Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Fimmtudaginn 09. maí 1996, kl. 12:46:47 (5850)

1996-05-09 12:46:47# 120. lþ. 134.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur

[12:46]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi máls míns óska eftir því að ráðstafanir verði gerðar til þess að hæstv. fjmrh. verði viðstaddur þessa umræðu.

(Forseti (ÓE): Það verður gert. Hæstv. fjmrh. er kominn í húsið.)

(Gripið fram í: Forsrh. líka.) Það væri ástæða til að hæstv. forsrh. væri einnig viðstaddur þessa umræðu og leyfi ég mér að spyrja hvort hann sé staddur í húsinu.

(Forseti (ÓE): Hann er ekki staddur í húsinu en forseti mun kanna hvort hann getur komi til fundar.)

Ég mun ekki hefja mál mitt fyrr en hæstv. fjmrh. er kominn í salinn.

(Forseti (ÓE): Vill þá ekki hv. þm. að við gerum hlé á fundinum augnablik, hvort sem hv. þm. vill bíða í ræðustól eða í sæti sínu. Fjmrh. er kominn í húsið.)

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því í upphafi máls míns að gera að umtalsefni nokkur atriði sem fram komu í andsvörum hæstv. fjmrh. við umræðuna í fyrradag. Einnig atriði sem komu fram í málflutningi hv. þm. Vilhjálms Egilssonar.

Hæstv. fjmrh. hafði um það mörg orð að við samningu þessa frv. hefði verið haft samráð við samtök þess fólks sem lögin taka til. Hann tók sem dæmi um þetta samráð að hann hefði mætt á fund hjá BSRB. Hvaða fundur skyldi það nú hafa verið? Jú, það var málstofa sem boðað var til um efni þessara umdeildu frv., tveggja tíma málfundur um þessi umdeildu frv. Hæstv. fjmrh. sagðist alltaf hafa verið reiðubúinn að ræða málin við þau samtök sem hlut ættu að máli, samtök háskólamanna, BSRB, kennarasamtökin, alltaf hafa verið til reiðu að fara yfir þessi mál. Hann sagði: ,,Samtökin kusu það hins vegar að fara með málið út til sinna félagsmanna og þá áttum við ekki annarra kosta völ fyrir okkar leyti en leggja frv. fram á þingi.`` Þetta var röksemdafærslan. Þetta var málflutningurinn. Hvað skyldi það hafa verið sem samtök opinberra starfsmanna kusu að fara og ræða við sína félagsmenn? Hvað skyldi það hafa verið? Jú, það var frv. til laga sem gerði ráð fyrir því að allt réttindakerfi opinberra starfsmanna yrði rifið upp með rótum. Það var frv. til laga sem í fyrstu útgáfu gerði ekki ráð fyrir neinum veikindarétti, sem í fyrstu útgáfu gerði ekki ráð fyrir neinu fæðingarorlofi. Það var frv. til laga sem gerði ráð fyrir því að heil stéttarfélög yrðu lögð af, að stórir starfshópar, og það stendur enn, yrðu sviptir samningsrétti. Það var frv. til laga sem gerði ráð fyrir því að ýmis réttindi sem menn hafa búið við, ráðningarfesta, biðlaunaréttur og þar fram eftir götunum, yrðu skert eða tekin af. Þessi samtök voru svo ósvífin að þau ætluðu að ræða þessi mál við sína félagsmenn. Ég heyrði haft eftir hæstv. fjmrh. að meðal opinberra starfsmanna --- hann mun hafa sagt þetta í fjölmiðli nú nýlega --- væru skiptar skoðanir, ólíkar áherslur. Það er alveg rétt. Það eru ólík sjónarmið innan einstakra félaga, innan heildarsamtaka, á milli einstaklinga. Það eru ólíkar áherslur, ólíkar skoðanir og ólíkar hugmyndir uppi. En gagnvart þessum frv. og þessum vinnubrögðum eru allir á sama máli. Það má hæstv. fjmrh. vita að með svona tali, svona sundrungartali, látum við ekki sundra okkur.

Þessi ósvífnu samtök sem átti að svipta samningsrétti, verkfallsrétti og margvíslegum réttindum öðrum voru svo ósvífin að fara og leita álits sinna félaga, boða til funda og ræða málin. Þá var ekki stætt á öðru en leggja málið fyrir þingið. Ég mun koma nánar að þessu síðar í öðru samhengi um þessi vinnubrögð, um þessa tegund samvinnu og samráðs, vegna þess að ég held að hún sé engin tilviljun. Ég held að það sé engin tilviljun að svona er staðið að verki. Engin tilviljun. Hins vegar verð ég að játa að margt sem hefur verið sagt við þessa umræðu hefur komið mér á óvart. Ég velti því fyrir mér hvort hæstv. ráðherra sé alvara þegar hann segir að ekki sé hróflað við kjörum sem eru samningsbundin, ekki hróflað við samningsbundnum kjörum.

Hann hefur sagt líka að það sé verið að afnema ýmislegt sem úrelt er. Sérstaklega eru tiltekin réttindi á borð við æviráðningu og biðlaunarétt þegar þannig er talað. Ég veit alveg hvað það er sem vakir fyrir mönnum, þegar þessar áherslur eru uppi. Ég veit alveg hvað það er og við vitum það öll hvað það er sem vakir fyrir mönnum. Það er verið að reyna að draga upp mynd af einhverri gamalli embættismannaforréttindastétt sem býr við æviráðningu. Svo er iðulega talað um að það þurfi að vera hægt að losa sig við drykkjurúta og fólk sem ekki standi sig í vinnunni og þess vegna sé æviráðning afskaplega slæm. Við sjáum alveg hvaða mynd verið er að draga upp. En mig langar til að biðja menn að velta því örlítið fyrir sér hvað það er sem er svona úrelt, t.d. við æviráðningu. Það er nú einu sinni svo að í seinni tíð eru menn ekki ráðnir inn til ríkisins með æviráðningu. Það er ekki hin almenna regla að menn séu æviráðnir. Þar eru allflestir starfsmenn ráðnir með gagnkvæmum þriggja mánaða uppsagnarfresti. Æviráðning er ekki við lýði nema hjá tilteknum hópum. Hvað er það sem er svona slæmt við æviráðningu? Um hvað snýst æviráðningin? Jú, hún snýst um ákveðið starfsöryggi. Það er hægt að segja æviráðnum starfsmanni upp ef hann brýtur af sér í starfi. Það er hægt. Það er hægt að segja æviráðnum starfsmanni upp eða láta hann hætta ef staða er lögð niður. Það er hægt. En æviráðningin tryggir visst öryggi í starfi. Er það úrelt? Er það svona óskaplega slæmt að menn búi við öryggi í starfi? Hins vegar er þetta náttúrlega hluti af hugmyndafræði sem verið er að knýja hér í gegn og ég mun koma að síðar.

Biðlaunaréttur? Biðlaunaréttur hjá danska símanum held ég að sé þrjú ár. Biðlaunaréttur er ekkert bundinn bara við ríkið. Það er samið um biðlaunarétt hjá mörgum fyrirtækjum á almennum vinnumarkaði. Þetta er ekkert sem er afmarkað við ríkið, síður en svo. Hins vegar er það umhugsunarefni að ríkisstjórnin, sama ríkisstjórn og ætlar að afnema biðlaunarétt hjá talsímaverðinum á símanum sem á að fara að einkavæða núna fljótlega, ætlar að afnema biðlaunarétt talsímavarðarins vegna þess að það kynni í hálft ár, jafnvel ár ef talsímavörðurinn hefur verið lengi í starfi, að þurfa að greiða honum laun sem slaga upp í hálf ráðherralaun. Sama ríkisstjórn og ætlar að gera þetta af siðferðilegum ástæðum gaf vildarvinum Sjálfstfl., eða eigum við að orða það öðruvísi, færði vildarvinum Sjálfstfl. á silfurfati SR-mjöl. Var ekki talað þar um hálfan milljarð? Við skulum því fara svolítið varlega í sakirnar þegar við förum að setja þetta upp samkvæmt einhverjum siðferðilegum kvarða. Við skulum fara varlega þá í sakirnar.

[13:00]

Það kom einnig fram í máli hæstv. fjmrh. í andsvörum um daginn og hjá hv. þm. Vilhjálmi Egilssyni að nú væri búið að gera ýmsar breytingar á frv. Ýmislegt sem ekki hafði verið inni var tekið út og öfugt. Reyndar hefur þetta frv. frá því fyrstu drögin birtust verið að taka breytingum, litlum breytingum þó. Mesta breytingin var náttúrlega þegar veikindarétturinn og fæðingarorlofið sem höfðu gleymst í fyrstu útgáfu, voru komin inn, að vísu aðeins í bráðabirgðaákvæði. Þau réttindi eru enn í uppnámi eins og ég mun koma að síðar. Það var búið að breyta frá fyrstu útgáfu ákvæðum á borð við það að ekki þyrfti að upplýsa starfsmenn um ráðningarkjör, um hvað þeir ættu að fá í kaup og hvaða réttindi þeir ættu að búa við, fyrr en tveimur mánuðum eftir að þeir kæmu til starfa. Það var í fyrstu útgáfunni. Þessu var síðan breytt. Síðan í breytingartillögunum við sjálft frv. er búið að gera ýmsar breytingar sem þeir telja að séu mjög veigamiklar eins og t.d. að nú sé minni háttar fólkið farið út. Minni háttar skrifstofufólkið er hvergi nefnt í frv. En hugsunin, hugsunin er þar. Hún er þar öll, þar er engu breytt. Ég ætla að færa rök fyrir þeirri staðhæfingu hvers vegna ég staðhæfi að hugsunin sem greinir í sundur þá sem eru meiri háttar annars vegar og hina sem eru minni háttar er enn til staðar. Ég ætla að færa rök fyrir því máli.

Þessi umræða er ekki einskorðuð við Ísland. Hún á sér stað víða um lönd. Það hafa verið gerðar um þetta miklar og ítarlegar skýrslur, t.d. á vegum OECD. Þar kemur fram að það eru tvenns konar sjónarmið uppi þegar um er að ræða endurskipulagningu á ríkisrekstri. Menn hafa stillt upp tveimur módelum. Annars vegar er það módel sem Þjóðverjar og Norðurlandabúar hafa stuðst við. Það gengur út á það í grófum dráttum að virkja hinn almenna starfsmann, að inni í skólunum, á sjúkrastofnununum og þeim stofnunum sem reknar eru á vegum hins opinbera sé unnið lýðræðislega. Hins vegar er það hin hugsunin, hitt módelið sem oft hefur verið kennt við Stóra-Bretland og Nýja-Sjáland. Það byggir á allt annarri hugsun. Það er valdstjórnarmódelið. Hugsunin er þessi: Ríkið á að setja almenn markmið. Hið pólitíska vald á að setja almenn markmið og ákvarða fjármunina sem hver og ein stofnun á að fá til að ná þessu markmiðum. Síðan er sjálfri framkvæmdinni valddreift. Gott og vel. Mörgum kann að finnast þetta ágæt hugmynd. Framkvæmdinni á síðan að stýra forstöðumaður viðkomandi stofnunar. Hann á ekki að virkja mannskapinn með sér. Forstöðumaður viðkomandi stofnunar á að fá ákveðin tæki í hendur. Hver eru þessi tæki sem hann á að fá í hendur? Fólk, fólk, það eru tækin hans. Launakerfi er annað tæki sem forstöðumaðurinn fær í hendur. Í stað þess að virkja fólkið lýðræðislega, er hugsunin sú að því sé gerð grein fyrir því til hvers er ætlast af því. Það segir orðrétt hér í athugasemdum með frv., með leyfi forseta:

,,... að gera ríkisstarfsmönnum betri grein fyrir því til hvers er ætlast af þeim ...``

Þetta er hugsunin. Ríkisstarfsmenn verða tæki í höndum forstjórans sem fær aukið svigrúm til að hagræða innan sinnar stofnunar. Hann fær launakerfi í hendur sem hefur að geyma alls kyns hvata og hvatningu sem hann síðan getur ákveðið og ráðstafað að eigin vild. Þetta er hugsunin.

