Bætur fyrir tjón af völdum arna

Miðvikudaginn 08. maí 1996, kl. 13:56:23 (5777)

1996-05-08 13:56:23# 120. lþ. 133.2 fundur 499. mál: #A bætur fyrir tjón af völdum arna# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi GE
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur

[13:56]

Fyrirspyrjandi (Gísli S. Einarsson):

Herra forseti. Ég þakka undirtektir við þetta mál sem hér er til umfjöllunar. Það er kannski rétt að á Vesturlandi sé talað um örninn í kvenkyni. En ég heyri líka á Vesturlandi að það er talað um össu og ara og það mun vera klárt að það er bæði karl- og kvenkenning yfir örninn.

Ég þakka svar hæstv. umhvrh. þótt ég sé ekki alfarið sáttur við það þótt hann hafi reyndar getið um þann dóm sem ég mun vitna til. Það er sagt að tjón af völdum arna sé hverfandi og þar er vitnað til skýrslu Kristins H. Skarphéðinssonar um þessi mál. Ég dreg það í efa. Samkvæmt viðtölum við kunna menn eins og Steinólf, sem hér var nefndur áðan, Hafstein nokkurn Guðmundsson frá Flatey o.fl. hefur æðarvarp lagst af vegna arnarungfugls sem er þarna við Breiðafjörðinn og reyndar víðar um landið.

Ég vil, með leyfi forseta, vitna til dóms frá 1957 þar sem ríkissjóði var gert að bæta bónda á Hvallátrum með 15 þús. kr. það tjón sem örn hafði valdið. Ég tel þann dóm næga forsendu til að telja að ríkissjóður sé bótaskyldur þar sem sannanlega er hægt að sýna fram á að örn hafi valdið verulegu tjóni, æðarvarp hafi lagst af og þannig hafi bændur misst tekjur.

Ég ítreka þakkir fyrir svarið þótt ég hafi ekki verið fullkomlega sáttur við það. En það var eins og ég bað um, skýrt og klárt, hrein höfnun.