Hvalveiðar

Fimmtudaginn 09. maí 1996, kl. 12:06:55 (5831)

1996-05-09 12:06:55# 120. lþ. 134.91 fundur 295#B hvalveiðar# (umræður utan dagskrár), GuðjG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur

[12:06]

Guðjón Guðmundsson:

Herra forseti. Í sumar verða liðin sjö ár frá því að síðasti hvalurinn var dreginn á land í hvalstöðinni í Hvalfirði. Þá lauk hvalveiðum í rannsóknarskyni sem höfðu staðið í fjögur ár eða frá því að ákvörðun Alþjóðahvalveiðiráðsins um tímabundna stöðvun veiða í atvinnuskyni tók gildi árið 1986. Allar götur síðan hafa stjórnvöld unnið að undirbúningi þess að Íslendingar geti hafið hvalveiðar á ný. Sá undirbúningur hefur verið margháttaður, m.a. á vettvangi hinna ýmsu alþjóðasamtaka sem við eigum aðild að.

Þessi undirbúningur Íslendinga og annarra þjóða hefur skilað miklum árangri, nú síðast með einróma samþykki fulltrúa á annað hundrað þjóðþinga í Alþjóðaþingmannasambandinu um sjálfbæra nýtingu sjávarspendýra og áður með svipuðum samþykktum Evrópuráðsins og sjávarútvegsnefndar Evrópusambandsins. Einnig má minna á ákvæði hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna og afstöðu GATT til innflutningstakmarkana.

Ég held að ekki verði mikið meira gert á þessu sviði. Undirbúningi er lokið og kominn tími til aðgerða. Við hljótum að treysta því að þær þjóðir sem standa að samþykktum þessara alþjóðastofnana standi við það sem þær hafa samþykkt og láti ekki undan háværum þrýstingi svokallaðra umhverfisverndarsamtaka. Viðhorf til hvalveiða virðist vera að breytast víða erlendis, ekki síst í Bandaríkjunum þar sem andstaðan hefur verið hvað mest. Þar er að verða mikil breyting á afstöðu manna, ekki síst stjórnmálamanna, til hvalveiða. Norðmenn sem hófu veiðarnar að nýju fyrir þremur árum létu verslunarháskóla Noregs gera úttekt á áhrifum veiða á útflutning frá landinu og ferðamannastraum. Sú úttekt sýndi að áhrifin voru nánast engin og nú hafa Norðmenn ákveðið að tvöfalda veiðarnar á þessu ári.

Þegar rætt er um hvalveiðar má ekki gleyma mikilvægi þeirra hvað varðar atvinnu og verðmæti. Síðustu árin sem veiðarnar voru stundaðar af fullum krafti var framleiðsluverðmæti hvalaafurða um 1,5 milljarðar kr. á ári miðað við verðlag í dag. Þá störfuðu um 250 manns hjá Hval hf. á hvalvertíðinni og tugir manna við hrefnuveiðar og vinnslu. Þetta jafngilti um 150 ársverkum auk allrar þeirrar margháttuðu þjónustu sem fylgdi þessari starfsemi.

Við getum hafið veiðarnar á ný án teljandi tilkostnaðar. Það er allt til staðar, skip og vinnslustöðvar. Það hlýtur að vega þungt á sama tíma og við leitum með logandi ljósi að nýjum atvinnutækifærum, m.a. í stóriðju þar sem hvert nýtt starf kostar tugi og jafnvel hundruð milljóna kr.

Fyrir um það bil tveimur árum birti Morgunblaðið grein eftir Árna Bjarnason útgerðartækni sem þá starfaði sem stýrimaður á togara frá Akureyri. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Aldrei á mínum sjómannsferli hef ég séð önnur eins býsn af hval og í ár. Djúpslóðin út af Vestfjörðum er undirlögð og einnig eru smáhvalavöður um allan sjó. Sé það rétt sem mér er tjáð að búrhvalur éti þrjú tonn af grálúðu og karfa á dag, þá tekur hann til sinna þarfa meira magn en flotanum er úthlutað af grálúðu. Málið er einfalt. Ef við Íslendingar drepum ekki hval, þá drepur hvalurinn okkur.``

Hér er talað tæpitungulaust en svipuð sjónarmið hef ég síðan ítrekað heyrt frá fjölmörgum sjómönnum. Í talningu hvala í hafinu kringum Ísland sem framkvæmd var á árunum 1986--1989 kom í ljós að það voru um 40--50 þús. hvalir á svæðinu og það er talið að þeir fjölgi sér um 5--10% á ári eftir tegundum. Það hefur komið skýrt fram hjá okkar fremstu vísindamönnum á þessu sviði að verulegar líkur eru á að afrakstur þorskstofnsins geti minnkað um 10% ef hvalastofnar halda áfram að stækka óhindrað. Heildarfæðunám hvala á Íslandsmiðum og nærliggjandi svæðum er talið vera milli 4 og 5 millj. lesta á ári, þar af 1--1,5 millj. lesta af fiski eða svipað og ársafli okkar Íslendinga.

Herra forseti. Það er stefna ríkisstjórnarinnar að nýta allar auðlindir sjávar á grundvelli sjálfbærrar þróunar og þar á meðal hvali. Í svari hæstv. sjútvrh. við fyrirspurn minni á Alþingi í nóvember kom fram að hann stefndi að því að flytja á þessu þingi þáltill. um að hefja hvalveiðar. Það er enginn vafi á því að það er almennur stuðningur við slíka tillögu á meðal þjóðarinnar. Um það vitna stanslausar ályktanir ýmissa félaga og stofnana vítt og breitt í þjóðlífinu. Gott dæmi um þennan víðtæka stuðning er heilsíðuauglýsing í Morgunblaðinu í gær þar sem öll 11 útvegsmannafélög landsins, öll helstu samtök sjómanna, Alþýðusambandið, Dagsbrún og fjöldi annarra verkalýðsfélaga, Fiskifélag Íslands, Iðnnemasambandið, Bændasamtökin og mörg sveitarfélög hvetja til þess að hvalveiðar verði hafnar að nýju.

Þá má minna á að skoðanakannanir hafa sýnt yfirburðafylgi þjóðarinnar við hvalveiðar, allt að 90%. Ég spyr því hæstv. sjútvrh.: Eftir hverju erum við að bíða?