Síðan er það náttúrlega það stórskemmtilega sem kom hér upp síðast. Það er þegar hæstv. fjmrh. og hv. þm. Vilhjálmur Egilsson segjast hafa lagað hina margrómuðu 9. gr. frv. þar sem kveðið er á um þetta sporsluduttlungakerfi og að nú séu settar strangari regur um það efni. Hverjar skyldu þær vera? Jú, ef viðkomandi stofnun fer fram úr þeim fjárhagsramma sem henni er settur af hæstv. fjmrh. þá hefur fjmrh. heimild til að afnema allar þessar greiðslur. Hvaða stofnanir skyldu þetta vera? Hvaða stofnanir fara yfirleitt fram úr of naumt skömmtuðum fjárlögum? Eru það ekki spítalarnir? Skyldu það vera skólarnir? Þetta var viðbótin sem kom, auk þess sem skorður eru settar við því hvað hinir meiri háttar menn hæstv. ráðherra geta skammtað sér sjálfir. En hugsunin er enn til staðar. Þess vegna segi ég að þessi framgangsmáti allur, þessi vinnubrögð eru í takt við þetta. Hann er í samræmi við þetta vegna þess að svona hefur maður samráð, svona hafa meiriháttarmenn samráð við minniháttarfólk. Þeir bara koma á fund hjá því á málstofur (Gripið fram í: Þetta eru hinir nýju stjórnarhættir.) og ræða málin. Þeir eru tilbúnir að koma á fund og ræða málið. Hugsið þið ykkur. Það liggur fyrir þinginu frv. sem rífur upp með rótum allt réttindakerfi opinberra starfsmanna, sem afnemur samningsrétt hjá stórum hópum, sem setur fæðingarorlof og veikindarétt í uppnám, þar sem höfð eru af fólki réttindi og fjármunir. Það á að taka biðlaunaréttinn af. Þeir segja: ,,Og við höfðum samráð. Við komum á fund. Við leyfðum fólkinu að lesa frumvarpsdrögin yfir í próförk.`` Þetta er samráðið. Þetta eru stjórnunarhættirnir sem verið er að innleiða með þessu frv. Það er mergurinn málsins. Svona koma meiri háttar menn fram við minni háttar fólk. Halda menn virkilega að svona nokkuð, þessi hugmyndafræði um húsbændur og hjú, gangi upp í lok 20. aldar? Svo eru menn að tala um nútímavæðingu. Menn sem reyna að troða sér eins langt aftur í aldir eins og þeir mögulega komast. Það á að innleiða hér að nýju og festa í sessi stéttaskiptingu, að efla vald forstjóranna yfir þeim sem þeir stýra. Reyndar orkar nú mjög tvímælis það sem verið er að gera gagnvart forstjóranum einnig. Það er líka verið að skerða réttindi hans á vissan hátt. Það er verið að gera hann að auðsveipu tæki í höndum ríkisvaldsins.

Á fimm ára fresti lýkur ráðningu embættismannsins. Það hljómar líka mjög vel að forstjórinn eigi ekki að vera æviráðinn. Þetta hljómar mjög vel. Þetta er rosalega nútímalegt. Það er alveg geysilega nútímalegt að menn séu alltaf að skipta um forstjóra. En ég bið menn um að hugleiða: Er þetta er endilega til góðs? Við skulum ekki gleyma því að það er hægt að segja yfirmönnum upp störfum. Það er hægt núna. En er þetta endilega til góðs? Hvernig haldið þið að forstjóri muni bera sig að sem er með ráðherra yfir sér sem er honum andvígur og hann veit að fimm ára tíminn rennur út á kjörtímabilinu? Hvernig ber hann sig að? Skyldi hann fækka ferðunum til útlanda? Skyldi hann gera það? Skyldi hann draga úr því sem kann að vera ámælisvert í hans starfi? Skyldi hann gera það? Ég held ekki. Þið vitið hvað er verið að gera hérna. Þetta er svipað og gerðist með Ísland fyrr á tíð. Þá fengu sérstakir vildarvinir Danakonungs landið til skattheimtu. Þetta er hugsunin sem verið er að innleiða. Forstjórinn fær stofnunina til ráðstöfunar. Hann á að sýna hvað í honum býr. Hann fær peninginn, fjármagnið sem Alþingi úthlutar og nú á hann að sýna hvað í honum býr. Hvernig skyldi hann gera það? Hann er kominn með launakerfið í sínar hendur, getur skammtað mönnum laun að eigin geðþótta, búið til sérstakt launakerfi að sínum geðþótta. Hvað skyldi hann gera þegar hann er búinn að fá fjárveitinguna. Jú, hann kallar á sinn fund sína nánustu samstarfsmenn og segir við þá: ,,Þið eruð allt of lágt launaðir. Við verðum að bæta úr þessu. Og eina leiðin sem er fær að mínu mati`` mundi hann án efa segja ,,er að fækka starfsmönnum. Þá höfum við sem eftir verðum meira til skiptanna.`` Þetta er það sem gerist. Reynsla annarra þjóða sem hafa farið út á þessa braut er að slík hugsun hefur leitt til þess að störfum hefur fækkað, enda liggur það í augum uppi, í hlutarins eðli. Menn borga sínum nánustu meira og þeim sem þeir komast af með að borga lítið, borga þeir lítið, minniháttarfólkinu. Meiri háttar sérstökum vinum sínum borga þeir vel, minniháttarfólkinu borga þeir ívið minna og reyna að fækka því eins og mögulega er kostur. Þetta er það sem gerist.

Þetta voru nú eiginlega inngangsorð. Athugasemdir við sitthvað sem fram kom í máli hæstv. fjmrh. og hv. þm. Vilhjálms Egilssonar í umræðunni í fyrradag. Nú langar mig til að ræða örlítið um aðdraganda þessa máls vegna þess að það á náttúrlega talsverðan aðdraganda og ræturnar eru nokkuð djúpar. Maður veltir því fyrir sér hvort hér er verið að fylgja eftir stefnu ríkisstjórnarinnar. Varla held ég að svo sé. Að minnsta kosti var kjósendum ekki greint frá því hvað biði þeirra. Kjósendur gerðu sér ekki grein fyrir því hvað nútímavæðing ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar þýddi í raun. (Gripið fram í.) Framsfl. hefur ekkert rætt um þetta. Það var ekkert talað um það í stefnuskrám um fólk í fyrirrúmi. Ég man ekki eftir að það væri talað þar um minniháttarfólk. Ég hélt að allir ættu að vera meiri háttar í stefnuyfirlýsingum Framsfl. Hins vegar er það svo og það vitum við náttúrlega öll að í Sjálfstfl. eru mjög ólíkir skoðanahópar. Þess vegna er flokkurinn breiður og hefur verið breiður. Þar er annars vegar sá hópur sem telur sig til skynsemishyggjumanna sem taka á þeim vanda sem upp kemur hverju sinni, reisir sína pólitík ekki á neinni mikilli hugmyndafræði heldur tekur á þeim vanda sem upp kemur hverju sinni. Hins vegar eru það pólitísku skírlífismennirnir, frjálshyggjumennirnir, sem hér fyrr á tíð voru stundum kenndir við stuttar buxur. Ég man ekki betur en hæstv. fjmrh. hafi oft hér fyrr á tíð talað um að báknið þyrfti að fara burt. Báknið burt. (Fjmrh.: Og var í stuttum skátabuxum.) Hann var í stuttum skátabuxum, já. Báknið burt, sagði hæstv. fjmrh. á sínum tíma. Hvað var það sem hann vildi fara með burt? Það voru sjúkrahúsin, það voru skólarnir væntanlega. Nú er það Póstur og sími. Það voru orkuverin væntanlega. Þetta er báknið sem á að einkavæða. Þetta er báknið sem þarf að fara burt. Þannig er reyndar talað í frv. og greinargerðinni sem fylgir frv. Þar er orðalagið allt á þennan veg. Hér segir t.d., með leyfi forseta:

,,Ríkið minnir að ýmsu leyti á fyrirtæki sem hefur orðið undir í samkeppni á frjálsum markaði.``

Hér eru miklar áhyggjur sem fram koma á bls. 14 í frv. til laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, í almennum athugasemdum, með leyfi forseta:

,,Ríkisstarfsmönnum hefur fjölgað mjög ört á undanförnum áratugum. Þannig er áætlað að þeir hafi verið um 8% af vinnuafli í landinu árið 1955 miðað við 20% á þessu ári.``

[13:15]

Þetta er svona staðhæfing sem er sett fram. Þetta er alveg skelfileg tilhugsun, orðnir 20% og voru 8% árið 1955. Mikið óskaplega hefur þjóðfélaginu hrakað. Þetta er mikið áhyggjuefni. En hér er engin tilraun gerð til að skilgreina hvað að baki býr, að það hefur orðið grundvallarbreyting á samfélaginu frá þessum tíma. Nú er hin almenna regla sú að karl og kona vinni úti, að starf sem áður fór fram inni á heimilunum er núna unnið á sjúkrahúsum, í skólum og þannig mætti áfram telja. Meðal annarra orða, þegar verið er að reyna að gera lítið úr starfsemi hins opinbera eins og fulltrúar ríkisstjórnarinnar iðka mjög þá velti ég því svolítið fyrir mér hvort menn virkilega trúi eigin orðum. Er þetta allt til óþurftar? Er það til óþurftar fyrir sjómennina að hér sé góð veðurþjónusta, að vitarnir séu í lagi, að sjúkrahúsin séu góð? Er það til óþurftar fyrir samfélagið að hér séu reknir góðir skólar? Er þetta allt til óþurftar? Er þetta fólk virkilega ekki að gera neitt gagn? Er þetta bara einhver misskilningur allt saman? Eða er það svo að menn telja að þessu sé betur komið á markaði? Þar sem við seljum bara aðgang að spítölunum og skólunum eins og þeir eru reyndar að byrja að gera núna með skólagjöldum og aðgangseyri að heilsugæslustöðvum? Þetta er náttúrlega stefnan. Það vitum við. En þetta tal og þessar miklu áhyggjur sem menn hafa af því að ríkisstarfsmönnum hafi fjölgað mjög, kallar á að maður leggist í samanburðarfræðin og veki athygli á því að þegar allt kemur til alls þá er meðaltal í Evrópuríkjum OECD mjög svipað og hér. Reyndar er þessi samaburður mjög varasamur vegna þess að hér erum við að tala um ríkisstarfsmenn, en víða í Evrópu hafa menn gengið lengra en við höfum þegar gert, við að færa starfsemi frá ríki til sveitarfélaga. Það skekkir því þessa samanburðarmynd þannig að opinberir starfsmenn eru víða hugsanlega fleiri en kemur fram í þeim gögnum frá OECD sem ég er að vitna í. Meðaltal ríkisstarfsmanna í Evrópuríkjum OECD er 18,3%. Talan sem hér er fyrir Ísland er 19,4%. Fyrir Danmörku er hún 30,8%. Bretar eru með 19,1% eða ívið lægri en við. Kanada er með 20%, Frakkland 23,6%, Svíar 32,1%. Meðaltalið fyrir allt OECD er tæp 15% og þá erum við komin inn með þessi ríki sem ríkisstjórnin horfir sérstaklega með aðdáunaraugum á, Tyrkland og fleiri lönd sem búa við miklu smærri velferðarþjónustu en við erum að burðast með hér á landi. Við skulum sjá hvað fyrirheitna landið, Nýja-Sjáland er með. Það er nú ekki hér á blaði en síðustu tölurnar frá Nýja-Sjálandi eru frá 1985. Þá var talan þar 18,1%. Það var áður en Ruth Richardson, lærimóðir hæstv. fjmrh., fór að taka til hendinni. Þá voru Nýsjálendingar með svipaðan hluta af vinnuaflinu í starfi hjá ríkinu og við erum með núna.

