Nýting innlendra plantna til iðnaðarframleiðslu

Miðvikudaginn 08. maí 1996, kl. 13:43:07 (5772)

1996-05-08 13:43:07# 120. lþ. 133.1 fundur 378. mál: #A nýting innlendra plantna til iðnaðarframleiðslu# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., SJS
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur

[13:43]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er með hálfum huga að ég blanda mér í þessi hjartnæmu orðaskipti fyrrv. og núv. umhvrh. en leyfi mér það þó. Mér er ljúft að staðfesta samkvæmt beiðni framsýni hæstv. fyrrv. umhvrh. í þessum málum. Eins og hér kom fram setti hann af stað athugun á þessum málum sem nú er að skila árangri samkvæmt svari hæstv. núv. umhvrh.

Ég fagna því líka að hæstv. núv. umhvrh. er ekki síður framsýnn en sá fyrrverandi og hefur sett starfshóp af stað til að fylgjast með þessum málum. Ég er þeirrar skoðunar og þekki ágætlega til í þessum efnum, m.a. á mínum heimaslóðum, að það sé full þörf á að fylgjast vel með framvindu þessara mála. Við Íslendingar eigum að gæta þess að fara ekki ógætilega með þær auðlindir sem við eigum fólgnar, ekki síst upp á framtíðina í tiltölulega ómenguðu umhverfi, lofti, vatni og ekki síst náttúrulegum grösum, óspilltu náttúrulegu gróðurlendi og víðáttumiklu sem eru að verða fágæt hlunnindi í hinum vestræna heimi. Við eigum alveg tvímælalaust að nýta þessa auðlind skynsamlega og reyna að gera okkur sem mestan mat úr henni. Það þarf að varast að slík nýting fari ekki fram í óhófi og menn mega ekki heldur selja sig of ódýrt í þessum efnum.