrt hv. þm. Alþb. og óháðra, held ég að það heiti, og formann BSRB lýsa því yfir að þau heildarsamtök hafi allan tímann verið reiðubúin til viðræðna og samninga. Og sá sem hér stendur sagði t.d. við 1. umr. þessa máls: Ég get alveg fallist á að það eigi að afnema tryggilega og með lögum svokallaða æviráðningu. Ég fellst á þau rök að það samrýmist ekki nútímastjórnunarháttum að ráða einhvern tiltekinn hóp embættismanna með konunglegri tilskipun um að þeir hafi embætti sín að léni til æviloka án nokkurs tillits til þess hvernig þeir sinna sínum störfum. Þetta hefur verið mín skoðun alla tíð og ég er að sjálfsögðu sömu skoðunar nú og ég hef verið og ég vitna til reynslu sem fulltrúi framkvæmdarvaldsins og ráðherra í ríkisstjórn og yfirmaður slíkra æviráðinna manna. Ég held að það sé engum manni hollt ... (Gripið fram í: Og skólameistari.) Og skólameistari. Ég held að það sé engum manni hollt að búa við slíkt aðhaldsleysi og það er ekki partur af mannréttindum opinberra starfsmanna að hafa eitthvert embætti að léni. Ég er því samþykkur því að það megi fara.

Ég fellst líka á þau rök þegar menn eru að tala um biðlaunaréttinn að að svo miklu leyti sem menn eru að tala um staðreyndir, þ.e. um það að vegna túlkunar og fyrri dómsniðurstaðna sé svo komið að jafnvel við einfalda formbreytingu megi finna dæmi þess að menn hafi haldið tvöföldum launum, þá er ekkert sem réttlætir það. Hitt er svo annað mál að það er jafnrétt að einmitt vegna þess að hluti af starfsmönnum ríkisins voru æviráðnir og vegna þess að þeir höfðu ekki samnings- og verkfallsrétt hefur launum þeirra verið haldið niðri í staðinn. Og einmitt vegna þess að það hefur verið vitnað til þessa biðlaunaréttar hafa jafnframt verið notuð þau rök að þetta sé partur af sérstaklega hagstæðum ráðningarkjörum, starfsöryggi og ráðningarfestu opinberra starfsmanna. Og einmitt vegna þess að túlkunin hefur verið þeim í hag er hin hliðin á þeirri jöfnu sú að ef á að afnema þetta einhliða, þá á að bæta það í launum. Þetta er því einföld spurning: Er rétt af vinnuveitandanum að ætla að afnema þessi atriði, ég nefni bara þessi tvö sem dæmi, einhliða með löggjöf? Í stað þess að segja og láta á það reyna: Þetta tvennt teljum við óeðlilegt. Þetta tvennt viljum við leggja af. Eruð þið reiðubúnir til þess að setjast að samningaborði? Og að svo miklu leyti sem þið eruð reiðubúnir til þess að fallast á að þetta verði afnumið, erum við reiðubúnir til þess að ræða það sem hluta af ykkar starfskjörum að bæta það að einhverju leyti í launum. Um þetta hlýtur málið að snúast og það er einmitt þessu sem hefur verið hafnað. Og það er þetta sem þýðir að það færist óeðlileg harka í leikinn. Þótt ég hafi aðeins nefnt tvö dæmi um hluti sem er víðtæk samstaða um í þjóðfélaginu að megi breyta, þá er hitt jafnréttmæt krafa að það sé ekki bara höggvið á þetta einhliða heldur boðið upp á samninga vegna þess að þetta er ígildi launa. Menn hafa búið við lægri laun vegna þess arna og samningaleiðin er auðvitað rétta leiðin og líklegri til þess að skapa sátt um niðurstöðuna.

