Bætur fyrir tjón af völdum arna

Miðvikudaginn 08. maí 1996, kl. 13:58:48 (5778)

1996-05-08 13:58:48# 120. lþ. 133.2 fundur 499. mál: #A bætur fyrir tjón af völdum arna# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur

[13:58]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. þessa góðu fyrirspurn. Það er afskaplega erfitt, eins og hæstv. ráðherra segir, að meta tjón af völdum arna. En það er engum blöðum um það að fletta að í sumum tilvikum er um tjón að ræða. Ég nefni það t.d. að á Miðhúsum, í kjördæmi hæstv. forseta, hafa bændur um árabil sætt búsifjum af völdum arna. Það mál var að vísu leyst með öðrum hætti af hálfu umhvrn. á síðasta kjörtímabili.

Menn hafa líka nefnt það hér að örninn er vágestur í laxveiðiám. Það hefur ekki alltaf verið svo. Í ritinu Deo, regi, patriæ sem Vídalín skrifaði 1699 og Jón konferenzráð endurritaði og gaf út 1768 er kvartað yfir því að lax sé ekki nýttur af landsmönnum nema það sem örninn klófestir. Það má nefna að Símon heitinn Pétursson í Vatnskoti notaði erni til þess að veiða urriða í Öxará fyrir síðustu aldamót. Þá kom örninn og tók stóran urriða á hverjum einasta morgni. Þá sendu fátækir bændur ómegð sína út í stórþýfða móa og hún beið þar þangað til örninn kom með urriðann. Þá komu Símon heitinn og félagar, ráku upp öskur og tóku urriðann sem var snæddur í Vatnskoti þann dag. Þetta gerðist á hverju hausti, herra forseti, um árabil og þetta segi ég erninum til varnar.