Dráttarvextir

Miðvikudaginn 08. maí 1996, kl. 15:58:28 (5823)

1996-05-08 15:58:28# 120. lþ. 133.12 fundur 473. mál: #A dráttarvextir# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., viðskrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 133. fundur

[15:58]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Á þskj. 809 spyr hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir um dráttarvexti. Fyrsta spurning hv. þm. hljóðar svo með leyfi forseta:

,,Hvert er álit ráðherra á fyrirkomulagi dráttarvaxtaútreiknings samkvæmt vaxtalögum og telur hann það samræmast nútímaviðskiptaháttum að Seðlabanki ákveði dráttarvexti?``

Í haust sem leið skilaði svokölluð vaxtalaganefnd skýrslu til mín, en nefndin hafði það hlutverk að endurskoða ákvæði vaxtalaga, nr. 25/1987. Nefndin leggur til þá grundvallarbreytingu í vaxtamálum að dráttarvextir verði gefnir frjálsir þannig að þeir ráðist af samningum manna á milli. Nú eru dráttarvextir hins vegar ákveðnir af Seðlabankanum innan marka sem tiltekin eru í vaxtalögum. Þessi breyting sem vaxtalaganefndin leggur til felur í sér að dráttarvextir geta verið álag á samningsvexti eins og algengt er víða erlendis, en núna er slíkt óheimilt hér á landi. Þá fylgir þessari breytingu einnig að verðtryggð lán geta áfram verið verðtryggð eftir að taka dráttarvaxta hefst en breytist ekki í óverðtryggð lán eins og núna gildir. Álit vaxtalaganefndar verður til skoðunar í viðskrn. í sumar og haust og hyggst ég koma með tillögur á næsta þingi um breytingar.

Í öðru lagi spyr hv. þm., með leyfi forseta:

,,Telur ráðherra eðlilegt að dráttarvextir séu 15--16% á ári eins og nú er?``

[16:00]

Eðli máls samkvæmt hljóta dráttarvextir að vera hærri en samningsvextir. Þeir eru refsing fyrir að standa ekki í skilum. Vaxtavandamálið er að vextir eru almennt allt of háir hér á landi. Dráttarvextir eru háir vegna hárra vaxta í landinu og þessi munur er tilkominn vegna þess. Ríkisstjórnin beitti sér fyrir lækkun vaxta í febrúar sl. Sú aðgerð er farin að skila miklum árangri og er ekki enn séð fyrir endann á þeim vaxtalækkunum. Seðlabankinn lækkaði til að mynda ávöxtun í viðskiptum bankans með ríkisvíxla um tæpt 1 prósentustig í aprílmánuði. Markaðurinn tók vel við þessari lækkun. Vextir fimm ára spariskírteina lækkuðu verulega í apríl, þeir eru nú 5,45% en voru 5,9% um áramótin. Sérstaklega er athyglisverð 2% lækkun vaxta á fimm ára óverðtryggðum bréfum frá áramótum. Þessi lækkun bendir til þess að markaðurinn hafi trú á að stöðugleikinn sé langvarandi. Bankar og sparisjóðir hafa hins vegar ekki enn tekið við sér og fylgt þessum lækkunum eftir. Kjörvextir almennra skuldabréfalána banka eru nú um 0,3% hærri en í desember. Í vaxtalækkunarhrinunni í apríl lækkuðu bankavextir aðeins óverulega og þetta þurfa bankarnir að skýra. Búast má við að vextir fari lækkandi á næstunni. Almenn lækkun vaxta á næstu vikum og mánuðum vegna hagstæðra efnahagsskilyrða mun einnig leiða til lækkunar dráttarvaxta.

Í þriðja lagi spyr hv. þm.:

,,Telur ráðherra eðlilegt að áfallnir dráttarvextir skuli lagðir við höfuðstól skuldar og nýir dráttarvextir reiknaðir af samanlagðri fjárhæð ef vanskil standa lengur en í 12 mánuði?``

Ekki stendur til að breyta þessu ákvæði vaxtalaga, enda alsiða að vextir reiknist af vöxtum. Kröfuhafi verður að geta bætt dráttarvaxtatekjum við eign sína. Annað fyrirkomulag væri í hæsta máta óeðlilegt því að krafan mundi þynnast út með tíð og tíma, m.a. í ljósi þess að hluti dráttarvaxta er ígildi verðbóta. Almenna reglan í viðskiptalífinu er sú að vaxtatekjur bætast við höfuðstól til frekari ávöxtunar. Þannig nýtur sparifjáreigandi til að mynda vaxta af inneign sinni að viðbættum áður fengnum vöxtum. Mismunandi er þó eftir innlánaformum hversu oft vextir bætast við höfuðstól en aldrei sjaldnar en á 12 mánaða fresti. Í vaxtalögum er hins vegar lagt bann við því að dráttarvextir séu lagðir við höfuðstól oftar en á 12 mánaða fresti. Þetta ákvæði vaxtalaganna felur því sér ákveðna vörn fyrir skuldara.

Í fjórða lagi spyr hv. þm.:

,,Áformar ráðherra að leggja til breytingar á vaxtalögum og fyrirkomulagi dráttarvaxta?``

Eins og fram kom í svari við fyrstu spurningu hyggst ég láta skoða þetta álit vaxtalaganefndar betur í sumar og mun í kjölfar þess taka ákvörðun um með hvaða hætti það frv. sem lagt verður fram um breytingu á vaxtalögum lítur út þegar það verður lagt fyrir komandi þing.