Bætur fyrir tjón af völdum arna

Miðvikudaginn 08. maí 1996, kl. 13:47:10 (5774)

1996-05-08 13:47:10# 120. lþ. 133.2 fundur 499. mál: #A bætur fyrir tjón af völdum arna# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi GE (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur

[13:47]

Fyrirspyrjandi (Gísli S. Einarsson):

Herra forseti. Ég beini máli mínu til hæstv. umhvrh. og spyr hvort ráðherra hafi látið kanna hver sé bótaskylda vegna tjóns af völdum arna sem hafa útrýmt æðarvarpi og jafnvel valdið lambadauða, og hvort þetta hafi kostað bændur tekjumissi og aukið vinnuálag þeirra við sauðburð.

Ástæða þessarar fyrirspurnar er sú að bændur sem hafa afkomu af æðarvarpi víða um land telja sig hafa orðið fyrir tjóni af völdum friðaðra fugla, svo sem arna. Raunar hlýtur þá svar hæstv. umhvrh. að gilda um alla þá friðaða fugla sem valda tjóni t.d. í æðarvarpi eða eggverum. Um er að ræða t.d. skúm auk arnarins. Ég veit ekki hvort hæstv. umhvrh. er það ljóst að ernir eru fyrst kynþroska sjö ára gamlir og fram til þess tíma berjast karlfuglar fyrir maka og ungfuglarnir bera sig til við hreiðurmyndun, t.d. í eyjum í Breiðafirði og á ýmsum stöðum í grennd við æðarvarp. Afleiðing þessa er að æðarvarp leggst af þar sem örn er við slíka iðju og það tekur oft 20--30 ár að koma varpi af stað að nýju. Þetta er grafalvarlegt mál fyrir þá bændur sem eiga að nokkru eða verulega afkomu sína undir nytjum af æðardúni og í eggverum. Það er eðlileg krafa þeirra sem hlut eiga að máli að ráðherra umhverfismála sem nú er einnig ráðherra landbúnaðarmála svari skýrt og skorinort því sem um er spurt. Og ég efast reyndar ekkert um að svörin verða afdráttarlaus.