Löggæsla í Reykjavík

Miðvikudaginn 08. maí 1996, kl. 15:00:08 (5799)

1996-05-08 15:00:08# 120. lþ. 133.7 fundur 507. mál: #A löggæsla í Reykjavík# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., MF
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur

[15:00]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni fyrir að flytja þessa fyrirspurn sem hann gerði mjög skýrt og greinilega. En það sama verður ekki sagt um svör hæstv. ráðherra sem las þau það hratt að ógerningur var að ná öllum þeim atriðum sem fram komu í svarinu. Það er svo sem hægt að bæta sér það upp með því að fá útskrift af ræðunni. En þó að það sé vissulega þörf á því að gera okkur grein fyrir því hversu margir lögreglumenn eru á vakt á hverjum tíma í Reykjavík, þá er ekki síður nauðsynlegt fyrir okkur að vita hver hin raunverulega þörf er. Það kom fram t.d. hjá lögreglustjóranum í Reykjavík að fjárvöntun hjá lögreglunni í Reykjavík í dag er gífurleg. Hún skiptir tugum milljóna. Og vinnuálag á lögreglunni er mjög mikið því að þar tíðkast mikil yfirvinna vegna frekar lágra grunnlauna sem lögreglumenn hafa.

Það hefur einnig komið fram að það vantar verulegar fjárveitingar til tækjakaupa og m.a. hefur fíkniefnalögreglan sótt um heimildir til tækjakaupa fyrir allt að 20 millj. núna á þessu fjárlagaári sem ekki var hægt að verða við. En það væri vissulega þörf á því að heyra það hjá hæstv. ráðherra hver hin raunverulega þörf er og hvort hann telur þeirri þörf sem er fyrir löggæslu í Reykjavík í dag fullnægt.