Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 07. maí 1996, kl. 22:56:10 (5759)

1996-05-07 22:56:10# 120. lþ. 132.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 132. fundur

[22:56]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég skal tala alveg skýrt um það hvern ég á við. Þáv. fjmrh. Ólafur Ragnar Grímsson, hv. þm. í kosningabaráttu til embættis forseta Íslands, var rekinn frá verki í ríkisstjórn sem hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sátu þá í. Þeir gerðu það sem ég kalla vitlausustu samninga Íslandssögunnar og þurftu að éta það ofan í sig með lagasetningu. Þannig fengu þeir sína reynsu af vinnumarkaðnum.

Annað sem ég vildi gjarnan ræða við hv. þm. er það sem hann heldur fram um uppsagnir og stjórnsýslulög. Ég hygg að með þeim brtt. sem meiri hluti nefndarinnar hefur gert sé fyllilega farið með þau mál í takt við stjórnsýslulög. Það sem er ekki sett sem réttur starfsmanns til málskots eða að hann geti borið hönd fyrir höfuð sér er í tilvikum þar sem það á ekki við. Ef manni er t.d. sagt upp vegna hagræðingar í rekstri eða atriða sem koma honum sem persónu ekkert við er að sjálfsögðu réttur hans sá að fá uppsögnina rökstudda en það á ekki við í slíkum tilvikum að það sé réttur til að koma og vísa málinu til æðra stjórnvalds eða annað slíkt.