Hvalveiðar

Fimmtudaginn 09. maí 1996, kl. 12:26:56 (5838)

1996-05-09 12:26:56# 120. lþ. 134.91 fundur 295#B hvalveiðar# (umræður utan dagskrár), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur

[12:26]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ef hefja á hvalveiðar þarf að leggja mat á hvaða áhrif hvalveiðar hafa á útflutningsmarkað okkar fyrir aðrar afurðir, ekki síst fiskútflutning, svo og ferðaþjónustu til landsins og hvort og þá hvaða áhrif þær hefðu á stöðu þjóðarinnar á alþjóðavettvangi. Það er líka ljóst að það þjónar litlum tilgangi fyrir hagsmuni þjóðarinnar að hefja hvalveiðar nema verulegar breytingar verði á útflutningsmörkuðum fyrir hvalaafurðir. Þegar markaður eins og Japansmarkaður er lokaður fyrir innflutning á hvalkjöti er tómt mál að tala um að hefja hvalveiðar til útflutnings sem gæti frekar skaðað hagsmuni þjóðarinnar en hitt.

Mitt mat er þó að við núverandi aðstæður sé ekkert því til fyrirstöðu að hefja takmarkaðar hrefnuveiðar fyrir innanlandsmarkað, a.m.k. til að byrja með. En það þjónar engum tilgangi að hefja hvalveiðar nú ekki síst þar sem markaðir erlendis eru lokaðir fyrir hvalaafurðir. Ég hef líka óskað eftir því að utanrmn. fjallaði um þetta mál og að hæstv. utanrrh. og hæstv. sjútvrh. kæmu á fund nefndarinnar þannig að færi gæfist á að meta sameiginlega hvort æskilegt sé og raunhæft að hefja hvalveiðar að nýju og auðvitað þarf sjútvn. einnig að koma að því máli. Einnig tel ég nauðsynlegt að ræða í nefndinni hvort rétt sé að endurskoða afstöðu okkar til aðildar Íslands að Alþjóðahvalveiðiráðinu og þá meta hvort NAMMCO sé fullnægjandi til að þjóna hagsmunum okkar. Jafnvel þótt Alþjóðahvalveiðiráðið standi í vegi fyrir sjálfbærri nýtingu hvalastofna er engu að síður nauðsynlegt að við leggjum mat á hvar á alþjóðavettvangi við getum helst haft áhrif til að breyta viðhorfum til hvalveiða sem er ekki síst nauðsynlegt innan Alþjóðahvalveiðiráðsins.