Bætur fyrir tjón af völdum arna

Miðvikudaginn 08. maí 1996, kl. 13:54:36 (5776)

1996-05-08 13:54:36# 120. lþ. 133.2 fundur 499. mál: #A bætur fyrir tjón af völdum arna# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., SvG
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur

[13:54]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég tel rétt að nefna til þessarar sögu Steinólf Lárusson bónda í Fagradal á Skarðsströnd sem mun vera úr kjördæmi hv. fyrirspyrjanda og hæstv. forseta. Hann hefur kvartað við stjórnvöld út af þessu vandamáli um langt árabil. Hann hefur skrifað ráðuneytum, bæði umhvrn. trúi ég og einnig menntmrn. meðan það fór með þessi mál, vegna þess að hann telur að þessi fugl, sem er kvenkyns á Vesturlandi og heitir hún örnin, og þær arnirnar valdi miklu tjóni og sé til vandræða í varpi og víðar og í lömbum og laxi líka.

Þótt sjónarmið Steinólfs Lárussonar í Fagradal séu gild er vandinn þessi: Hvar tekur það enda ef ríkið fer að bæta tjón vegna friðunarráðstafana yfirleitt, hvar er endinn á þeim þræði? Hann er sennilega nokkuð vandfundinn. En ég þakka hv. þm. fyrir að nefna þetta mál. Þetta er þjóðleg og skemmtileg fyrirspurn og full ástæða til þess að skoða málið eins og arnarbóndinn, hæstv. umhvrh., í raun og veru lofaði. Hann er sá maður sem fer með þessar skepnur og ber ábyrgð á þeim og ég tel að hann hafi í raun og veru gefið fyrirheit um að lesa vel þær skýrslur sem koma frá réttum aðilum um þetta mál.