Jafnréttisfræðsla fyrir dómara

Miðvikudaginn 08. maí 1996, kl. 14:41:21 (5792)

1996-05-08 14:41:21# 120. lþ. 133.6 fundur 466. mál: #A jafnréttisfræðsla fyrir dómara# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi BH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur

[14:41]

Fyrirspyrjandi (Bryndís Hlöðversdóttir):

Herra forseti. Íslensk stjórnvöld komu í byrjun þessa árs fyrir nefnd Sameinuðu þjóðanna sem hefur eftirlit með sáttmálanum um afnám allrar mismununar gegn konum en sáttmálinn hefur verið fullgiltur af Íslands hálfu. Nefndin gerði nokkrar athugasemdir við framkvæmd okkar á sáttmálanum í formi tillagna og tilmæla. Þar á meðal var því beint til stjórnvalda að þau stæðu fyrir kynningu á sáttmálanum innan dómskerfisins og að auki að aðgerðir yrðu hafðar í frammi til að kynna íslenskum dómstólum áætlun um upplýsingadreifingu og fræðslu varðandi sáttmálann.

Það kom m.a. fram bein tillaga um það frá nefndinni að staðið yrði fyrir sérstöku námskeiði fyrir dómara um mannréttindamál, þar á meðal um mannréttindi kvenna.

Í nýlegu fréttabréfi Jafnréttisráðs, Voginni, er á forsíðu harðorð grein sem ber yfirskriftina: ,,Dómstólar á villigötum.`` Þar kemur fram að á síðasta ári hafi fallið margir dómar er varði konur og kvenfrelsisbaráttu sérstaklega en að mörgum þyki að í þeim kristallist fordómar og þröngsýni í garð kvenna og þeirra jafnréttisbaráttu sem fram hefur farið í seinni tíð. Þar er velt vöngum yfir því hvers vegna svo sé. Meðal annars er þar greint frá því að frá því að kærunefnd jafnréttismála tók til starfa hafi fallið fjórir dómar í málum frá henni í undirrétti og það sé skemmst frá því að segja að þeir hafi ekki verið jafnréttisbaráttunni til framdráttar. Og enn hefur fallið einn dómur í undirrétti í máli vegna launaðs starfsmanns hjá Ríkisútvarpinu og hann fór á sama veg og hinir. Kærunefnd tapaði málinu. Dómarnir staðfesta allir að ábyrgð atvinnurekenda er engin á því að tryggja jafna stöðu karla og kvenna á vinnustað þrátt fyrir markmið laganna um að breyta viðurkenndu, ólögmætu ástandi, þ.e. kynbundnu misrétti á vinnumarkaði yfir í lögmætt ástand.

Það er sýnt að ef dómstólar komast upp með að líta fram hjá skýru markmiðsákvæði laganna eða a.m.k. beita ekki tækjum sem nauðsynleg eru til að lögin nái framgangi sínum verður að gera annað tveggja: Að uppfræða dómara og reyndar lögmenn betur um markmið laganna og innihald og skuldbindingar íslenskra stjórnvalda á þessu sviði eða að breyta ákvæðum jafnréttislaga þannig að ekki verði fram hjá þeim komist á þann hátt sem verið hefur. Á þetta hefur nefndin bent og því spyr ég hæstv. dómsmrh.:

,,Hefur ráðherra í hyggju að verða við tilmælum til íslenskra stjórnvalda frá nefnd Sameinuðu þjóðanna um afnám alls misréttis gegn konum sem lúta að kynningu meðal dómara á sáttmála um afnám allrar mismununar gegn konum? Ef svo er, á hvern hátt er fyrirhugað að standa að þeirri fræðslu?``