Hvalveiðar

Fimmtudaginn 09. maí 1996, kl. 12:17:42 (5833)

1996-05-09 12:17:42# 120. lþ. 134.91 fundur 295#B hvalveiðar# (umræður utan dagskrár), HG
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur

[12:17]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Staðan í þessu máli er mjög sérkennileg. Hér koma þingmenn þing eftir þing og spyrja hæstv. sjútvrh. hvað dvelur. Hvað dvelur orminn langa að ekki skulu hafnar hvalveiðar? Þingmenn úr flokki hæstv. ráðherra eru þar í fararbroddi en einnig gekk fram í febrúar 1995 núv. formaður þingflokks Framsfl. og hvatti eindregið til dáða. Þá gagnrýndi núv. hæstv. utanrrh. þáv. ríkisstjórn harðlega fyrir að vera ekki byrjuð að fylgja eftir samþykkt sem allir þingflokkar á Alþingi áttu hlut að. Það ber því miður öll merki loddaraleiks hvernig að þessu er staðið af þeim sem ráða málum á Alþingi, hafa hér meiri hluta og ég gagnrýni þetta.

Ég átti sæti í þeirri nefnd sem kennd er við Matthías Bjarnason og þar var einróma niðurstaða að byrja á því að hefja hrefnuveiðar. Það eru tvö ár síðan þessi hæstv. sjútvrh. hafði þetta einróma álit í hendi sér. Ráðherrann hefur kosið að túlka það svo að hann vilji fá ályktun Alþingis um málið. Það gat út af fyrir sig verið skynsamlegt en hann gat verið viss um niðurstöðuna. Það er alveg ótvírætt meiri hluti yfirgnæfandi ef ekki samróma álit á Alþingi að byrja hvalveiðar varfærnislega í upphafi og stunda þær á sjálfbæran hátt, virða alþjóðasáttmála að sjálfsögðu varðandi tegundir sem kunna að vera í útrýmingarhættu eða þar sem tvísýnt er um málið. Ég gagnrýni þessa framgöngu framkvæmdarvaldsins í málinu, ríkisstjórnarinnar. Er ekki einmæli í ríkisstjórn um málið? Hvað veldur þessum drætti?