Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 07. maí 1996, kl. 22:47:03 (5755)

1996-05-07 22:47:03# 120. lþ. 132.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur

[22:47]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil endurtaka það sem ég sagði áðan að það hefur verið boðið upp á samráð í þessu máli. Hins vegar get ég ekki stjórnað því hvort menn vilja tala við mig beint. Ef menn vilja frekar gera það í gegnum nefndina þá gera menn það. Það hefur verið gert. Málið hefur tekið breytingum í nefndinni og tók breytingum frá frumdrögum til frumvarps. Það hefur verið tekið tillit til fjölmargra sjónarmiða þannig að ég held að menn geti verið sæmilega sáttir við það.

Í öðru lagi vil ég líka endurtaka fyrir hv. þm., sem er fyrrv. fjmrh., að ég hef borið mig saman við þá sem hafa gegnt formennsku í samninganefnd ríkisins. Það hefur verið minnst á starfsöryggið og lífeyrissjóðinn og við viðurkennum að það hefur verið bent á það sem vörn af hálfu vinnuveitandans að ekki sé ástæða til að hækka laun eins mikið og aðrir hafa af þessum ástæðum. Hv. þm. getur ekki komist hjá að hlusta á og íhuga það sem ég hef sagt hér. Hann ætti að rifja það upp með sjálfum sér hvort hann hafi nokkurn tíma sagt að æviráðningin væri virði peninga í samningum. Því svo er alls ekki. Það eru tíu ár síðan við féllum frá æviráðningu í langflestum stöðuveitingum hjá ríkinu. Biðlaunarétturinn er auðvitað aðeins réttur sem kemur til þegar stöður eru lagðar niður. Og sem betur fer er starfsöryggi opinberra starfsmanna það mikið að það kemur örsjaldan fyrir. Þess vegna hefur aldrei verið litið á þennan rétt sem peningaígildi. Það er þetta sem ég sagði, þetta get ég staðið við. Þetta höfum við kannað og ég veit ekki betur en svona hafi verið litið á málin af hálfu samninganefnda ekki bara í minni tíð heldur líka frá því í tíð hv. þm. sem fjmrh. Þetta vildi ég að kæmi fram því menn geta skemmt sér hérna í kvöld við að segja sögur en það verður að koma fram sem satt er í þessu máli þótt það gerist einungis annað slagið með löngu millibili vegna margra klukkutíma ræðna hv. þm., en þrír þeirra hafa nú lokið sér af.