Varðveisla gjafa og eigna hússtjórnarskóla

Miðvikudaginn 08. maí 1996, kl. 15:48:10 (5818)

1996-05-08 15:48:10# 120. lþ. 133.11 fundur 502. mál: #A varðveisla gjafa og eigna hússtjórnarskóla# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., MS
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur

[15:48]

Magnús Stefánsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir þessa fyrirspurn sem sýnir hve mikinn áhuga hann hefur á þessum málefni og er það vel. Ég hef orðið var við að þessi fyrirspurn hefur vakið mikla athygli og viðbrögð fjölmargra fyrrverandi nemenda hússtjórnarskóla víða um land. Það sýnir þann hug og tilfinningar sem tengjast þessum skólum og þeim hlutum sem hér um ræðir.

Það er mikilvægt að tryggja varðveislu þessara hluta og gjafa sem um er að ræða auk þess sem þeim tengjast tilfinningar nemenda og fyrrverandi starfsmanna hússtjórnarskólanna. Eins og fram hefur komið tengist þetta menningar- og sögulegum minjum og sögu viðkomandi héraða og staða þar sem skólar hafa verið starfræktir.

Hæstv. menntmrh. svaraði því hvernig málum er við komið í tveimur fyrrverandi hússtjórnarskólum á Vesturlandi, þ.e. Varmalandi og Staðarfelli. Ég vil lýsa ánægju með það svar sem kom fram og tel mjög mikilvægt að varðveisla þessara muna verði tryggð, ekki síst ef það getur komið heim og saman við þá starfsemi sem fram fer í framtíðinni á viðkomandi stöðum.

Herra forseti. Ég vil ítreka þakkir til hv. fyrirspyrjanda og einnig til hæstv. ráðherra fyrir svörin.