Herra forseti. Það er margt sem bendir til þess að þessum frómu orðum um vilja til þess að breyta úreltu kerfi og úreltum lögum sé í raun og veru ekki fylgt eftir með sannfærandi hætti, þ.e. með viljanum til þess að setjast að samningaborði með starfsmönnum ríkisins og láta á það reyna til þrautar hvort um þetta geti tekist samstaða. Það þýðir ekki að vísa til þess að viðræðum hafi verið hafnað af hálfu opinberra starfsmanna. Það liggja fyrir yfirlýsingar um að þeir séu reiðubúnir til þess og hafi verið það lengi. Það hefur bara ekki verið látið á það reyna. Höfnunin liggur ekki fyrir. Og að svo miklu leyti sem þetta er þá orðið að spurningu um stöðu stéttarfélaga og um kjarasamningaferli, þá leyfi ég mér, með leyfi forseta, að vitna í álit minni hlutans. Þar segir á þessa leið, virðulegi forseti:

[22:15]

,,Sömuleiðis er frv. mjög ábótavant að því leyti að ekki er tekið á kjarasamningsferli hjá ríkinu. Kjarasamningar á vegum ríkisins fara þannig fram að ein miðstýrð nefnd, samninganefnd ríkisins sem starfar á vegum fjmrn., gerir alla kjarasamninga við ríkisstarfsmenn. Engin tilraun er gerð í frv. til þess að brjóta þessa miðstýringu á bak aftur og stokka upp það launakerfi sem opinberir starfsmenn búa nú við og sumir hafa lýst yfir að sé ónýtt launakerfi.``

Ég spyr: Er það trúverðugt af hálfu umbótamannsins sem er að boða breytingar, nýja starfsmannastefnu, nýja stjórnunarstefnu, að draga úr miðstýringu, að auka sveigjanleika, að auka valddreifingu ef byrjunin á ferlinum er sú að segja: Við hlustum ekkert á samningsaðilann. Við leitum ekkert eftir skoðunum eða áliti eða ályktunum samningsaðilanna. Við erum ekkert að leggja okkur fram um það að taka þessi mál til umræðna eða viðræðna, jafnvel þótt óskir komi fram um það. Við gerum þetta einhliða og við erum ekki með neinar tillögur um að breyta þessu kjarasamningaferli, þessu rammmiðstýrða kerfi einnar ríkisrekinnar nefndar í mjög flóknum og viðamiklum opinberum geira með mjög breytilega starfsemi.

Hvað segir umbótamaðurinn mikli t.d. um hlut stéttarfélaganna? Hvaða hugmyndir birtast okkur annars vegar í frv. sjálfu, í málflutningnum? Hver er afstaða vinnuveitandans, hæstv. fjmrh., ríkisstjórnar til stéttarfélaganna? Hvaða hugmyndir hefur hann um rétt þeirra? Það er ástæða til þess að spyrja vegna þess að hæstv. félmrh. steytti á því skeri að hann hafði greinilega ekkert kynnt sér kjarnann í þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem við höfum tekið á okkur á undanförnum árum í formi fjölmargra, sex til átta, alþjóðlegra samninga sem þýða að þeir hafi fengið lagagildi á Íslandi og endurspegla raunverulega kjarnann í þróun vinnuréttar í löndunum í kringum okkur. Hæstv. félmrh. steytti á því skeri. Frv. hans komst ekki fram hjá þeim skerjum. Hann féll á fyrsta prófi, öðru prófi og þriðja prófi og situr eftir með slitrurnar af frv.