Hæstv. fjmrh. hefur aldrei farið neitt sérstaklega í grafgötur með sínar skoðanir. Reyndar segi ég honum það til hróss að hann hefur alltaf komið til dyranna eins og hann er klæddur, að því leyti að það hefur enginn þurft að velkjast í vafa um afstöðu hans. Hann vildi báknið burt og hann hefur talað fyrir því að draga úr opinberum umsvifum af fremsta megni. Hæstv. fjmrh. sagði á ráðstefnu á Hótel Loftleiðum 20. okt. 1994 að kjarninn í sinni stefnu um nýskipan í ríkisrekstri væri ,,að dreifa valdi, auka ábyrgð forstöðumanna og flytja ákvarðanir nær vettvangi í því skyni að ná fram hagkvæmari rekstri og betri þjónustu``. Þetta sagði hann þá. Þetta er síðan útfærslan á því hvernig hann hyggst auka ábyrgð forstöðumanna og hvernig hann hyggst ná hagkvæmni í þjónustu. Í athugasemdum með frv. er talað um valddreifingu samfara aukinni ábyrgð stjórnenda og aukinn sveigjanleika í starfsmannahaldi. Við erum búin að sjá hvernig það á að gerast með auknu valdi forstjórans til að ráðstafa vinnutímanum og til þess að knýja menn sem hafa sagt upp störfum til að starfa lengur eftir geðþóttaákvörðun forstjórans. Síðan þessi margrómaða einföldun á launakerfi og aukinn sveigjanleiki í launakjörum sem við eigum nú eftir að ræða mikið og ítarlega. Síðan, með leyfi forseta, er talað um að:

,,Gerðar verði auknar kröfur til menntunar og starfsreynslu ríkisstarfsmanna með því t.d. að gera markvissari kröfur til þeirra, sem ráðnir eru í störf á vegum ríkisins, og vanda betur til ráðninga í þau störf.``

Í hvaða störf? Hvar er svona illa vandað til ráðninga í störf? Það er allt fullt af svona sleggjudómum og staðhæfingum út í loftið í þessu ,,fyrirtæki`` hæstv. fjmrh., opinberum rekstri sem hann leyfir sér að líkja við illa rekið fyrirtæki. Það er ríkisstjórnin sem svona talar. Þetta er alveg með ólíkindum, aldeilis með ólíkindum.

Nú er það svo að á meðal opinberra starfsmanna, innan einstakra félaga, innan einstakra hópa, innan heildarsamtaka, eru ólíkar áherslur eins og ég gat um áðan, um hvað sé heppilegt skipulagsform og þar fram eftir götunum. Menn hafa t.d. ólíkar hugmyndir um það hvort heppilegt sé að fara með samninga inn á stofnanir. Það eru mjög margir sem telja að það sé mjög heppilegt, að það sé ágæt ráðstöfun. Aðrir telja svo ekki vera. Það er bara annað sjónarmið. Þeir sem hafa verið á því máli að það sé heppilegt að fara með samninga inn á stofnanir hafa bent á að það hafi reynst mjög erfitt að bæta launakjörin þegar á að taka á heildarlaunakjörum í einu vetfangi, að þá verði sú stóra hella sem launakerfið er illbifanleg og af þeim sökum sé heppilegra að fara með samninga inn á stofnanir. Það sé einnig nauðsynlegt að gefa einstökum stofnunum ákveðinn sveigjanleika. Þetta er ákveðið sjónarmið. Aðrir hafa gagnrýnt þessa hugsun og sagt að það sem líklegt sé að gerist með þessari valddreifingu sé að launamunur aukist vegna þess að þetta muni fela það í sér að menn taki markaðslögmálin í ríkari mæli í sína þjónustu og niðurstaðan og reynslan hafi jafnan orðið sú að launamunur aukist þegar þetta gerist. Þetta eru tvö ólík sjónarmið. Á þessari ráðstefnu sem ég vitnaði til áðan, þar sem hæstv. fjmrh. var og flutti erindi, flutti ég einnig erindi og ræddi m.a. þessar áherslur. Ég sagði m.a., með leyfi forseta:

,,Auðvitað mætti til sanns vegar færa að heildstæð launastefna gæti falist í því að afnema með öllu hin ólíku viðmiðunarkerfi starfshópa og starfsstétta og koma á einstaklingsbundnum samningum sem fræðilega séð gætu verið eins ólíkir og margir og einstaklingarnir sem samið er við. Þetta gæti vissulega kallast launastefna, en þar með í afstöðunni til þessarar stefnu erum við líka búin að finna þann samnefnara sem ég hef trú á að sameini flest ef ekki öll félög og samtök launafólks. Þau hafa þá sameiginlegu afstöðu að kjarasamningar eiga að vera reistir á félagslegum grundvelli en ekki einstaklingsbundnum. Einstaklingsbundnir samningar skapa mikil og að mínum dómi óeðlileg og óásættanleg völd hjá launagreiðanda gagnvart viðsemjanda hans, hættu á mismunun og spillingu, auk þess sem spurningar hljóta að vakna um nauðsyn þess að hafa skýrar viðmiðunarreglur varðandi öll starfskjör og launagreiðslur og tryggja sérstaklega vel að kaupin gerist samkvæmt samþykktum reglum en ekki duttlungum einstaklinga, þegar um er að tefla ráðstöfun opinberra fjármuna. Það er svo allt annar handleggur hvort samið er um launabætur, bónusa og álagsgreiðslur við einstaklingana ef það er gert á félagslegum grunni. Við getum haft á því ólíkar skoðanir og þar hef ég vissulega mínar efasemdir, hvort slíkt sé heppilegt eða æskilegt. En munurinn á því að semja um slíkar greiðslur við einstaklinginn annars vegar og félagið hins vegar er sá að í fyrra tilvikinu eru endanlegar ákvarðanir komnar undir einhliða ákvörðun stjórnandans, a.m.k. stendur hann andspænis starfsmanni sem á allt undir honum komið og er þar af leiðandi í veikri stöðu og það sem meira er þetta er þeirra einkamál. Í síðara tilvikinu er um að ræða almennar reglur og jafnvel þótt þær mismuni einstaklingum eru þær öllum augljósar. Kerfið er með öðrum orðum uppi á borði og komið undir lýðræðislegum vilja en ekki háð geðþóttaákvörðunum launagreiðandans.

Niðurstaða mín varðandi þetta fyrsta atriði er því þessi: Starfsmenn ríkisins og samtök þeirra hafa þá sameiginlegu stefnu að um laun skuli samið á félagslegum grunni og við stéttarfélög starfsfólks. Allar breytingar í launakerfinu, hvort sem er til valddreifingar, samningsstjórnunar eða hvers kyns tilraunastarfsemi hljóta af okkar hálfu að skoðast með tilliti til þessarar meginreglu.

[13:30]

En víkjum nú að þeim meginviðhorfum sem eru uppi varðandi samningsfyrirkomulagið. Annars vegar eru þeir sem eru fylgjandi valddreifingu varðandi stjórnun á stofnunum ríkisins, þar með stjórnun á samningamálum starfsmanna viðkomandi stofnana, og hins vegar eru þeir sem eru hlynntir miðstýrðum samningum um kaup og kjör, samræmdri yfirstjórn, fyrirkomulagi, sem byggir á því að kjörin séu samræmd á einn eða annan hátt. Þess vegna er spurt: Er æskilegt að fara með samninga út í einstaka stofnanir að fullu eða á fjmrn. á einhvern hátt að hafa yfirumsjón með gerð þeirra og framkvæmd? Ég held að ekki sé gerlegt að gefa afdráttarlaust svar við þessari spurningu um allar stofnanir á vegum ríkisins. Það sem kann að eiga við í einu tilviki á ekki við í öðru.``

Tilvitnun lýkur hér með í þetta erindi sem var flutt á ráðstefnu fjmrn. á Hótel Loftleiðum 21. okt. 1994. Það sem þarna kemur fram með öðrum orðum er að staðhæft er að öll samtök launafólks hafa sameinast í þeirri afstöðu að hvar svo sem samið er, hvort sem það er gert miðstýrt í fjmrn. eða í einstökum stofnunum, þá skuli það gert á félagslegum grunni. Það viðhorf kemur fram að einhlítt svar við þeirri spurningu hvort sé rétt að fara með samninga frá fjmrn. í einstakar stofnanir er komið undir starfseminni. Það sem kann að eiga við á einum stað á ekki við á öðrum. Þetta er sú stefna sem samtök opinberra starfsmanna hafa fylgt. Ég nefni sem dæmi að Starfsmannafélag ríkisstofnana, SFR, lýsti vilja til að gera tilraunir með að fara með samninga inn á einstaka stofnanir og önnur félög hafa einnig farið út á þessa braut, farið með samning inn á einstakar stofnanir þannig að það er enginn þvergirðingsháttur þar á bæ. Menn eru einfaldlega að segja: Förum hægt í sakirnar, sameinumst um málið, semjum á félagslegum grunni en það sem hæstv. fjmrh. er að gera er að knýja fram illa unnið frv. sem byggir á einhliða valdi ráðuneytis og forstjóra. Það er það sem verið er að gera. Það er því sem við erum að andæfa. Við erum að andæfa þessum vinnubrögðum og þeim framgangsmála öllum og því samningsferli sem hér er verið að reyna að skapa sem reyndar er ekkert samningsferli. Það er ákvarðanaferli, tilskipanaferli. Hæstv. fjmrh. leyfir sér að koma hér hvað eftir annað, bæði í ræðustól á Alþingi og annars staðar í þjóðfélaginu, og halda því fram að með því kerfi sem hann er að skapa sé verið að gera launakerfið gagnsærra. Nú eigi allt að fara upp á borð og verði gagnsætt þegar hann er í raun að fara með það neðan jarðar, niður í skúffurnar og á bak við tjöldin. Það er það sem verið er að gera því að í þeirri grein frv. þar sem kveðið er á um vald forstjórans og forstöðumanna til að greiða einstökum starfsmönnum, umbuna þeim í starfi, segir að þetta eigi allt að gerast samkvæmt sérstökum reglum sem fjmrn. setji. Þannig eigi t.d. að koma í veg fyrir aukinn launamun kynjanna með nýjum reglum. Það eru nú einu sinni til lög í landinu sem banna misrétti kynja í launum, það eru lög um það, sem er ekki framfylgt. Við höfum bent á leiðir til að ná þeim markmiðum fram t.d. með starfsmati en til þess að það nái fram að ganga þá mega menn ekki afsala sér tækjunum sem þeir búa við til að koma því fram, koma ákvörðunum sínum í framkvæmd. Því það er eitt að setja niður nefndir og láta þær koma með ábendingar um hvað þurfi að færa til í launakerfinu í réttlætisátt og það er annað að afsala sér um leið tækjunum til þess að ná þessu fram vegna þess að það eru menn að gera með þessari duttlungastjórnun innan stofnunarinnar. En þessu á hins vegar að svara og það á að passa upp á þetta með sérstökum reglum sem fjmrh. setur. Nú spyr ég hæstv. fjmrh. Hvar eru þessar reglur? Í rauninni er ekki hægt að halda umræðunni áfram áður en við fáum að vita hverjar þessar reglur eru. Við getum ekki tekið þátt í umræðunni af einhverju viti nema við fáum að vita og þekkja reglurnar. Hverjar eru þessar reglur? Hæstv. fjmrh. leyfir sér að staðhæfa aftur og aftur að reglurnar eigi að tryggja réttlæti. Hverjar eru þessar reglur? Ég veit og auðvitað vitum við öll að þessar reglur eru ekki til og verða aldrei til. Það verða hugsanlega til einhverjar almennar ábendingar en hvers vegna verða þær ekki til? Vegna þess að þær stríða gegn þeim markmiðum sem menn eru að reyna að ná með þessu frv. Frv. byggir á því að forstjórinn sem á að framkvæma hina pólitísku ákvörðun, markmiðið sem ríkisstjórnin setur, fái möguleika og svigrúm til þess. Meðal annars í gegnum launakerfið, það er hugsunin. Um leið og fjmrh. setur forstjóranum þröngar skorður að þessu leyti er hann kominn í bakið á sjálfum sér. Þetta er staðreynd málsins. Ég spyr: Af hverju er ekki hægt að ræða þetta heiðarlega? Af hverju á að reyna blekkja fólk með svona tali um að það komi einhverja reglur sem tryggi það að það verði ekkert launamisrétti, ekkert misrétti á milli karla og kvenna? Af hverju að vera að blekkja fólk svona? Þetta eru ekki heiðarleg vinnubrögð. Ég auglýsi eftir því þegar hæstv. fjmrh. kemur og gerir grein fyrir máli sínu að hann geri grein fyrir þessum reglum. Ég vona að fjölmiðlar gangi eftir því við hæstv. fjmrh. að hann geri grein fyrir þessum reglum sem hann ætlar að setja. Hverjar eru þær? Hverjar eru þær nákvæmlega? Hverjar eru þær reglur sem eru við lýði núna? Það eru samningar. Það eru kjarasamningar, félagslegir kjarasamningar, það eru reglurnar. Nei, nú á ekkert að vera með neitt svoleiðis. Það er ekki nógu nútímalegt. Nú eiga bara að koma einhverjar reglur úr fjmrn. sem við vitum að er ekkert annað en blekking. Það er ekkert annað en blekking. Mér finnst mjög óheiðarlegt að fara fram með þetta mál á grundvelli blekkinga. Menn eiga að koma hreint fram og koma heiðarlega fram í þessu máli.

