Skoðun ökutækja

Miðvikudaginn 08. maí 1996, kl. 14:38:59 (5791)

1996-05-08 14:38:59# 120. lþ. 133.5 fundur 395. mál: #A skoðun ökutækja# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur

[14:38]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Það er rétt að ítreka að Bifreiðaskoðun Íslands hf. er fyrirtæki sem að hálfu er í eigu ríkisins og að hálfu í eigu einkaaðila. Þetta fyrirtæki fékk samning um einkarétt á skoðun og skráningu ökutækja 1988 fram til ársins 2000. Jafnframt voru lagðar skyldur á herðar þessa fyrirtækis um að byggja upp skoðunarstofur í öllum kjördæmum landsins. Auðvitað má um það deila hvort þetta hafi verið rétt á sínum tíma, en ég hygg að vilji Alþingis þá hafi ekki staðið til þess að opna fyrir samkeppni í skoðun ökutækja. En aðstæður breyttust fljótt og þegar ég kom að þessum málum þótti mér sem það væri eðlilegt að reyna að knýja á um að samkeppni varðandi skoðun ökutækja gæti hafist fyrr en þessi samningur gerði ráð fyrir.

Ég get hins vegar ekki fallist á það sem hv. þm. sagði að um hafi verið að ræða seinagang af hálfu ráðuneytisins vegna þess að hér var verið að brjóta upp samkomulag sem gilti og ríkið er bundið af til aldamóta. Allar breytingar eru því háðar því að samkomulag náist við viðsemjandann. Það hefur verið unnið eins hratt og markvisst að þessum breytingum og kostur hefur verið á. Við höfum líka þurft að gæta þess að þessi breyting raskaði ekki því öryggi sem á að felast í skoðun bifreiða og að komið yrði á kerfi faggildingar varðandi skoðunarstofurnar. Það fór mikill tími í að undirbúa þær reglur því að það er ekki markmiðið með þessari breytingu að slaka á þeim öryggiskröfum sem gerðar eru varðandi skoðun bifreiða.