Það er ástæða til þess að spyrja: Er hæstv. fjmrh. raunverulega haldinn sams konar hugarfari? Gerir hann ekki ráð fyrir því að það þurfi að gera breytingar á þessu miðstýrða kerfi, að draga úr miðstýringarvaldi einnar nefndar, að draga úr miðstýringarvaldi fjmrn. og að koma málum í þann farveg að fulltrúar stéttarfélaga í opinbera geiranum fái til þess ráðrúm, fái til þess farveg, fái til þess rétt að koma á framfæri í beinum viðræðum og samningum hugmyndum sínum, tillögum o.s.frv. Ég held að það sé laukrétt sem segir í nefndaráliti minni hlutans, með leyfi forseta:

,,Í frv. skortir algerlega stefnumótun hvað snertir samningsstöðu stéttarfélaga við ríkisvaldið og stofnanir þess. Það felur í sér lélegri ráðningarfestu en verið hefur. Það vantar algerlega farveg ef deilur verða milli forstöðumanns og starfsmanna einstakra stofnana. Þetta frv. gengur raunverulega út á það að geðþóttavald forstöðumanna ráði ríkjum í opinberri stjórnsýslu.``

Sér í lagi er hvorki kjarasamningaferlinu né hlutverki stéttarfélaganna gerð skil þannig að um það sé hægt að segja að það sé í anda einhverra nútímalegra starfsmanna eða stjórnunarstefnu. Þetta er miðstýringarstefna, þetta er boðvaldsstefna og það er boðið upp á hættu á fjarstýringu frá fjmrn. í gegnum forstöðumenn jafnvel þar sem hæstv. fjmrh., ég efast ekkert um að hann meinar það, er að boða sveigjanleika sinn í því formi að segja: Við ætlum að auka vald forstöðumanna, þar á meðal gefa forstöðumönnum vald til þess að umbuna góðum starfsmönnum með viðbótarlaunum. Rökin eiga þá að vera þau að kjarasamningar eru lágmarkssamningar en ef ríkið ætlar að keppa á vinnumarkaðnum eftir hæfu fólki, ef það ætlar að geta laðað til sín hæft fólk, ef það vill halda í hæft fólk sem ella leitar út á almenna vinnumarkmaðinn vegna hærri launa, þá þarf að vera einhver sveigjanleiki í kerfinu. Það verður einhvern veginn að bæta upp allt miðstýringarkerfi sem felst í kjarasamningaferlinu sem ekki er verið að breyta. Þess vegna segir hann, ég geri ráð fyrir að hann meini það, að það er jákvæð tillaga að auka vald forstöðumannanna.

En meira að segja í því er sá skafanki og sá galli að allar tilraunir okkar fulltrúa minni hlutans í efh.- og viðskn. til þess að fá alvarlega viti borna umræðu um það mál hafa verið árangurslausar, þ.e. hvernig megi halda kostum þessara breytinga en gefa launþegum einhvers konar tryggingu fyrir því að þetta bjóði ekki heim misbeitingu, bjóði ekki heim auknu geðþóttavaldi í tiltölulega stirðnuðu embættiskóngaveldi, t.d. með því að laga þetta nær almennum reglum á almenna vinnumarkaðnum, með því að skipa ríkisstofnunum stjórnir þar sem t.d. fulltrúar starfsmanna ættu fulltrúa í stjórn, ekki meiri hluta en fulltrúa í stjórn, þar sem með öðrum orðum væri stjórn við hliðina á forstjóra og starfsmennirnir ættu þar einhvern fulltrúa alveg eins og á almenna vinnumarkaðnum er ekki bara forstjóri sem getur ráðið og rekið heldur eru líka stjórnir að baki honum og að lokum hluthafafundur eða aðalfundur, með öðrum orðum forstjóravaldið hefur aðhald. Eins þarf það að vera í opinberum rekstri ef mennirnir meina eitthvað með því sem þeir eru að segja um það að þeir vilji færa stjórnunarhætti í opinbera geiranum nær því sem tíðkast á almenna markaðnum. Þetta var augljóst dæmi um tillögu þar sem hefði þurft að gera breytingar en breytingunum var hafnað og reyndar heyrði ég aldrei nein trúverðug rök fyrir því af hverju því var hafnað.