Við vitum sem sagt hvað það er sem ríkisstjórnin hyggst gera. Við þekkjum það og hljótum að velta því fyrir okkur hvort að það kunni nú ekki að vera eitthvað gott við þetta, hvort það gæti ekki hugsanlega þegar allt kemur til alls leitt til launahækkana. Ástandið er nú ekkert sérstaklega beysið. Gæti nú ekki verið að hlutirnir löguðust eitthvað við þetta? Ég held ekki enda er það ekki það sem vakir fyrir hæstv. fjmrh. Hann býsnast yfir því, bæði á þessari ráðstefnu, sem hann vitnaði í áðan á Hótel Loftleiðum og eins í athugasemdum með frv., hve launakostnaðurinn, launaútgjöldin hjá ríkinu séu mikil. Og það segir hér t.d. í athugasemdum með frv., með leyfi forseta: ,,Öllum sem láta sig fjármál ríkisins einhverju skipta er það hins vegar ljóst að eina leiðin til að ná jafnvægi í ríkisfjármálunum, án þess að hækka skatta, er að lækka ríkisútgjöld og það verður ekki gert að neinu ráði nema með því að draga úr kostnaði við starfsmannahald á vegum ríkisins.`` Þetta segir í athugasemdum með frv. Sem sagt, frv. og þessar skipulagsbreytingar eru ekki til þess gerðar að hækka launin, síður en svo, heldur til að dreifa, til að breyta launasamsetningunni þannig að forstjórarnir og kannski einhverjir meiriháttarmenn fái ívið meira en minniháttarfólkinu fækki og það fái minna í sinn hlut. Þetta er markmiðið. Því miður er þetta ekki útúrsnúningur. Því miður er þetta svona. Hins vegar hefur verið snúið heilmikið út úr málum en það er af hálfu þeirra sem eru að reyna að keyra þetta fram með blekkingum.

[13:45]

Við héldum mörg hver sannast sagna fyrir nokkrum mánuðum að það yrði reynt að ná fram þeirri stefnu sem fjmrh. hæstv. lýsti á Hótel Loftleiðum í októbermánuði árið 1994, yrði reynt að ná þessu fram með samkomulagi. Það var áður en við skildum hversu langt menn ætluðu raunverulega að ganga í því að fara inn í hið nýsjálenska/breska módel, valdstjórnarmódelið, sem byggir náttúrlega á því að menn hafi ekki samráð enda var það það sem lærimóðir hæstv. ráðherra sagði á fundinum á Hótel Loftleiðum fyrr á þessu ári, Ruth Richardson, fyrrv. fjármálaráðherra í Nýja-Sjálandi, sem hrökklaðist þar út úr stjórnmálum sakir óvinsælda. Hún hafði farið fram með svipaða hugmyndafræði og svipaðar tillögur og verið er að reyna að þröngva hér í gegn. Hún var afskaplega stolt af því hvað henni hafði tekist að veikja velferðarþjónustuna í Nýja-Sjálandi og talaði af miklum hugsjónaeldi á Hótel Loftleiðum á sínum tíma. Og hún sagði: Fyrir alla muni, reynið að koma þessum breytingum í gegn með miklu hraði, í upphafi kjörtímabils. Þetta verður erfitt, það verða mikil mótmæli en látið ekki hugfallast, reynið að keyra þetta í gegn í upphafi eða á fyrri hluta kjörtímabilsins og hafið sem allra minnst samráð við þá sem hlut eiga að máli.

Það eru náttúrlega fleiri sem hafa gert sér grein fyrir þessu og auðvitað hefur hæstv. fjmrh. fengið stuðning í þessu máli. Það er athyglisvert að ekki er langt síðan að það var hreinlega blásið til orrustu. Það var gert í grein í Viðskiptablaðinu 21. febr. Þar var skrifuð grein til stuðnings hæstv. fjmrh. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Friðrik Sophusson hefur á undanförnum missirum verið að innleiða margvísleg nútímaviðhorf og vinnubrögð í ríkisrekstrinum. Á hann hrós skilið fyrir það og stuðning. Er mikilvægt að atvinnu- og viðskiptalífið í landinu sýni að það kann að meta það sem hann er að gera. Jafnvel einörðustu stjórnmálamönnum hættir til að hopa þegar verkalýðsfélögin sýna klærnar ef ekki kemur til stuðningur annars staðar frá. Frumvarpið um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna er of mikilvæg réttarbót til að hægt sé að una við það að tapa þessum slag.``

Hæstv. fjmrh. á að sjálfsögðu stuðningsmenn. Ekki bara úr Verslunarráðinu og ekki bara Vinnuveitendasambandinu heldur líka Vinnumálasambandinu sem hefur verið að álykta, væntanlega fyrir hönd kaupfélaganna í landinu. Það eru mjög undarlegar yfirlýsingar sem þar hafa komið og ég hef trú á því að þær hafi ekki vakið mikla hrifningu alls staðar. Vinnumálasambandið er að hvetja ríkisstjórnina og hæstv. fjmrh. til þess að skerða réttindi opinberra starfsmanna, t.d. draga úr orlofsréttinum, það var sérstaklega tekið fram í ályktun þeirra. Ég held að það sé rétt að líta á þessar ályktanir frá atvinnurekendasamtökunum sem eru að hvetja ríkisstjórnina. Ég veit ekki hvort það hefur komið eitthvað frá Verslunarráðinu, ég hef ekkert séð frá Verslunarráði ályktað um þetta mál alveg nýlega. Hins vegar þótti mér tónninn í hv. þm. Vilhjálmi Egilssyni ótrúlega líkur því sem ég hef oft heyrt frá Verslunarráði Íslands, alveg ótrúlega líkur tónn.

Í ályktun frá Vinnumálasambandinu sem var samþykkt 11. apríl segir m.a., með leyfi forseta:

,,Stjórn Vinnumálasambandsins fagnar framkomnum drögum að breytingum á lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna.`` Síðan segir á þá leið að það sé löngu tímabært að afnema öll þessi sérréttindi, þau séu tímaskekkja og að lokum segir: ,,Er Alþingi hvatt til að standa fast á að ná þessum breytingum fram.`` Og hér síðar, undir lok ályktunarinnar segir: ,,Það er því von Vinnumálasambandsins að Alþingi veiti þessu frv. brautargengi og leggjum til að það verði samþykkt.`` Þessari miklu réttarbót, að svipta heila hópa samningsrétti, hafa af mönnum réttindi sem eru í kjarasamningum þeirra, ráðningarsamningum, sem skírskotað er til í ráðningarsamningum, hafa þau af fólki. Taka af mönnum biðlaunaréttinn einhliða. Þetta er geysileg réttarbót. Menn bera ekki mikla virðingu fyrir eigin samtökum sem álykta í þessa veru.

En hvers vegna skyldu þessir aðilar allir vera svona ákaflega glaðir? Hvernig skyldi standa á því? Hvernig skyldi standa á því að Vinnumálasambandið og Vinnuveitendasambandið skuli vera svona ánægð með þetta? Jú, vegna þess að það sem hrífur þessi samtök, vinnuveitendasamtökin, er að þau gera sér grein fyrir því að með þessum breytingum er verið að draga úr möguleikum verkalýðshreyfingarinnar til að heyja hér lýðræðislega réttindabaráttu. Það er verið að grafa undan félagslegum samningum og það sagði reyndar í ályktun sem fram kom frá Vinnuveitendasambandinu fyrr á þessu ári, ég held að það hafi verið í febrúar. Þar sagði orðrétt: ,,að nú kunni að vera tímabært að kveða skýrt á um rétt starfsmanna einstakra fyrirtækja og stjórnenda þeirra til að semja sjálfir um kaup og kjör án milligöngu samtaka atvinnurekenda og launþega.`` Þetta er markmiðið. Auðvitað eru þessi samtök ánægð og glöð þegar fram kemur frv. á Alþingi með annarri eins réttarbót. Hugsið ykkur, annarri eins réttarbót. Og þessu er að sjálfsögðu fylgt eftir í frv. Það er sko ekki látið sitja við orðin tóm þar á bæ.

Í 47. gr. þessa skerðingar- og haftafrumvarps er ákvæði sem er svohljóðandi: ,,Stéttarfélög eða samtök þeirra gera kjarasamninga við ríkið um laun félagsmanna sinna og launakjör eftir því sem nánar er fyrir mælt í lögum.

Nú kýs starfsmaður að standa utan stéttarfélaga og skal hann þá njóta sömu launa og launakjara og samið hefur verið um í kjarasamningum fyrir sambærileg störf. Sé ekki um það að ræða skal fjármálaráðherra ákveða laun og launakjör þeirra starfsmanna sem standa utan stéttarfélaga.``

Þetta held ég að sé eitt alvarlegasta ákvæðið í þessum lögum. Hér er beinlínis verið að búa í haginn fyrir þá framtíð sem hæstv. fjmrh. er væntanlega mjög hugnanleg, að hér verði engin stéttarfélög við lýði, engin stéttarfélög sem trufla. Að bara sé samið við minniháttarmenn, maður við mann. Meiriháttarmaður og minniháttarmaður hittist við samningaborðið og geri upp mál sín en séu ekki með einhver stéttarfélög sem trufla. Hér er farið að vilja Vinnuveitendasambandsins sem í samþykkt í febrúar ályktar á þann veg að nú kunni að vera kominn sá tími að einstaklingarnir semji án milligöngu stéttarfélaganna. Það er að koma hingað.

