Sala íslenskra hesta til útlanda

Miðvikudaginn 08. maí 1996, kl. 14:06:53 (5781)

1996-05-08 14:06:53# 120. lþ. 133.3 fundur 495. mál: #A sala íslenskra hesta til útlanda# fsp. (til munnl.) frá landbrh., landbrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur

[14:06]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Það er rétt eins og fram kemur í máli hv. fyrirspyrjanda að um þessar mundir er mikill uppgangur í hrossaræktinni hér á landi og ljóst að flestir hrossabændur eiga eftir að uppskera af því mikla og góða starfi sem unnið hefur verið í búgreininni á undanförnum árum. Útflutningur hrossa hefur farið ört vaxandi á seinustu árum og er nú undirstaða hrossabúskapar eins og kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda.

Útflutningur varð mestur á árinu 1994, 2.758 hross, en heldur minni á seinasta ári, 1995, eða 2.612. Íslensk stjórnvöld hafa að undanförnu samið við framkvæmdastjórn ESB um tollfrjálsan innflutning á 100 hrossum á ári. Samningurinn tók gildi í mars og var samningurinn afturvirkur í eitt ár þannig að hann í raun þýðir líka að það er hægt að sækja um eftirgjöf á þeim tollum sem greiddir voru á seinasta ári sem nemur 100 hrossum. Við úthlutun á þessum tollfrjálsa innflutningi gildir samt sú regla að sá sem fyrstur sækir um úthlutun fær hana og umsækjandi verður að vera íbúi í löndum ESB. Þessi samningur tengist hins vegar inngöngu Svíþjóðar í ESB og í raun er verið að yfirfæra þann tollfrjálsa kvóta sem þar var yfir á Evrópusambandið.

Um frekari tollalækkanir fyrir Ísland gildir að þegar um það hefur verið sótt eða rætt, hefur ESB haft uppi kröfur um að fá eitthvað í staðinn. Íslensk stjórnvöld hafa ekki verið tilbúin til frekari tilslakana hvað ýmiss konar innflutning varðar og þess vegna hafa engar formlegar kröfur verið settar fram af okkar hálfu. Áfram verður hins vegar þreifað á þessu máli og þess ber að geta að viðræður af þessu tagi taka langan tíma.

Við gildistöku GATT-samningsins lögðu norsk stjórnvöld svokallaðan sláturskatt á íslensk hross sem flutt eru til Noregs eins og hv. fyrirspyrjandi greindi frá. Skatturinn er til kominn vegna gamalla laga er gerðu ráð fyrir að innflutningur á hrossum væri háður leyfum. Í raun voru slík leyfi afgreidd án athugasemda. Skatturinn nemur nú um 50 þús. kr. á hvert hross og er mjög hamlandi á sölu til Noregs. Árleg salan þangað var komin upp í 240 hross en ríkjandi aðgangur var miðaður við 40. Mikið hefur verið reynt að fá Norðmenn til þess að hækka þessa tölu en það hefur hins vegar ekki gengið eftir, a.m.k. ekki enn sem komið er. Hefur það bæði verið gert formlega í gegnum utanríkisþjónustuna og í samráði og samvinnu við utanrrn. okkar og á persónulegum fundum með æðstu ráðamönnum í Noregi. Hef ég sjálfur tekið þátt í viðræðum bæði við ráðuneytisstjóra og aðra háttsetta menn þar um þetta mál.

Það er auðvitað ekki verið að flytja hross til slátrunar í Noregi þó að Norðmenn beiti þessu fyrir sig. En litlar líkur eru því miður taldar á að Norðmenn breyti þessum reglum. Það hefur a.m.k. gengið treglega hingað til þó að haldið hafi verið áfram að vinna í málinu.

Embætti yfirdýralæknis hefur að undanförnu unnið að því að fá reglur sem gilda um innflutning íslenskra hrossa til ýmissa landa í Evrópu einfaldaðar. Á sama hátt hefur embættið fengið mildaðar mjög mikið kröfur um sóttkví í Bandaríkjunum og í Kanada. Sú breyting hefur orðið til þess að auka útflutning þangað eins og sjá má á tölum um útflutt hross. Áfram verður unnið að þessum þáttum, en ekki er við því að búast að stórvægilegar lagfæringar náist til viðbótar því sem þegar hefur tekist.

Við gildistöku nýrra laga um útflutning hrossa þann 15. apríl 1995 var myndaður sjóður sem hefur m.a. það hlutverk að styrkja markaðssetningu á íslenska hestinum í öðrum löndum. Fyrsta úthlutun úr sjóðnum fór fram í febrúar nú á þessu ári. Þá var úthlutað 13 styrkjum að upphæð samtals 5,3 millj. kr. Hugmyndir voru miklu fleiri því alls var sótt um styrki að upphæð 34 millj. kr. Það eru því miklar hugmyndir í gangi hjá mönnum og margt sem hægt er að gera ef hægt væri að veita því einhvern stuðning sem sýnir að það er mikill áhugi hjá mönnum í greininni. Styrkurin fór til rannsókna, til útgáfu kynningarefnis, til einstaklinga sem hyggja á kynningu á hestinum, til Félags hrossabænda til að ráða markaðsfulltrúa og til annarra skylda verkefna. Búast má við að til úthlutunar verði um 8 millj. kr. á hverju ári samkvæmt því sem virðist vera þróunin með þennan sjóð. Þar sem flestir umsækjenda leggja umtalsvert fjármagn frá sjálfum sér til viðbótar á móti styrknum, þá margfaldast þessi upphæð. Auðvitað er þetta mikil lyftistöng fyrir allt markaðsstarf og eru bundnar miklar vonir við þessa styrki í framtíðinni.

Ég undirstrika það svo, hæstv. forseti, að ég tel að það sé afar mikilvægt að halda áfram að gera allt sem við getum til þess að liðka fyrir þessum útflutningi. En það hefur verið á brattann að sækja við að ná fram breytingum á þessum tollaákvæðum.