Reyndar er það svo að þegar þeim meginrökum er beitt að hér sé verið að stefna að því að samræma opinbera stjórnsýslu, opinberan rekstur því sem tíðkast í stjórnun fyrirtækja á almenna markaðnum þá á það stundum við en stundum ekki samanber þessi dæmi sem ég var að nefna að forstöðumaður á almenna vinnumarkaðnum getur ráðið og rekið en hann hefur aðhald af stjórn á hluthafafundum og aðalfundum.

Annað dæmi sem kemur fram. Í þessu frv. er gert ráð fyrir að færa forstöðumanni vald til þess að skylda starfsmenn sína til yfirvinnu að ákveðnu lágmarki. Það vald hafa forstjórar á almenna vinnumarkaðinum ekki. Er hægt að nefna einfaldara dæmi en jafnaugljóst dæmi um það að ef hér væru almennileg, ærleg samskipti milli vinnuveitenda og launþega þá væri þessi hlutur samningsatriði? Það væri augljóslega samningsatriði vegna þess að kvaðir eins og þær að vera skyldaður til yfirvinnu er auðvitað partur af starfskjörum og fyrir það ætti að semja um að þessir launþegar fái hærri laun. Sama er að segja um ákvæði svo að ég taki dæmi af réttinum til þess að framlengja uppsagnarfrest í svokölluðum hópuppsagnatilvikum. Það vald hafa ekki forstjórar á almenna vinnumarkaðinum. Sú kvöð er ekki lögð á launþega á almenna vinnumarkaðinum en hvers vegna er því hafnað að launþegar í opinbera geiranum eigi rétt á einhverri umbun í formi launa fyrir að taka á sig slíkar kvaðir? Hvers vegna svara menn því neitandi?

Það er einhver falskur tónn í fínu ræðunni hæstv. fjmrh. þegar hann er að boða nýju nútímalegu stjórnunar- og starfsmannastefnuna sína. Í almennum hugmyndum er farið með faðirvorið og sagt að við viljum gera hið góða sem við meinum en í einstökum atriðum er ekkert eftir þessu farið. Þá halda menn fast við miðstýringarkerfið, óbreytt kjarasamningaferli, forakta hlutverk stéttarfélaga, forstjóravaldið er aukið. Í breytingartillögum á seinustu stundu er samt sem áður komið fram með þá breytingu ef þessir forstjórar standa ekki kúrsinn samkvæmt fjárlögum, fara yfir fjárlög, fjárlagaheimildir, þá hefur hæstv. ráðherra taumhaldið enn til þess að svipta þá réttinum til þess að greiða viðbótarlaun. Hvað eru margir forstjórar í ríkiskerfinu sem hafa ekki staðið kúrsinn gagnvart fjárlögum? Ég veit það ekki. Ég hef á tilfinningunni að þeir séu býsna margir. Þá er kannski eitt stærsta umbótamálið sem átti að vera hérna fokið og þar með frasinn um aukinn sveigjanleika og um það að laga grundvallaratriði í opinberum rekstri að almenna vinnumarkaðnum, farið í mjög veigamiklum atriðum.

Herra forseti. Í nefndaráliti minni hlutans er rækilega gerð grein fyrir einum 23 atriðum sem varða réttindamál opinberra starfsmanna sem hér er verið að taka á með þeim hætti að við gagnrýnum vinnubrögðin og aðferðirnar. Ég veit að hv. frsm. minni hlutans, Ágúst Einarsson, hefur farið yfir þetta í ítarlegu máli og þetta liggur fyrir í þingskjali og ég vil þess vegna ekki eyða miklum tíma í að fara yfir það. En ég stikla á stóru, með leyfi forseta.

Það er ekkert sjálfgefið að þrengja gildissvið laganna þannig að starfsmenn í ríkisrekstri hjá opinberum fyrirtækjum eða stofnunum sem eru algerlega fjármögnuð af ríkinu eða í eigu opinberra aðila skuli teknir út undan gildissviði þessara laga. Það er ekkert sjálfgefið við það vegna þess að að svo miklu leyti sem um er að ræða opinberan rekstur er hann fjármagnaður fyrir skattpeninga almennings. Allt öðru máli gegnir ef um er að ræða hlutafélög sem ríkið ætti kannski hlut í en fjármagnar ekki að öllu leyti.