En nú er bara spurningin þessi: Má gera þetta? Er leyfilegt að gera þetta? Ég held nefnilega að þetta sé ekki leyfilegt. Það sem meira er ég held ekkert um það, ég veit að það er ekki leyfilegt að gera það. Ef farið er í gegnum þær ályktanir sem hafa borist frá stéttarfélögunum þá eru færð ítarleg rök fyrir því að þetta sé ekki leyfilegt. Menn hafa reyndar spurt því að margir trúa varla eigin eyrum þegar þeir heyra málflutninginn frá ríkisstjórninni og kynna sér síðan hvað það er sem hún hefur sett á blað. Þá hafa menn verið að spyrjast út í þetta, grennslast fyrir hvað vakir raunverulega fyrir mönnum með þessari grein. Ég ætla að leyfa mér að vitna í álitsgerðir þar sem vikið er að stjórnarskrá landsins. Hún er kannski ekki mikils virði í augum ríkisstjórnarinnar. Samningar og lög og stjórnarskrá en það er athyglisvert að ef fram kemur að eitthvað stríði hugsanlega gegn einhverjum ákvæðum í alþjóðlegum skuldbindingum þá fyrst taka menn við sér, að málið kunni verða tekið upp á einhverjum fínum fundum í útlöndum. Það er þá fyrst að menn eru reiðubúnir að íhuga málin og skoða. Í álitsgerð BHM segir um 47. gr.: ,,Í fyrstu málsgrein 47. greinar frumvarpsins er gert ráð fyrir að stéttarfélög eða samtök þeirra njóti þeirra sérstöku réttinda að fá að gera kjarasamninga við ríkið fyrir hönd félagsmanna sinna sem þar starfa. Þessi grein er algerlega óþörf og raunar út í bláinn þar sem samningsréttarmálum stéttarfélaga opinberra starfsmanna og opinberra vinnuveitenda er fyrir komið í sérstökum lögum nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Samningsréttur er grundvallarréttindi launamanna en ekki sérstök réttindi.

Í 2. mgr. 47. gr. er þó gengið skrefi lengra en þar segir: ,,Nú kýs starfsmaður að standa utan stéttarfélaga og skal hann þá njóta sömu launa og launakjara og samið hefur verið um í kjarasamningum fyrir sambærileg störf. Sé ekki um það að ræða skal fjármálaráðherra ákveða laun og launakjör þeirra starfsmanna sem standa utan stéttarfélaga.`` Hér virðast höfundar frumvarpsins hvorki þekkja ákvæði 2. mgr. 7. gr. laga nr. 94/1986 þar sem sérstaklega er fjallað um kjaraákvörðun og réttarstöðu þeirra sem kjósa að standa utan stéttarfélaga né til ákvæða laga nr. 120/1992 og greinargerðar með þeim þar sem sérstaklega er gengið út frá því að kjör starfsmanna ríkisins séu annað tveggja ákveðin í kjarasamningum eða af Kjaradómi eða kjaranefnd en sjálfdæmi fjármálaráðherra, svokölluð ráðherraröðun, felld niður. Samkvæmt orðalagi 47. gr. eiga starfsmenn sem kjósa að standa utan stéttarfélaga að njóta sömu kjara og réttinda og samið hefur verið um í kjarasamningum fyrir sambærileg störf. Í 2. mgr. 7. gr. laga 94/1986 er gert ráð fyrir að starfsmenn sem þess óska geti staðið utan stéttarfélaga en séu eigi að síður varðir gegn lakari kjörum en þeir nytu ef þeir væru í stéttarfélaginu. Fyrir þetta ber þeim samkvæmt gildandi lögum að greiða sama gjald til stéttarfélagsins og þeir myndu greiða ef þeir væru í því. Svo virðist sem 47. gr. eigi að afnema þetta gjald en það verður varla gert öðruvísi en að breyta ákvæði 2. mgr. 7. gr. laga nr. 94/1986. Ljóst er að það veldur stéttarfélagi miklum beinum og óbeinum kostnaði að einstaklingar geti staðið utan félags og þar með utan aðgerða þess, t.d. verkfalls, til að ná bættum kjörum. Stéttarfélagsgjald fyrir veitta þjónustu félagsins vegur þar aðeins lítið á móti kostnaði stéttarfélagsins vegna utanfélagsmanna og eru engin haldbær rök fyrir því að afnema það.``

Tilvitnun lýkur í umsögn Bandalags háskólamanna um þessa tilteknu grein. Í öðrum umsögnum er einnig að þessu vikið, t.d. í umsögn frá BSRB. Þar segir orðrétt, með leyfi forseta:

[14:00]

,,Réttur launafólks til þess að mynda stéttarfélög og til þess að nota samtakamátt sinn í því skyni að tryggja kaup og kjör er meðal grundvallareglna í þjóðfélaginu. Í lögum um starfskjör launþega, nr. 55/1980, er tryggt að laun og önnur starfskjör sem stéttarfélög semja um við vinnuveitendur skuli vera lágmarkskjör í viðkomandi starfsgrein á því svæði sem kjarasamningurinn tekur til. Með víðtækum forgangsréttar\-ákvæðum í kjarasamningum stéttarfélaga og vinnuveitenda á almennum markaði er reynt að tryggja að öllum launþegum sé gert að standa undir kostnaði af starfsemi stéttarfélaganna. Í 24. gr. laganna um kjarasamninga opinberra starfsmanna er regla af sama meiði. Bannað er að setja í ráðningarsamning starfsmanns ákvæði sem er lakara fyrir starfsmanninn en um er samið í kjarasamningi stéttarfélags hans.

Í 2. mgr. 47. gr. frumvarpsins segir að kjósi starfsmaður að standa utan stéttarfélaga þá skuli hann njóta sömu launa og launakjara og samið hefur verið um í kjarasamningum fyrir sambærileg störf. Ekki er mælt fyrir um að starfsmaðurinn skuli greiða gjald til stéttarfélags sem hefur gert þann kjarasamning sem miðað er við en BSRB telur að svo skuli vera. Mjög mikilvægt er að tryggja að kostnaður af starfsemi stéttarfélaga við gerð kjarasamninga greiðist af öllum þeim sem taka laun samkvæmt kjarasamningnum en ekki einungis þeim sem eru félagsbundnir í stéttarfélaginu. Að öðrum kosti fá ófélagsbundnir starfsmenn að njóta afrakstursins af starfsemi stéttarfélaganna án þess að bera hluta þeirra byrða sem starfseminni fylgja. Að mati BSRB væri fráleitt annað en jafnan væri tryggt í starfsmannalögunum að kjör félagsbundinna starfsmanna séu aldrei lakari en kjör ófélagsbundinna starfsmanna. Slíkt kynni að leiða til hruns stéttarfélaganna. Tekið skal fram að BSRB telur óvíst hvert hald er í reglunni í 2. mgr. 7. gr. laga nr. 94/1986 í þessu efni ef frumvarp þetta verður að lögum. Bæði er líklegt að einhverjir kynnu að halda því fram að reglan í 47. gr. frumvarpsins feli í sér að starfsmaður, sem kýs að standa utan stéttarfélags, verði ekki skyldaður til þess að greiða gjald til þess og eins er hitt að samkvæmt orðanna hljóðan ná lög nr. 94/1986 einungis til félagsbundinna manna, sbr. 1. gr., 2. gr. og 2. mgr. 7. gr. laganna.``

Tilvitnun lýkur í þessa álitsgerð frá BSRB og reyndar eru aðrar álitsgerðir um þetta efni í sömu veru. Ég held að öll stéttarfélög í landinu hafi ályktað um þessi mál og sérstaklega hefur verið ályktað um þetta frv. af hálfu félaga opinberra starfsmanna. Reyndar hefur öll verkalýðshreyfingin í heild sinni andæft þessum skerðingar- og haftafrumvörpum og menn hafa mjög staldrað við þessa grein.

Nú kunna menn að segja eða spyrja hvort réttur verkalýðsfélagsins eigi að vera ótvíræður. Á ekki einstaklingurinn að hafa val um það hvort hann er í stéttarfélagi ef hann kýs að standa utan stéttarfélagsins og greiða ekki gjald til stéttarfélagsins? Þetta er sjónarmið sem heyrist oft. Þeir kalla þetta neikvætt félagafrelsi. Neikvætt, það segir sína sögu hvað þarna býr að baki. Ég er ekki að segja að það séu endilega neikvæðir menn sem halda þessu á lofti en tilgangurinn finnst mér vera neikvæður hjá þeim sem halda fram þessum sjónarmiðum, kröfunni um neikvætt félagafrelsi. Að þeir sem eru neikvæðir gagnvart félögunum geti staðið utan þeirra og ekki greitt til þeirra. Menn vilja tryggja neikvætt félagafrelsi af þeim sökum. Við þekkjum það erlendis frá að vandinn er sá að krafan sem menn leggja iðulega upp með annaðhvort af neikvæðum ástæðum eða til þess að tryggja mannréttindin, val og rétt einstaklingins, snýst upp í andhverfu sína. Sérstaklega í miklu atvinnuleysi hefur atvinnurekandinn iðulega sett þeim sem leitar eftir vinnu hjá honum þau skilyrði að hann standi utan stéttarfélags. Það er beinlínis skilyrt að til að fá vinnu þurfi viðkomandi að standa utan stéttarfélags. Þetta er mjög algengt í Bretlandi. Og Nýja-Sjálandi náttúrlega, fyrirheitna landinu. Þar er þetta hin almenna regla. Þangað sem ríkisstjórnin sækir forskrift sína nema þar er svo komið að menn eru búnir að berja niður alla réttindabaráttu, þröngva fólki út úr samtökum sínum. Við skulum minnast þess að þegar teknar eru ákvarðanir um hvar menn skuli vera, hvort þeir skuli vera minni háttar eða meiri háttar, embættismenn eða aðrir þá er sú ákvörðun líka háð geðþótta.

Hér segir í 5. gr. ,,Það fer eftir ákvæðum laga hvaða stjórnvald veitir starf og hvort skipa skuli eða ráða í starfið.`` Við skulum ekki gleyma því að hér er verið að taka ákvörðun um hvort viðkomandi einstaklingur hefur samningsrétt eða ekki. ,,Séu ekki fyrirmæli um það í lögum skal sá ráðherra er stofnun lýtur skipa forstöðumann stofnunar og, eftir atvikum, aðra embættismenn er starfa við stofnunina, en forstöðumaður ræður í önnur störf hjá henni.`` Eftir atvikum skulu menn hafa samningsrétt. Hvers konar lagasmíð er verið að keyra í gegnum þingið? Við höfðum svo mikið samráð af því að hæstv. fjmrh. mætti á málfund og af því að menn fengu að koma athugasemdum á framfæri við próförk en þá voru menn svo ósvífnir að vilja ræða þetta við félaga sína. Vilja ræða það í félögunum að það átti að svipta þá veikindarétti og fæðingarorlofi, taka af þeim biðlaunaréttinn og þar fram eftir götunum. Nú ætlar ríkisstjórnin að þröngva þinginu, sem á að ljúka störfum í þessum mánuði samkvæmt áætlunum sem gerðar hafa verið, til þess að komast að niðurstöðu í þessu máli á fáeinum dögum. Ég man ekki hvort það tók tvö eða þrjú ár í viðræðum við fjmrn. að fá fram viðunandi reglur um réttarstöðu lausráðinna svo dæmi sé tekið. En það er nú svo mikið minniháttarfólk að það er ekki vikið að því í þessu frv. En síðan er allt réttindakerfið tekið upp frá rótum eins og það leggur sig, rifið upp með rótum. Menn segja að stéttarfélögin hafi gerst svo ósvífin að fara að ræða þetta við fólkið og þess vegna hafi þurft að leggja frv. fram á þingi og þess vegna þurfi að keyra það í gegn. Hvers konar málatilbúnaður er þetta?

