Hvalveiðar

Fimmtudaginn 09. maí 1996, kl. 12:28:53 (5839)

1996-05-09 12:28:53# 120. lþ. 134.91 fundur 295#B hvalveiðar# (umræður utan dagskrár), KH
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur

[12:28]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Þeirri fullyrðingu hefur verið haldið að almenningi og m.a. drepið á það í umræðunni að hvalir séu að éta okkur út á gaddinn og af þeirri ástæðu ættum við að hefja hvalveiðar á ný. Þessi fullyrðing stenst ekki nein vistræðileg eða líffræðileg rök. Hvalir eru aðins hluti af flóknu vistkerfi þar sem hver étur annan og það er ekki með neinum vísindalegum rökum hægt að fullyrða að sá fiskur sem hvalir innbyrða sé tapaður fiskveiðiafli.

Málið er ekki svo einfalt að menn geti bara barið sér á brjóst og sagt að auðvitað eigi Íslendingar að ákveða sjálfir hvort þeir veiða hvali og ekki láta útlendinga segja sér fyrir verkum. Þannig er málið ekki vaxið. Það er út af fyrir sig sennilega rétt að margir hvalastofnar, til að mynda hrefnan, mundu þola einhverja veiði. En spurningin er auðvitað: Hvað ætla menn að gera við aflann? Eflaust væri hægt að selja eitthvað af hrefnukjöti innan lands en það er ekki stór markaður. Og maður spyr sig auðvitað hvort vanti meira kjöt á innanlandsmarkað. Það lítur reyndar út fyrir að Bændasamtök Íslands séu þeirrar skoðunar ef marka má auglýsingu í Morgunblaðinu í gær og það vekur satt að segja nokkra undrun.

Menn tala um hugsanleg útflutningsverðmæti upp á 2 milljarða og 200 störf á ársgrundvelli. En það er bara reikningsdæmi og satt að segja mjög ólíkleg niðurstaða eins og sakir standa. Stærsta spurningin er auðvitað hvort sá litli markaður sem hugsanlega fyndist erlendis fyrir hvalkjöt skipti meira mál fyrir þjóðarbúið en markaður fyrir aðrar sjávarafurðir sem hugsanlega væri stefnt í voða. Það er stóra spurningin. Við skulum ekki horfa fram hjá því að svo virðist sem æ fleiri erlend fyrirtæki séu að taka upp þá stefnu að skipta aðeins við þá aðila sem nýta auðlindir sínar í anda sjálfbærrar þróunar og við þurfum þá að sannfæra umheiminn um að við gerum það. Það er ekki nóg að okkur finnist eitthvað í þessu máli, heldur hvað öðrum finnst um okkur.

Herra forseti. Við verðum að sýna ábyrgð og gát í þessu máli eins og mér virðist hæstv. ráðherra hafa skilning á. Viðhorfin eru hugsanlega að breytast, m.a. hjá bandarískum stjórnvöldum sem hafa haft mikil áhrif í þessum málum. Það er mikið í húfi, ekki aðeins efnahags- og atvinnulífið heldur einnig orðstír þjóðarinnar í vísindum og umhverfismálum.