Skyldunámsefni í vímuvörnum

Miðvikudaginn 08. maí 1996, kl. 15:21:32 (5808)

1996-05-08 15:21:32# 120. lþ. 133.9 fundur 479. mál: #A skyldunámsefni í vímuvörnum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur

[15:21]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Það mun verða tekið á þessu máli eins og ég sagði þegar aðalnámskráin verður endurskoðuð og einnig litið til þess þegar viðmiðunarstundaskrá verður skilgreind og tímum fjölgar í grunnskólanum. Ég vil aðeins í tilefni af síðari ræðu hv. þm., geta þess að á laugardaginn var hafði ég tækifæri til þess að taka þátt í hluta af ráðstefnu um tóbaksvarnir í nútíð og framtíð sem haldin var í Reykjavík. Þar kom fram í máli ræðumanns, í erindi sem var flutt í upphafi ráðstefnunnar, að því miður hefur slegið í bakseglið varðandi reykingar í skólum og er nauðsynlegt að taka það mál föstum tökum. Vonandi ber Alþingi gæfu til þess nú að afgreiða frv. til tóbaksvarnalaga þannig að nýjar forsendur skapist fyrir átaki í tóbaksvörnum. Þær varnir og það starf á mjög ríkt erindi inn í skólana. Þar hefur t.d. Krabbameinsfélagið verið með mjög góð námskeið og góða fræðslu þannig að það er víða sem menn koma að þessu. En að sjálfsögðu er eðlilegt að reyna að finna tíma í viðmiðunarstundaskránni fyrir þessar fíknivarnir og árétta þannig mikilvægi þeirra því að það kom einnig fram á þessari ráðstefnu að góð menntun stuðlar að því að menn temji sér heilbrigða lifnaðarhætti ef þannig má að orði komast, bæði varðandi tóbaksreykingar og væntanlega aðra neyslu á fíkniefnum. Það helst því í hendur að efla menntun, styrkja menntun og fræða fólk og að berjast gegn fíkniefnum og öðru því sem til óhollustu er.