Þá erum við komin að stóru spurningunni. Er þetta leyfilegt? Nú skulu menn passa sig á því, þeir eiga eftir að fara á fína fundi í útlöndum, hvort þeir eru ekki að brjóta einhverjar alþjóðlegar skuldbindingar. Menn geta horft fram hjá minni háttar plöggum eins og stjórnarskránni eða landslögum svo ekki sé nú minnst á samninga. Hér hefur hæstv. fjmrh. komið fram ítrekað og haldið því fram í ræðustól að ekki sé verið að taka á kjörum sem eru samningsbundin. Það er ekki verið að taka á samningsbundnum kjörum, segir hann. Í rauninni er ekki verið að hreyfa við kjörum eins eða neins. Það er verið að gera eitthvað fyrir framtíðina, það er verið að breyta skipulagi, það er ekki verið að hreyfa við kjörum. Við sem höfum talað fyrir hönd launafólksins á Alþingi, það hafa margir gert það og reyndar er það athyglisvert að þeir sem koma fram í þessari umræðu eru fólk sem er að taka málefnalega á þessum málum fyrir hönd launafólksins, höfum öll sem eitt haldið því fram að það sé verið að hrófla við kjörum einstaklinga sem snerta samninga. Það er verið að hrófla við hinni kjaralegu umgjörð. Við mundum geta sett mál okkar fram með þessum hætti þegar spurt er um kjaraumgjörð og þá stefnu sem er við lýði hjá ríkinu því að oft hefur því verið haldið fram að það sé engin starfsmanna- og launastefna, nokkuð til í því, en við mundum svara á móti og segja að sú fullyrðing standist auðvitað ekki því að þær meginlínur sem starfsmannastefnan byggir á sé að finna í lögum og reglugerðum er að ákveða kjör starfsfólksins með einum eða öðrum hætti sem og í þeim kjarasamningum sem ríkið gerir við stéttarfélög starfsmanna sinna. Hver skyldi hafa orðað þetta svona vel? Hver skyldi hafa orðað þetta svona hnitmiðað? Hver skyldi það vera? Hv. þm. Vilhjálmur Egilsson veltir því án efa fyrir sér. Hver hefur komist svo vel að orði? Einhver úr liði gagnaðilans væntanlega. Nei, hann heitir Friðrik Sophusson og er hæstv. fjmrh. þessarar þjóðar. Hann orðaði þetta á ráðstefnu sem fjmrn. stóð fyrir og áður hefur verið vitnað til á Hótel Loftleiðum hinn 20. okt. 1994. Hér var ég, hæstv. forseti, að vitna orðrétt í yfirlýsingar hæstv. fjmrh. Friðriks Sophussonar þar sem hann segir um starfsmannastefnuna og hvernig kjörin eru ákvörðuð. Hann segir orðrétt: ,,Oft hefur því verið haldið fram að ríkið hafi enga starfsmanna- eða launastefnu. Fullyrðing þessi stenst auðvitað ekki. Þær meginlínur sem starfsmannastefnan byggir á er að finna í lögum og reglugerðum er ákveða kjör starfsfólksins með einum eða öðrum hætti sem og í þeim kjarasamningum sem ríkið gerir við stéttarfélög starfsmanna.`` Misminnir mig eða misheyrði það eitthvað þegar hæstv. fjmrh. fullyrti um daginn að lög og reglugerðir sem menn hefðu ekki beinlínis samið um snertu ekkert þennan kjarapakka. Var það ekki hæstv. fjmrh. sem sagði þetta? Var það kannski hv. þm. Vilhjálmur Egilsson? Þeir hafa haldið því fram að það sé ekki verið að hrófla við kjörum fólks. Það er ekki verið að hrófla við kjörum á þann hátt að menn hafi rétt til að andæfa. Ég man ekki betur en hæstv. fjmrh. segði í ræðustól að það væru tiltekin réttindi sem aldrei hefðu verið metin til launa. Ég skal ekki fullyrða hvaða réttindi það voru, hæstv. forseti, en gott ef það voru ekki æviráðningin og biðlaunarétturinn sem var nefnd í þessu samhengi.

[14:15]

Ég vona að hæstv. fjmrh. fari að koma aftur í þingsalinn. Mér er kunnugt um að hann þurfti að hitta fólk að máli. En mér þætti vænt um ef hæstv. forseti vildi grennslast fyrir um hvað þessum fundi fjmrh. líður því að nú hef ég mikinn áhuga á því að hann hlýði á mál mitt. Bæði fái hann að heyra þessi gullkorn sem frá honum komu á ráðstefnunni á Hótel Loftleiðum árið 1994 og svo það sem ég hef að segja um ummæli hans um biðlaunaréttinn, æviráðninguna og önnur þau kjör sem hann segir að aldrei hafi verið metin til launa. Það var mjög athyglisverð yfirlýsing sem kom frá hæstv. fjmrh. Það var nokkuð liðið á kvöldið þegar hún kom og eflaust kominn einhver svefngalsi í menn. Menn höfðu mjög gaman af þessari yfirlýsingu hæstv. fjmrh. En núna þegar við erum farin að ræða málið á alvarlegum nótum, þá er rétt að hæstv. fjmrh. geri okkur betur grein fyrir þessum sjónarmiðum sínum.

Hv. þm. Vilhjálmur Egilsson var hins vegar mjög heiðarlegur í þeirri yfirlýsingu sem hann gaf í fyrradag þar sem hann sagði að þessi réttindi yrðu að sjálfsögðu verðlögð í næstu kjarasamningum. Heyrði ég það ekki rétt að hv. þm. Vilhjálmur Egilsson hafi talað sérstaklega um það að menn mundu verðleggja þau réttindi sem verið væri að hafa af þeim, þó hann orðaði það ekki beinlínis svoleiðis, mundu verðleggja þau í næstu kjarasamningum. Hann mun eflaust gera betur grein fyrir þessu sjónarmiði sínu á eftir en þetta er nokkuð sem menn munu að sjálfsögðu leggja á minnið þegar þar að kemur og vita að þeir eiga þá stuðning vísan í hv. þm. Vilhjálmi Egilssyni. (VE: Það er ekki gott að segja hvað verðið væri þá.) Og hver skyldi vita nema einhverjar yfirlýsingar færu að koma frá samtökum úti í bæ í þessa veru.

Hæstv. forseti. Er einhverjar fréttir að hafa af ...

(Forseti (GÁ): Forseti getur einungis sagt það að hæstv. fjmrh. sagði að hann mundi koma 15--20 mínútur yfir tvö þannig að forseti á von á honum í húsið á hverri stundu.)

Ég skal þá reyna að lengja mál mitt þannig að ég geti átt orðastað við hæstv. fjmrh. Það er af nógu að taka þannig að ég kvíði því ekki. Það er allt í góðu lagi.

Spurningin sem við erum að velta fyrir okkur þegar hér er komið er hvort hægt sé að gera þetta, hvaða rétt ríkisvaldið hafi til að framkvæma þessar breytingar, hvort þetta standist samninga, hvort þetta standist lög, hvort þetta standist stjórnarskrá, hvort þetta standist alþjóðlegar skuldbindingar. Það er mat manna almennt að þetta geri það ekki. Eitt eru menn alveg sannfærðir um og allar ályktanir eru mjög á einn veg í því efni, að þessar breytingar sem nú eru fyrirhugaðar standast ekki siðferðilega, hæstv. forseti. Það er samdóma álit allra þeirra sem hafa ályktað um þessi mál og eru þessar ályktanir nú orðnar það margar að þær verða taldar í kílóum. Ég veit ekki hvort hæstv. fjmrh. hefur gefið sér tóm til þess að fara yfir þessar ályktanir. Ég veit ekki hvers virði honum finnst svona málatilbúnaður vera, röksemdafærslur frá samtökum launafólks. Þær eru allar á þann veg að þessar breytingar standist ekki siðferðilega. Þær standist ekki samninga, standist ekki lög, þær brjóti í bága við stjórnarskrá og stangist á við skuldbindingar sem Íslendingar hafa gefið á erlendri grundu.

Hér segir t.d. varðandi þessi efni í ályktun sem kemur frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja. Þar segir eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Lögin um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og kjarasamningar ríkisstarfsmanna mynda eina kjaraheild. Kjarasamningar ríkisstarfsmanna eru gerðir í umhverfi laganna um réttindi og skyldur. Lögin eru þannig forsenda fyrir kjarasamningunum. Sem dæmi má nefna að í kjarasamningum ríkisstarfsmanna eru ekki ákvæði um uppsagnarfrest eða starfslok með öðrum hætti eins og er í kjarasamningum starfsmanna á almennum vinnumarkaði. Gengið er út frá lagareglunum um þessi atriði.

Því hefur verið haldið fram að ákvæði laganna um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins séu ekki hluti af samningsbundnum kjörum ríkisstarfsmanna. Þetta er rangt. Dæmi eru um að einstök ákvæði laganna eigi uppruna sinn í kjarasamningum. Það sem þó skiptir meira máli er að í ráðningarsamningum langflestra ríkisstarfsmanna er svo um samið að um réttindi og skyldur launþegans fari eftir lögum um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna að svo miklu leyti sem öðruvísi er ekki um samið í ráðningarsamningnum. Það er því berum orðum svo um samið við langflesta ríkisstarfsmenn að ákvæði laganna séu hluti af ráðningarkjörum þeirra.

Lögin um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins tryggja félagsmönnum stéttarfélaga innan BSRB ýmis réttindi, sem þeir hafa áunnið sér með starfi í þjónustu ríkisins. Sem dæmi má nefna starfsöryggið en það er mun meira en almennt er á vinnumarkaðinum. Enginn vafi er á því að ríkisstarfsmenn hafa mátt þola lægri laun vegna þessa og hafa með þeim hætti greitt fyrir réttindin.

Ýmis réttindi eru háð ávinnslu, þ.e. þau ávinnast í áföngum en önnur eru áunnin. Að mati BSBB verða áunnin réttindi ekki skert með lögum án bóta.``

Síðar segir, með leyfi forseta:

,,Öllu þessu til viðbótar er það skoðun BSRB að ósiðlegt sé að ríkið geri einhliða grundvallarbreytingar á ráðningarforsendum starfsmanna sinna. Sé ætlunin að gera breytingar á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins þá á slíkt einungis að gera með samningum og í samvinnu við stéttarfélög ríkisstarfsmanna.``

Þetta var úr álitsgerð BSRB og hér segir í álitsgerð frá Bandalagi háskólamanna um þessi efni, með leyfi forseta:

,,Ástæða er til að rifja upp forsendur þeirra laga sem nú gilda um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Frumvarp til laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, sem síðar varð að lögum nr. 38/1954, var upphaflega kynnt á þingi Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og leitað samráðs um efni þess en á þeim tíma voru háskólamenn innan \mbox{BSRB}. Í framhaldinu funduðu höfundar laganna með fulltrúum stéttarfélaganna og tókst sátt um mörg mikilvæg atriði og var frv. þannig kynnt í ríkisstjórn. Tilgangur laganna var enda ekki aðeins ,,lögfræðilegs eðlis`` heldur einnig sá að taka tillit til ,,stéttarlegra sjónarmiða`` og ,,stjórnmálaatriða``, enda var það skoðun manna að löggjöf af þessu tagi snerist ekki einvörðungu um formleg réttindi manna og skyldur og ,,fjárhagslega hagsmuni``, heldur einnig um ,,\mbox{tilfinninga-,} réttlætis- og sjálfstæðismál starfsmanna og stéttarfélaga þeirra``.

