Íþróttaaðstaða Menntaskólans við Hamrahlíð

Miðvikudaginn 08. maí 1996, kl. 15:33:10 (5812)

1996-05-08 15:33:10# 120. lþ. 133.10 fundur 482. mál: #A íþróttaaðstaða Menntaskólans við Hamrahlíð# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur

[15:33]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir að koma með þessa fyrirspurn. Við ræddum áðan um skyldunámsefni í vímuvörnum og ég tel að einmitt þetta mál sem við ræðum hér varðandi byggingu íþróttahúss og íþróttamannvirkja tengist þeim málum vegna þess að það er sannað að það unga fólk sem tekur þátt í íþróttum leiðist miklu síður út á brautir fíkniefnaneyslu. Ef ungt fólk hefur viðfangsefni við sitt hæfi eru minni líkur á því að það lendi út á vegi spillinginnar. Þátttaka í íþróttum og uppbygging íþróttamannvirkja hefur líka sparnað í för með sér í heilbrigðiskerfinu. Þar veitir okkur ekki af að spara með því að byggja upp ungt fólk til þátttöku í lífinu. Það er nauðsynlegt þegar verið er að byggja íþróttamannvirki að reyna að nýta það á sem fjölbreytilegastan hátt. Ég hygg að t.d. á höfuðborgarsvæðinu sé e.t.v. í það mesta að byggja íþróttahús við hvern einasta framhaldsskóla í borginni en það er engu að síður nauðsynlegt að það sé gulltryggt að nemendur hafi greiðan aðgang að húsnæði til þess að stunda íþróttir.