Bætur fyrir tjón af völdum arna

Miðvikudaginn 08. maí 1996, kl. 13:49:15 (5775)

1996-05-08 13:49:15# 120. lþ. 133.2 fundur 499. mál: #A bætur fyrir tjón af völdum arna# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur

[13:49]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Varðandi þessa fyrirspurn er því til að svara að eftir því sem næst verður komist virðist tjón af völdum arna svo sem í æðarvörpum vera séríslenskt fyrirbæri. Að minnsta kosti er ekki minnst á slíkt í Norður-Noregi þar sem ernir eru tiltölulega algengir og æðarfuglar voru a.m.k. áður fyrr til mikilla nytja.

Hér á landi er hins vegar talið að ernir hafi ávallt valdið einhverju tjóni á æðarvarpi jafnvel á meðan arnarstofninn var hvað minnstur og í mestri útrýmingarhættu um miðja þessa öld. Meint tjón hafa menn hins vegar ekki getað staðfært með óyggjandi sönnunum, enda eðlilega oft erfitt um vik. Ekki er kunnugt um kvartanir til stjórnvalda um tjón vegna arna á æðarvörpum eftir að ernir eru alfriðaðir fyrr en 1930 þótt friðun arna hafi fyrst verið ákveðin hér á landi 1914. Síðan má segja að kvartanir hafi verið nokkrar, sérstaklega á síðustu áratugum og má þar benda á að æðarbændur og samtök þeirra hafa kvartað um vandamál sem fylgja örnum í æðarvörpum og af því hafa spunnist blaðaskrif.

Í framhaldi af þessum kvörtunum og vandamálum varðandi erni við Breiðafjörð var lagt fram á Alþingi 1977 frv. til laga um breytingar á ákvæðum fuglafriðunarlaga varðandi erni en lagt var til að menntmrn., sem fór þá með fuglafriðunarmál, skyldi, væri þess óskað, senda sérfræðing til þess að fylgjast með og gera tillögur um hvernig koma mætti í veg fyrir og bæta tjón sem ernir kynnu að valda á viðkomandi varpi. Jafnframt var lagt til að ráðuneytinu yrði heimilt að grípa til tafarlausra aðgerða til varnar æðarvarpi án þess þó að erni væri eytt. Frv. þetta hlaut litlar undirtektir hjá þingmönnum og náði ekki fram að ganga. Ástæðan hefur ugglaust verið sú að með samþykkt þess hefði verið dregið úr friðun arna svo sem með heimild til að eyðileggja arnarvarp.

Haustið 1994 kom út á vegum umhvrn. skýrsla sem unnin var af Náttúrufræðistofnun Íslands, Kristni Hauki Skarphéðinssyni fuglafræðingi, fyrir umhvrn. um tjón af völdum arna í æðarvörpum. Skýrsluhöfundur kemst að þeirri niðurstöðu að ernir hafi valdið tjóni á æðarvarpi sem gæti verið tilfinnanlegt fyrir einstaka bónda, en ef litið er á æðarvarpið í heild á arnarsvæðum vestanlands sé tjónið af völdum arna hverfandi. Ernir í æðarvörpum séu staðbundið vandamál aðallega við Breiðafjörð og koma þar einkum flökkuernir við sögu. Meint tjón af völdum arna í æðarvörpum sé þess eðlis að illmögulegt sé að greina það frá öðrum umhverfisþáttum sem hafa áhrif á æðarvarp og telur skýrsluhöfundur að það vandamál sem tengist örnum sé það tilviljanakennt að erfitt sé að koma fyrir vettvangsrannsóknum og meta tjón.

Strax eftir útkomu skýrslunnar hóf umhvrn. viðræður við landbrn. um niðurstöðu skýrsluhöfundar og hvað væri til ráða. Hafa landbrn. og umhvrn. síðan verið í sambandi við æðarbændur sem ætluðu að álykta um skýrsluna og gera umhvrn. grein fyrir niðurstöðum og hugsanlegum tillögum um aðgerðir. Þær hafa ekki borist ráðuneytinu.

Hin síðari ár hafa engar sérstakar rannsóknir farið fram á meintu lambadrápi arna hér á landi. Fjölmargar heimildir skýra frá meintu lambadrápi arna fram yfir 1960, en samkvæmt rannsókn dr. Agnars Ingólfssonar fuglafræðings sem framkvæmd var 1961 á meintu lambadrápi arna í kringum 1960 telur hann að ernir hafi aðeins getað tekið lítinn hluta þeirra lamba sem þeim var kennt um að hafa drepið.

Að mati Kristins H. Skarphéðinssonar fuglafræðings, sem skrifaði skýrsluna um erni og æðarvarp, eru langflestar fullyrðingar um að ernir hafi tekið lifandi lömb byggðar á veikum forsendum þó enginn dragi í efa að ernir geti tekið lömb þótt aðeins hafi örfáir orðið vitni að því. Þótt lambahræ hafi öðru hverju fundist við arnahreiður megi af útliti þeirra dæma að þar sé sennilega í flestum tilvikum um sjálfdauð lömb að ræða. Það er því talið til hreinna undantekninga að ernir drepi lömb.

Ríkisvaldið hefur aldrei viðurkennt bótaskyldu vegna tjóns af völdum friðaðra dýra. Þannig hafa hvorki fengist samþykkt lög sem ætlunin hefur verið að tækju á þessum málum, samanber það sem ég sagði áður um lagafrv. sem lagt var fram á Alþingi 1977, og ekki hefur verið talin ástæða til þess að setja heimildir í fjárlög til að bæta slíkt tjón. Enda er hér um að ræða tjón sem mjög erfitt er að sanna. Friðunaraðgerðir eins og friðun arna er neyðarúrræði byggt á þeirri sjálfsögðu skyldu okkar að viðhalda jafnvægi í lífríkinu og er sérstaklega undirstrikað í samningi um líffræðilegan fjölbreytileika sem staðfestur var af Íslands hálfu 1994. Svarið er því, hæstv. forseti, af því að hv. fyrirspyrjandi gerir ráð fyrir afdráttarlausu svari, að það er ekki viðurkennd bótaskylda af hálfu ríkisins.

Hins vegar er fyrirliggjandi gamall dómur þar sem ríkið var dæmt til þess að bæta tjón sem talið var hafa orðið af völdum arna í æðarvarpi. Og auðvitað geta menn hverju sinni farið þá leiðina að leita réttar síns, ef þeir telja sig hafa orðið fyrir tjóni og geta sannað það, að leita þá réttar síns fyrir dómstólum.