Starfsmenn ríkisins hafa litið svo á að með aðdragandanum að setningu laga nr. 38/1954 hafi ríkið gert kjarasátt við starfsmenn sína um ráðningarréttindi þeirra. Ávallt síðan hefur verið tekið tillit til þessara ráðningarréttinda þegar laun starfsmanna hafa verið ákvörðuð. Þannig hafa þau legið til grundvallar ákvörðunum launa félagsmanna Bandalags háskólamanna allt til þessa dags, fyrst samkvæmt launalögum, síðan sem viðmið fyrir Kjaradóm og frá 1987 sem viðmið að baki öllum kjarasamningum. Starfsmenn hafa staðgreitt þessi réttindi með því að vera á lægri launum en ella. Nú, þegar boðaðir eru tímar einkavæðingar og samdráttar í ríkisrekstri og fyrirsjáanlegar eru uppsagnir fjölda starfsmanna og niðurlagning á störfum þeirra, boðar ríkisstjórnin riftun á þessum kjarasáttmála sem starfsmenn hafa þegar greitt iðgjald fyrir með lægri launum en ella.``

Enn segir í þessari álitsgerð Bandalags háskólamanna, með leyfi forseta:

,,Verði frv. óbreytt að lögum stríðir það beint eða óbeint gegn ýmsum ákvæðum stjórnarskrár Íslands og gegn ýmsum alþjóðlegum samþykktum sem Ísland hefur gerst aðili að.

Frv. þetta um skerðingu á réttindum starfsmanna ríkisins og aukningu á skyldum þeirra er sett fram í nafni ,,jafnréttis`` til að afnema meint ,,misrétti`` milli starfsmanna ríkis og starfsmanna á almennum vinnumarkaði. Rökstuðningur höfunda frv. fyrir meintu misrétti er fullur af rangfærslum ...``, samanber athugasemdir með frv. sem ég ætla ekki að lesa hér upp, hæstv. forseti, en halda áfram þessari tilvitnun í álitsgerð frá Bandalagi háskólamanna: ,,En höfundarnir ganga lengra en þar greinir og halda því fram að lög nr. 38/1954 eigi eingöngu við um félagsmenn BSRB og BHMR og að það stangist á við ákvæði 65. gr. stjórnarskrár um jafnrétti og stríði einnig gegn ákvæðum 74. gr. um félagafrelsi. Eins og rakið verður hér á eftir er gildissvið laga nr. 38/1954 alls ekki bundið við félagsmenn tiltekinna samtaka eða stéttarfélaga og nægir hér að nefna að lögin taka án nokkurs vafa til allra þeirra sem starfa hjá ríki og heyra undir lög nr. 120/1992, um Kjaradóm og kjaranefnd en þeir standa utan stéttarfélaga. Rökstuðningur höfundanna er þannig einfaldlega fölsun á staðreyndum. Hitt vekur auðvitað spurningu hvort fjmrn. hafi í framkvæmd laganna verið stætt á því að túlka gildissvið laganna á þann veg að þau næðu ekki til starfsmanna ríkisins sem eru í aðildarfélögum ASÍ. Aðalatriðið er þó það að ríkisstjórnin leggur fram frv. til laga sem skerðir umsamin réttindi starfsmanna ríkisins og neytir þannig valdboðs í stað samninga við stéttarfélög starfsmanna til að knýja á um bótalausa sviptingu réttinda starfsmanna. Sá framgangsmáti ríkisvaldsins gagnvart starfsmönnum sínum hlýtur að vekja upp spurningar um hvort frv. stríði gegn jafnræðisákvæðum sem víða er að finna í stjórnarskrá Íslands og ákvæðum 87. og 98. samþykkta Alþjóðavinnumálastofnunarinnar.

74. gr. stjórnarskrárinnar hefst þannig:

,,Rétt eiga menn að stofna félög ..., þar með talin stjórnmálafélög og stéttarfélög, án þess að sækja um leyfi til þess. Félag má ekki leysa upp með ráðstöfun stjórnvalds.``

Frumvarpið gengur á þennan stjórnarskrárbundna rétt með því að gera ráð fyrir því að svipta stóran hóp félagsmanna bandalagsins og jafnvel þorra félagsmanna í sumum stéttarfélögum réttinum til að vera í stéttarfélagi. Svo langt er gengið í frv. að ákvarðanir um það hverjir verði þannig sviptir grundvallarmannréttindum getur verið geðþóttaákvörðun forstöðumanns í stofnun eða fjmrh.``

[14:30]

Ég fagna því sérstaklega að hæstv. fjmrh. er aftur kominn í þingsalinn þótt mér hafi verið kunnugt um að hann hafi þurft að bregða sér frá og er ekkert við því að segja. En ég fagna því að hann er kominn hingað aftur. Ég er að vitna núna í álitsgerð frá Bandalagi háskólamanna og hef áður vitnað í álitsgerð frá BSRB þar sem fjallað er um það sérstaklega hvort heimilt sé að gera þetta samkvæmt samningum, lögum, stjórnarskrá, samþykktum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. Það eru mörg álitamál þar uppi og margt sem bendir til þess að hér sé verið að brjóta mjög alvarlega á fólki. Ég leyfi mér að fullyrða að svo sé gert. En ég vakti sérstaklega athygli á því að í þeim umsögnum sem hafa borist um þetta frv. eru allir á einu máli um það að siðferðilega standist hvorki frv. að innihaldi til né um vinnubrögð sem eru viðhöfð við að knýja það í gegn. Með leyfi forseta ætla ég að ljúka þessari tilvitnun í álitsgerð Bandalags háskólamanna. Hér segir, með leyfi forseta:

,,Íslenska ríkið hefur skuldbundið sig með 74. gr. stjórnarskrár lýðveldisins og með aðild að áðurgreindum samþykktum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar til að hafa ekki afskipti af innri málefnum stéttarfélaga, virða rétt þeirra til að ráða málum sínum sjálf og virða samnings- og verkfallsrétt þeirra án óeðlilegra og ónauðsynlegra afskipta. Í frv. er þrátt fyrir þetta gert ráð fyrir að stórum hópi félagsmanna í aðildarfélögum Bandalags háskólamanna, til viðbótar við þann hóp sem tekinn var úr félögunum með lögum nr. 120/1992, verði meinað að taka þátt í starfi stéttarfélaga í framtíðinni. Þessi hópur verði sviptur félagafrelsi og um leið rétti til að taka þátt í verkföllum til að knýja á um bætur á kjörum sínum í félagslegum aðgerðum. Það að undanþiggja fjölda ríkisstarfsmanna þannig verkfallrétti stríðir einnig gegn 4. mgr. 6. gr. félagsmálasáttmála Evrópu. Gengið er skrefi lengra og þessi hópur er einnig sviptur tjáningarfrelsi að hluta, a.m.k. þegar deilur og aðgerðir standa um kaup og kjör launamanna. Þetta stenst ekki ákvæði 73. gr. stjórnarskrárinnar. Enginn vafi er á því að þessi hluti frv. stríðir gegn almennum viðhorfum til efnis ákvæða stjórnarskrár og alþjóðasamþykkta um félagafrelsi og svipting á tjáningarfrelsi með ofangreindum hætti stríðir einnig gegn ákvæðum íslensku stjórnarskrárinnar. Refsiákvæði 53. gr. frv. kórónar vanvirðingu á tjáningarfrelsinu.``

Nú er komið að því, hæstv. forseti, að fá upplýsingar um það hvað það er sem kórónar vanvirðingu á tjáningarfrelsinu. Hér er í álitsgerð háskólamanna vísað sérstaklega í 53. gr. lagafrv. Ætla ég að leyfa mér að óska eftir því að hæstv. fjmrh. gangi í salinn. Ég ætla að vitna í 53. gr. þeirra laga sem hann er að reyna að þröngva í gegnum þingið, skerðingar- og haftafrv. sem hann er að reyna að þröngva í gegnum þingið. Í 53. gr. segir, þar er reyndar vísað í aðra grein, með leyfi forseta:

,,Brot á 40. gr. varða fésektum nema mælt sé fyrir um þyngri refsingu í öðrum lögum.`` Það væri ánægjulegt að hv. þm. Vihjálmur Egilsson hlýddi einnig á þetta. Í 53. gr. frv., þessa skerðingar- og haftafrv. sem réttilega hefur verið nefnt svo, segir: ,,Brot á 40. gr. varðar fésektum nema mælt sé fyrir um þyngri refsingu í öðrum lögum.`` Hvaða grein skyldi það vera sem menn eru að tala um í sambandi við fésektir og þyngri sektir? Hvað skyldi það nú vera? Hvað er í 40. gr.? Þar segir, með leyfi forseta: ,,Embættismönnum er óheimilt að efna til, stuðla að eða taka þátt í verkfalli eða öðrum sambærilegum aðgerðum.``

Nú efast ég ekki um að hv. þm. Vilhjálmur Egilsson dragi upp einhvern gamlan lagabálk, hugsanlega frá 19. öld, kannski 17. öld, og segi að þá hafi mönnum verið meinað að tjá sig. (VE: 1915.) En í nútímavæðingunni allri, nútímavæðingu hæstv. ráðherra Friðriks Sophussonar er sérstaklega kveðið á um fésektir gagnvart fólki sem vogar sér að tjá sig um verkföll. Hér erum við komin að kjarna málsins í þessu skerðingar- og haftafrv. ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar. Þar er kveðið á um fésektir og þyngri refsingar, eftir atvikum væntanlega, ef menn voga sér að tjá sig um verkföll. Þeir sem hafa verið sviptir verkfallsrétti skulu líka beittir fésektum og þyngri refsingum ef þeir voga sér að tjá sig um kjaradeilu.

Ég spyr: Hvernig á að beita þessu ákvæði? Á að banna jafnmætum mönnum og Indriða Þorlákssyni, þeim ágæta manni, Þorsteini Geirssyni, Birgi Guðjónssyni að tjá sig um kjaramál opinberlega? Þeir eru iðulega að æsa til verkfalla. Þeir mega varla opna munninn án þess að hér logi allt í kjaradeilum. (VE: Það eru einhver ráð.) Þó að þetta sé sagt í hálfkæringi, þá er hitt ekki sagt í hálfkæringi vegna þess að þar er mikil alvara að baki. En þeir hlæja, ráðherrarnir. Þeim finnst þetta óskaplega fyndið, öllum þessum meiriháttarmönnum. Þeim finnst það alveg stórkostlega fyndið að þeir skulu geta bara eftir atvikum eins og segir í frv. ráðið því hverjir hafa málfrelsi og tjáningarfrelsi í landinu. Og ef það er brotið, þá eru það fjársektir. Hafa menn hugleitt það hvað það raunverulega þýðir, við skulum taka háskólakennara sem dæmi, menn sem iðulega láta sig þjóðmálin skipta og hafa á þeim skoðanir, og svipta þá tjáningarfrelsinu. Ég bara spyr. Eða forstöðumenn stofnana. Hvað þetta muni þýða að taka alla þá sem þegar eru skilgreindir samkvæmt þessum lögum sem embættismenn eða kunna að vera skilgreindir sem embættismenn samkvæmt þessum lögum. Þetta er allt eftir atvikum. Við vitum ekki hverjir þetta verða. Við vitum ekki hverjir það eru sem koma til með að hafa samningsrétt. Við vitum það ekki. Hvað með starfsmenn Stjórnarráðsins, þá sem eru skipaðir þar? Það segir líka í lögunum að það fari bara eftir atvikum hverjir það verði. Starfsmenn Fangelsisstofnunar hafa ekki samningsrétt og þeir hafa ekki rétt heldur til þess að tjá sig um málin. Það er búið að taka af þeim málfrelsið. Starfsmenn Stjórnarráðsins, starfsmenn lögreglunnar, tollsins? Það er búið að svipta þetta fólk málfrelsi og því er hótað í þessari lagasetningu þyngri refsingum ef það vogar sér að hafa afskipti af kjaradeilum. Nú er þetta allt saman að falla inn í mynstrið.

