Varðveisla gjafa og eigna hússtjórnarskóla

Miðvikudaginn 08. maí 1996, kl. 15:39:30 (5815)

1996-05-08 15:39:30# 120. lþ. 133.11 fundur 502. mál: #A varðveisla gjafa og eigna hússtjórnarskóla# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi ÍGP (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur

[15:39]

Fyrirspyrjandi (Ísólfur Gylfi Pálmason):

Herra forseti. Á dögunum bar ég fram sakleysislega spurningu í óundirbúnum fyrirspurnatíma til hæstv. menntmrh. Spurningin var svohljóðandi:

,,Hvernig er háttað varðveislu gjafa og eigna hússtjórnarskóla sem flestir hafa verið lagðir niður?``

Hæstv. menntmrh. bað um að ég legði fram spurningu þessa með formlegum hætti svo að hann gæti undirbúið svarið. Það var eðlilegt af hans hálfu og þess vegna geri ég þetta hér og nú.

Ég viðurkenni að ég gerði mér ekki grein fyrir því þá að hér væri um jafnviðkvæmt og alvarlegt mál að ræða og raun ber vitni. Ég er þakklátur þeim fjölmörgu sem hafa haft samband við mig um þessi mál til að fræða mig og upplýsa. Margir telja að í umræðunni hafi þessar stofnanir verið lítilsvirtar í orði og á borði svo að ekki sé talað um virðingarleysi gagnvart eignum þeirra. Eignirnar eru peningaleg verðmæti og hafa í senn tilfinningaleg og menningarleg gildi og endurspegla velvilja velunnara þessara stofnana sem í flestum tilfellum voru kvenfélagasamtök eða kvenfélög í viðkomandi héruðum sem og starfsmenn og nemendur þessara skóla. Staðreyndin er sú að mikil menning liggur að baki þessum stofnunum. Ævilangar hefðir og gildi. Mörg þessara gilda hafa nú farið forgörðum í samfélagi okkar.

Þegar best lét störfuðu 11 hússtjórnarskólar í landinu. Þeir voru börn síns tíma og höfðu verulegt menningarlegt gildi ekki síður en menntastofnanir þær sem starfa nú vítt og breitt um landið.

Það þarf ekki að hafa mörg orð um það hvaða áhrif starfræksla menntastofnana hefur fyrir mannlíf á svæðum þar sem þeir starfa. Þá er sama hvort talað er um grunnskóla, tónlistarskóla, framhaldsskóla eða háskóla. Um leið og það skiptir miklu máli að varðveita eignir hússtjórnarskólanna skiptir líka miklu máli að varðveita sögu þeirra. Það sem við teljum úrelt í dag er orðið að verðmætum á morgun.