Annað dæmi. Skertur möguleiki starfsmanna til að tala máli sínu og skjóta ákvörðun yfirmanns til æðra stjórnsýslustigs. Ég tek undir það með fulltrúum stéttarfélaga að það er vandséð hvaða rök menn færa fyrir slíku eða hvernig menn ætla að klæða þetta í eitthvert gervi nútímalegra stjórnunarhátta. Sannleikurinn er sá að ég held að eitt stærsta skrefið í umbótaátt að því er varðar opinbera stjórnsýslu á Íslandi sem stigið hefur verið á seinni árum sé setning stjórnsýslulaganna. Ég viðurkenni að setning þeirra, aðhaldið sem af þeim stafar hefur áreiðanlega átt sinn hlut í því að bæta marga þætti sem voru gagnrýniverðir samkvæmt hefðum í íslensku stjórnkerfi. En með þessu ákvæði er verið að þrengja að og draga úr virkni stjórnsýslulaganna.

[22:30]

Ég hef áður vikið að þessari skyldu til þess að vinna yfirvinnu sem á ekki á að bæta á nokkurn máta og ekki gefa kost á samningum um. Ég hef nefnt nokkur dæmi um það þótt hæstv. ráðherra tali um valddreifingu og sveigjanleika er hann í hverju dæminu á fætur öðru að sanka að sér meiri völdum samanber bandspottann sem hann hefur um taglið á nýja forstjóraveldinu. Ég vek athygli á því að það er ekkert gert til þess að breyta grundvallaratriðunum í kjarasamningaferlinu, hinni miklu miðstýringu sem þar er. Og meðan því er ekki breytt er ólíklegt að sveigjanleikinn eða einhver nýmæli að því er varðar framkvæmd launakerfa sem tækju tillit til þátta sem þarf að taka tillit til eins og dugnaðar, ábyrgðar, afkasta o.s.frv. rúmist innan þess. Það er einkenni á þessu frv. og reyndar frv. beggja hæstv. ráðherra að þeir eru í einu og öllu að draga taum vinnuveitenda. Þeir gera það eiginlega blygðunarlaust og þeir gera það oft í svo smáum atriðum að það vekur furðu og þeir gera það með því að taka ekkert tillit til einfaldra og sjálfsagðra krafna af hálfu stéttarfélaga sem samkvæmt alþjóðlegum skuldbindingum flokkast undir mannréttindi. Og það m.a. undirstrikar að það er einhver falskur tónn í þessari yfirlýstu umbótaviðleitni.

Það eru engin ákvæði um starfsmannaráð, það er ekkert hlustað á tillögurnar um það að setja upp stjórnir til hliðar við forstjórana til þess að gefa starfsfólki og almenningi einhverja tryggingu fyrir eftirliti með því hvernig með forstjóravaldið er farið eða starfsmönnunum einhvern vettvang til þess að koma á framfæri sínum málum að siðaðra manna hætti.

