Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 07. maí 1996, kl. 22:44:41 (5754)

1996-05-07 22:44:41# 120. lþ. 132.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, JBH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur

[22:44]

Jón Baldvin Hannibalsson (andsvar):

Herra forseti. Nú er illt í efni. Nú kemur á daginn að hæstv. ráðherra hefur allan tímann verið fús til samráðs, samtala og samninga en það eru bara opinberir starfsmenn sem hafa ekki svarað bréfunum hans og ekki viljað hlusta á hann. Hæstv. ráðherra átti þess nauðugan kost að leggja fram frv. svart á hvítu af því að menn vildu ekki tala við hann um frv. Ég tek eftir þessu, svart á hvítu, þetta er mjög merkilegt af því að þetta kemur frá fjmrn. Ætlast hæstv. fjmrh. til þess að einhver trúi þessu? Látum það nú vera. En ef hann ætlast til að við trúum þessu þá spyr ég: Hefur nokkuð breyst? Er ekki hæstv. ráðherra sem er búinn að leggja hér fram frv. svart á hvítu til þess að menn neyðist til þess að sjá það frv. sem þeir hafa ekki viljað ræða við hann, er hann ekki tilbúinn til að taka þetta mál upp aftur og segja: Frv. liggur hér frammi svart á hvítu. Það er nú í þessu einhliða formi vegna þess að það hefur enginn viljað við mig ræða en ég er alveg tilbúinn til að ræða við þá sem loksins vilja við mig tala og taka tillit til þess og hugleiða og breyta og semja og prútta og plotta eins og menn gera í samningum. Er þetta ekki samkvæmt þessari yfirlýsingu rakið mál? Nú er búið að leggja málið fram svart á hvítu og draga það til baka út úr þingsalnum um tíma og þá er bara að hella sér út í þessar viðræður. Ekki strandar á hæstv. fjmrh. Að því er varðar kjarajöfnunina trúi ég ekki að hæstv. fjmrh. hafi ekki heyrt það erindi formanna samninganefnda sinna sem hafa sagt við hann: Við höfum verið að tala við opinbera starfsmenn og við höfum hamrað á því að þessi réttindi, eitt, tvö, þrjú, fjögur, fimm, sex, eru ástæðan fyrir því að þið getið auðvitað ekki fengið jafnhá laun og tíðkast á almenna vinnumarkaðnum. Það hlýtur að vera að það hafi verið nógu náið samband milli formanna samninganefnda og hæstv. fjmrh. sem hér hefur setið í fimm ár, flestum lengur, til að það hafi komist til skila.