Skyldunámsefni í vímuvörnum

Miðvikudaginn 08. maí 1996, kl. 15:23:45 (5809)

1996-05-08 15:23:45# 120. lþ. 133.9 fundur 479. mál: #A skyldunámsefni í vímuvörnum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur

[15:23]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Mér finnst nokkuð hafa borið á því í þessum umræðum að það sé ekkert sem heitir fíkniefnafræðsla í skólum nema yfirskriftin á kennslustundinni sé fíkniefnafræðsla. Þetta er ekki þannig. Við kennum þetta allan grunnskólann hvar sem við getum því við komið og ég held að langflestir ef ekki allir kennarar sem ég hef unnið með séu mjög meðvitaðir um það að koma þessari fræðslu inn hvar sem verður við komið, í sambandi við líffræði, í sambandi við kristinfræði og jafnvel í sambandi við íslensku og stærðfræði. Við reynum hins vegar að gera þetta á frekar mjúkan hátt því að þegar við erum að vinna með börn undir 13 ára aldri, þá hefur borið við, þegar gestir hafa t.d. komið í skólann frá ágætum félögum sem ég veit að vilja allt hið besta, að áróðurinn hefur verið svo harður að börnin hafa verið niðurbrotin á eftir. Þessi börn eiga nefnilega mörg hver foreldra sem þeim þykir afskaplega vænt um sem reykja og þau hafa enga möguleika á að hafa áhrif á þær venjur. Og það er svolítið erfitt þegar maður þarf að sitja með einhverja grátandi í fanginu eftir slíka fræðslufundi.

Ég er ekki þar með að mæla á móti því að það komi inn tímar í eldri bekkjum grunnskólans sem eru sérstaklega merktir fíkniefnafræðslu með sérstöku námsefni en ég vil bara minna á að þetta er alls staðar tekið inn þar sem því verður við komið.