Að því er varðar brtt. sem ég nenni ekki að fjalla um í löngu máli vil ég samt sem áður vekja athygli á því að þegar niðurstaðan varð sú að taka fjölmenna hópa eins og löggæslumenn, tollverði og fangaverði og gefa þeim kost á því að njóta ráðningarfestu embættismannahópsins en jafnframt samt vikið frá grundvallarreglunni um að þar með eigi þeir að afsala sér samningsréttinum og verkfallsréttinum, þeir eru látnir halda samningsréttinum, þá er búin til enn ein mismununin í þessu þrefalda, lagskipta kerfi opinberra starfsmanna. Annars vegar eru embættismenn, skammtímaráðnir, 5+5 ár en njóta kjaradómskjara með sérstökum ákvæðum um það að grundvelli kjaranefndar er breytt að því er varðar það að ákvarða kjör yfirmanna stofnana, heildarkjör þeirra. Síðan í annan stað er þessi miðhópur sem nýtur ráðningarfestunnar en heldur samningsréttinum og svo loks þriðji hópur almennra starfsmanna. Á það hefur verið bent að þetta kunni jafnvel að varða við jafnræðisreglu og þetta sé vafasamt. Ég ætla ekki að fullyrða meira um það. Það kom fram í nefndarálitum að þessi niðurstaða hefur verið gagnrýnd. Það er augljóst mál að ef þetta gengur í gegn þá verðum við með tvö ólík kerfi í gangi hlið við hlið en ekkert tillit var tekið til þeirra hugmynda eða tillagna af okkar hálfu um að gefa einstaklingum val á því að hverfa þá frá æviráðningarkerfinu og inn í annað kerfi sem ég held að hefði verið til bóta.

Á hugmyndir um það að forstöðumenn fyrirtækja gerðu nánari grein fyrir starfsemi sinna stofnana gagnvart viðkomandi þingnefnd var ekki hlustað. Ákvæðin í frv. um að takmarka auglýsingar á lausum stöðum hjá ríkinu er t.d. ekki í anda stjórnsýslulaganna og ekki í anda hugmynda um aukið gagnsæi í opinberri stjórnsýslu.

Herra forseti. Þetta sem ég nú hef nefnt sem eru gagnrýniatriði, mismunandi mikilvæg, eru öll steinar í þá hleðslu að það er ekki hér verið að framkvæma neitt sem stendur undir nafni sem nútímaleg starfsmannastefna. Þetta rís ekki undir því nafni. Þetta er, alveg eins og hjá hæstv. félmrh., tilraun til þess að ná enn harðari tökum af hálfu hins miðstýrða vinnuveitendavalds ríkisins sem býr í fjmrn. Þetta dregur taum vinnuveitendans og þetta tekur ekkert eðlilegt og sanngjarnt tillit til sjónarmiða starfsmanna. Ég er ekki með þessum orðum að mæla með neinum starfsmannafasisma eða starfsmannaofurveldi. Ég hef oft varað við því að menn verða að gæta sín á því að draga ekki svo taum þeirra sem starfa í opinberri þjónustu að hagsmunir þeirra verði teknir fram fyrir hagsmuni þeirra sem eiga að njóta hinnar opinberru þjónustu vegna þess að að lokum er þetta þjónusta við almenning greidd af sköttum. Og það er líka hlutverk stjórnmálamanna, Alþingis og reyndar þá ráðherranna, framkvæmdarvaldsins, að gæta hagsmuna beggja. Mér finnst hins vegar að þeir ríði gjörsamlega við einteyming. Þeir draga svo algjörlega taum vinnuveitendasjónarmiða í þessu efni að það er úr öllu hófi.

