Dráttarvextir

Miðvikudaginn 08. maí 1996, kl. 15:55:24 (5822)

1996-05-08 15:55:24# 120. lþ. 133.12 fundur 473. mál: #A dráttarvextir# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., Fyrirspyrjandi JóhS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur

[15:55]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Virðulegi forseti. Ástæða þessarar fyrirspurnar til viðskrh. um dráttarvexti er sú að í tengslum við þáltill. sem ég hef flutt um aðgerðir til að bæta stöðu skuldara hefur það vakið athygli mína hve gífurlega mikil dráttarvaxtataka er á vanskilum skuldara. Ég nefni sem dæmi að fram kom í umræddri þáltill. að uppsafnaðir dráttarvextir á fimm ára tímabili af skuld sem nam liðlega 300 þús. kr. voru orðnir nálægt 1 millj. kr., þ.e. einungis dráttarvaxtatakan af 300 þús. kr. skuld var um 990 þús. Þetta á sér skýringu í því að dráttarvextir eru mjög háir og ekki síður að áfallnir dráttarvextir skuli lagðir við höfuðstól skuldar og nýir dráttarvextir reiknaðir af samanlagðri fjárhæð ef vanskil standa lengur en 12 mánuði. Í þessari fyrirspurn er einmitt spurt um álit hæstv. ráðherra á því hvort fyrirkomulag dráttarvaxta sé eðlilegt.

Í annan stað hef ég fengið jákvæð viðbrögð frá hæstv. félmrh. og reyndar einnig hæstv. fjmrh. um að rétt væri að skoða fyrirkomulag dráttarvaxta. Það kom sérstaklega til umræðu annars vegar í tengslum við frv. félmrh. um meðlagsgreiðslur, en dráttarvextir vegna útistandandi meðlagsskulda sem eru 5,3 milljarðar kr. eru um 1.150 millj. kr. Hins vegar kom þetta mál aftur til umræðu í tengslum við frv. hæstv. fjmrh. um heimild til að afskrifa skattaskuld til einstaklinga. Þar kom fram að álagðir dráttarvextir vegna skattaskulda einstaklinga á árinu 1993, 1994 og 1995 voru um 810 millj. kr. Ég er sannfærð um það, eftir að hafa kynnt mér rækilega þann mikla kostnað sem einstaklingar í vanskilum verða fyrir og verða að greiða, til hins opinbera, innlánsstofnana og lögfræðinga, að það er ekki síst fyrirkomulag dráttarvaxta sem veldur því að einstaklingar geta ekki komist út úr miklum fjárhagserfiðleikum. Þetta er fyrsta ástæða þess og sú þýðingarmesta að þessi fyrirspurn er fram borin til hæstv. viðskrh.

Hin síðari er sú að það er andstætt því frjálsræði sem ríkir í vaxtamálum og samræmist varla nútímaviðskiptaháttum að Seðlabanki ákveði dráttarvexti hverju sinni. En samkvæmt ákvæðum vaxtalaga eru dráttarvextir á peningakröfum ákveðnir af Seðlabanka samkvæmt ákveðinni formúlu sem kveðið er á um í vaxtalögum. Vegna þess er þessi fyrirspurn fram lögð. Spurt er um álit ráðherra á þessu fyrirkomulagi dráttarvaxtaútreikninga og hvort það standi til að breyta því og hvort ráðherrann telji að það samræmist nútímaviðskiptaháttum.

Síðan er spurt um hvort ráðherra telji eðlilegt að dráttarvextir séu 15--16% á ári eins og nú er.

Í þriðja lagi er spurt hvort ráðherrann telji eðlilegt að áfallnir dráttarvextir skuli lagðir við höfuðstól skuldar og nýir dráttarvextir reiknaðir af samanlagðri fjárhæð ef vanskil standa lengur en 12 mánuði.

Loks er spurt hvort ráðherra hafi áform um að leggja til breytingar á vaxtalögum og fyrirkomulagi dráttarvaxta.