Herra forseti. Það segir meira en mörg orð að af öllum þeim umsögnum sem borist hafa um þetta frv. þá er ein hjáróma rödd. Það er eitt álit, staðlað álit ofan úr Garðastræti frá vinnuveitendum sem lýsa ánægju sinni með þetta frv. Ég skil það ósköp vel. En samt sem áður kann að vera að jafnvel þeir ágætu menn í Garðastrætinu gerðu rétt í því að hugsa sinn gang ögn vegna þess að að lokum er stóra spurningin varðandi afgreiðslu þessa máls þessi: Hvaða áhrif halda menn að afgreiðsla þessa frv., þessi lagasetning nú á vordögum, muni hafa á umhverfi kjarasamninga undir lok ársins? Halda menn að flumbrugangurinn og flasið í hæstv. félmrh. hafi bætt samskipti ríkisvaldsins við verkalýðshreyfinguna, Alþýðusambandið, Verkamannasambandið og hin stéttarfélögin? Halda menn að þessi tilraun til þess að brjóta í bága við grundvallarreglur alþjóðlegra skuldbindinga, félagafrelsi o.s.frv. sé til þess að bæta samskiptin eða til þess að stuðla að einhverri sátt um það hvernig kjarasamningum er ráðið til lykta? Eða heldur hæstv. fjmrh. að með því að hafna leið samráðs og samninga en halda til streitu þessari leið, einhliða ákvörðunar meiri hlutans, sé hann að leggja farsælan grunn að ábyrgum og hagkvæmum samningum út frá þjóðarhagsmunum við opinbera starfsmenn? Halda mennirnir þetta virkilega? Heldur það nokkur maður? Hversu oft fara þeir ekki með ræðurnar sínar um að það sé grundvallaratriði varðandi efnahagslega farsæld okkar Íslendinga nú að loknum löngum þrengingarárum að þegar efnahagsbatans er farið að gæta verði það ekki til þess að stöðugleikanum verði kollvarpað, það verði ekki til þess að við lendum aftur í nýrri kollsteypu. Þeir láta í ljós þá von að við höfum lært af óförum fyrri ára og vísa til þess að það sem gerist á vinnumarkaðnum, almenna markaðnum og í samskiptum ríkisins við opinbera starfsmenn sé grundvallarstærð í þessu efni. Ríkisvaldið dregur taum vinnuveitenda í þessum samskiptum og gengur fram í stóru sem smáu með því að draga úr, þrengja að, skerða eða afnema réttindi sem opinberum starfsmönnum hafa hingað til verið tryggð, ýmist lögbundin eða samningsbundin, stundum lögbundin í kjölfar samninga. Hún afnemur þetta allt saman einhliða en gefur ekki kost á viðræðum, kjarasamningum til þess að bæta það að nokkru í launum. Halda menn að þetta sé leiðin til þess að ljúka kjarasamningum með farsælum hætti? Halda mennirnir að þetta sé skynsamlegt? Ég er ekki að tala um hvort þetta er kurteislegt eða réttlátt. Ég spyr: Halda menn að þetta sé skynsamlegt? Halda menn að þetta leiði til þeirrar niðurstöðu sem þeir eru alltaf að láta uppi óskir um? Ég held ekki. Ég held að þetta sé óskynsamleg framganga. Sök sér væri ef þarna væri nauðugur einn kostur. Samningaleiðin hefði verið reynd til þrautar og það væri búið að hafna því algjörlega og loka öllum leiðum og við værum komin að nýjum kjarasamningum. En það erum við ekki, við erum á miðju kjarasamningstímabili.

Þetta er spurning sem ég beini til hv. þm. stjórnarliða sjálfra vegna þess að þeir bera ábyrgð á stjórn landsins. Þeir bera ábyrgð á þessum meiri hluta og þeir verða að gera það upp við sig og ganga að því vitandi vits hvort þeir eru með þessari óbilgirni að kveikja neista sem getur orðið að því báli að þeir ráði ekki við að slökkva þá elda þegar kemur lengra fram á þetta ár. Sá dagur kemur, vegna þess að það kemur morgundagur, að opinberir starfsmenn sem telja sig hafa hér verið beitta ósanngirni og jafnvel mismunun, ekki á þá hlustað, ekki tillit til þeirra tekið, setjast að lokum að samningaborðinu með jöfnuna sína og segja: Það sem af okkur hefur verið tekið skuluð þið bæta okkur í launum. Þá held ég að það þýði ekki að fara með neinar ræður um nútímalega stjórnunarstefnu. Og þá held ég að sá dagur renni upp að hæstv. fjmrh. mætti minnast þess að það hefði farið betur ef hann hefði hlustað ögn betur á viðvörunarorð þeirra sem hér tala af málefnalegum rökum og velvilja vegna þess að það er ekki ráð nema í tíma sé tekið, virðulegi forseti.