Fyrst er sett í lög um að menn skuli geta staðið utan stéttarfélaga og hæstv. fjmrh. ætlar sérstaklega að standa vörð um kjör þeirra. Síðan er einnig sett inn í sömu lög ákvæði sem meinar fólki að tjá sig um kjaramál, hótað fjársektum og þyngri refsingum. Á sama tíma er verið að koma á fót duttlungakerfi í samningamálum. Halda menn virkilega að það séu hinir duglegu og iðnu sem verða verðlaunaðir? Það verða þeir hlýðnu, hinir undirgefnu. Þetta er kerfið. Þetta er kerfi meiriháttarmannanna. Þetta eru lögin um húsbændur og hjú. Og nú förum við að skilja. Nú fer það að verða skiljanlegt hvers vegna mönnum finnst raunverulega í hjarta sínu þeir hafa haft samráð. Þeir trúa því. ,,Auðvitað höfðum við samráð. Við komum á fund. Við sögðum frá þessu. Hverju eru menn að mótmæla? Við komu á fund. Sögðum við ekki að við ætluðum að breyta þessu? Þið máttuð koma athugasemdum til okkar.`` Þeim finnst þetta. Ég hélt nefnilega í sakleysi mínu fyrst, þá trúði ég því, í sakleysi mínu trúði ég því og ég held að við höfum gert það mörg að þeir væru vísvitandi að reyna að blekkja, að þeir væru að reyna að telja fólki trú um eitthvað sem ekki gerðist, að þeir hefðu átt samráð. En þeim finnst það. Þeim finnst þeir hafa haft samráð. ,,Ég kom á fund,`` sagði hæstv. fjmrh. (Gripið fram í: Þetta er sýndarmennska.) ,,Vorum við ekki búnir að segja ykkur þetta allt, að við ætluðum að taka biðlaunaréttinn, að við ætlum að breyta samningskerfinu, ætlum að afnema ráðningarfestuna, að við ætluðum að setja veikinda- og fæðingarorlofsréttinn inn í bráðabirgðaákvæðið? Vorum við ekki búnir að segja ykkur þetta? Við vorum búnir að segja þetta. Við höfðum samráð.`` Þetta er samráð þeirra sem telja sig vera meiri háttar. Þetta er samráð húsbóndans gagnvart hjúinu. En hæstv. fjmrh. má vita það að þessi skipting þjóðarinnar í húsbændur og hjú, í meiri háttar og minni háttar heyrir fortíðinni til. Við krefjumst þess vegna lýðræðislegra vinnubragða. Og þess vegna er þess krafist að þetta skerðingar- og haftafrv. ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar verði dregið til baka.

Í álitsgerðum sem þinginu hafa borist er farið rækilega ofan í einstök efnisatriði. Það er athyglisvert að hvert einasta stéttarfélag í landinu, mér er næst að trúa því að hvert einasta stéttarfélag í landinu hafi ályktað um þessi efni. Það er komið svo að þær verða eiginlega taldar í kílóum, þessar álitsgerðir. Ég leyfi mér að efast um að hæstv. fjmrh. gefi sér tíma til þess að fara yfir þær og lesa. Ég efast um að menn hafi nokkurn áhuga á því að heyra rökstuðning stéttarfélaganna um þessi mál. Ég leyfi mér að efast um það.

Hér er t.d. álitsgerð frá Starfsmannafélagi Ólafsfjarðar sem mótmælir þeirri gerræðislegu ákvörðun ríkisstjórnarinnar að leggja fram umrætt frv. í andstöðu við vilja og án þátttöku launafólks í landinu og krefst þess að ríkisstjórnin dragi frv. til baka. ,,Það er ekki til þess fallið`` --- segir í þessari álitsgerð, með leyfi forseta --- ,,að skapa traust eða velvilja milli samningsaðila svo stuttu fyrir næstu samningagerð að kasta fram slíkri sprengju sem þetta frv. og vinnubrögðin við gerð þess eru.

Starfsmannafélag Ólafsfjarðar harmar þá stefnu sem ríkisstjórn Íslands hefur tekið í málefnum launafólks og þá sérstaklega sinna eigin launþega og vonar í lengstu lög að hið háa Alþingi hafi manndóm og vilja til þess að fella þessi frumvörp ef þau verða ekki dregin til baka.``

Svo mörg voru þau orð. En þetta er athyglisvert sem þarna er sagt. Þarna er talað um manndóm Alþingis. Þarna hafa menn greinilega trú á því að þingmenn stjórnarflokkanna láti ekki segja sér fyrir verkum. Þetta eru athyglisverðar yfirlýsingar, hæstv. forseti, sem hér koma frá Starfsmannafélagi Ólafsfjarðar. Félagið vonar að þingmenn láti ekki segja sér fyrir verkum, láti ekki Vinnuveitendasambandið, Vinnumálasambandið, Verslunarráð Íslands og frjálshyggjudeild Sjálfstfl. segja sér fyrir verkum.

[14:45]

,,Stjórn Starfsmannafélags Seltjarnarness skorar eindregið á efh.- og viðskn. Alþingis að stöðva þetta frv.`` Frá Kópavogi ályktar starfsmannafélag að frv. verði þegar í stað dregið til baka. Á fjölmennum fundi opinberra starfsmanna sem haldinn var á Akranesi 12. mars sl. var einróma mótmælt einhliða ákvörðunum stjórnvalda um breytingar á lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Á Suðurlandi: Stjórn FOSS krefst þess að frv. verði dregið til baka og vísar til ályktunar 300 manna fundar opinberra starfsmanna á Suðurlandi. ,,Það er með öllu óásættanlegt að ríkisvaldið skuli ráðast að starfsmönnum sínum með þeirri fyrirætlan að skerða réttindi og skyldur starfsmanna sinna á miðju samningstímabili og vill FOSS ítreka mótmæli við þau vinnubrögð sem ríkisstjórn Íslands viðhefur um þessar mundir gangvart launafólki í landinu.``

Starfsmannafélag Akureyrarbæjar. Stjórn þess krefst þess að frv. verði dregið til baka. Úr Dala- og Snæfellsnessýslu ályktar starfsmannafélagið: ,,Stjórnin telur að ekki sé eðlilegt að Alþingi geri einhliða breytingar á réttindum og skyldum ríkisstarfsmanna.`` Frá Reyðarfirði: Félag opinberra starfsmanna á Austurlandi telur ,,að brotist hafi verið inn í umsamin launakjör og réttindi opinberra starfsmanna og þau skert þannig að ekki verði við unað.`` Úr Borgarbyggð er ályktað: ,,Í kjarasamningum okkar er ákvæði um að lögin um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins gildi.`` Ég bið hv. þingmenn að taka eftir þessu og er ágætt að hæstv. fjmrh. hlusti ályktun sem hér kemur frá starfsmannafélaginu úr Borgarbyggð. Hér er athyglisverð efnisleg ábending. Hér segir:

,,Í kjarasamningum okkar [bæjarstarfsmanna í Borgarbyggð] er ákvæði um að lögin um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins gildi og við teljum því að ráðningarkjör félagsmanna byggi á þeim, t.d. réttur til biðlauna. Því teljum við ekki rétt að Alþingi breyti lögunum einhliða heldur verði breytingar gerðar í sátt við stéttarfélög opinberra starfsmanna og önnur samtök launamanna.``

Með öðrum orðum, þarna var bent á að í kjarasamningum bæjarstarfsmanna eru ákvæði um að lögin um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins gildi og með þessum breytingum er verið að setja kjarasamninga þessara bæjarstarfsmanna einnig í uppnám.

Starfsmannafélag Sauðárkróks: ,,Stjórn SFS, óskar eindregið eftir því að ríkisstjórnin dragi til baka frv. til laga um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna`` --- og vinnubrögð ríkisstjórnarinnar eru harðlega gagnrýnd.

Starfsmannafélag Vestmannaeyjabæjar: ,,Það er með öllu óásættanlegt að ríkisvaldið skuli ráðast að starfsmönnum sínum með þeirri fyrirætlan að skerða réttindi og skyldur starfsmanna sinna á miðju samningstímabili og vill Starfsmannafélag Vestmannaeyjabæjar ítreka mótmæli við þau vinnubrögð sem ríkisstjórn Íslands viðhefur um þessar mundir gegn launafólki í landinu.``

,,Stjórn Félags opinberra starfsmanna í Húnavatnssýslum telur óeðlilegt að Alþingi geri einhliða breytingar á réttindum og skyldum starfsmanna ríkisins með þessu lagafrv.``

,,Starfsmannafélag Selfosskaupstaðar lítur svo á að lög um réttindi og skyldur og kjarasamninga mynda eina kjaraheild og álítur félagið að ef frv. verði að lögum séu kjarasamningar lausir.``

Þessi tónn er í mörgum ályktunum sem koma frá starfsmannafélögum og stéttarfélögum víða um landið. Starfsmannafélag Siglufjarðarkaupstaðar telur það ósiðlegt að framkvæmdarvald beiti löggjafarvaldi fyrir sig til að breyta forsendum ráðninga einhliða. Kennarasamband Íslands sendir frá sér ítarlega greinargerð. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Verði frv. að lögum mun það hafa veruleg áhrif á kjör ríkisstarfsmanna. Um yrði að ræða einhliða breytingar á lögbundnum kjörum sem kjarasamningar hafa byggt á til margra ára.``

Það er ólíðandi að löggjafinn grípi inn í kjör starfsmanna ríkisins. Mér finnst ástæða til þess að hv. þingmenn hlusti á þessar ályktanir sem koma frá starfsmannafélögum og stéttarfélögum víða um landið. Ég sé að hæstv. fjmrh. lætur svo lítið að hlusta á þessa umræðu. Það er ekki langt síðan hæstv. menntmrh. sagði í ræðustól þegar verið var að tala um réttindi starfsmanna að það mætti ekki sóa tíma þingsins í umræðu af því tagi sem þá fór fram. Ég er kannski að því núna. Ég er kannski að sóa tíma þingsins, að trufla menn í því að taka þessi lög og keyra þau viðstöðulaust í gegnum þingið og gera þessa réttarskerðingu, að gera þetta skerðingar- og haftafrv. ríkisstjórnarinnar að lögum hið fyrsta og þeir leyfa sér að kalla þetta nútímavæðingu. Menn á fullri ferð aftur í aldir; eru að reyna að endurvekja gamla hætti húsbóndaveldisins.

Hins vegar var kjósendum ekki gerð grein fyrir þeirri stefnu sem verið er að reyna að þröngva í gegn, við skulum minnast þess. Ég er alveg sannfærður um hitt líka að bæði innan Sjálfstfl. og mjög svo innan Framsfl. eru mjög margir mjög óánægðir með þessa lagasetningu. Ef einhver skyldi velkjast í vafa um það að hér er verið að tala um mál sem er þverpólitískt í þeim skilningi, hæstv. forseti, að innan okkar raða sem höfum látið þessi mál til okkar taka og þá er ég að vísa til samtaka launafólks, þar er fólk sem tilheyrir öllum stjórnmálaflokkum, líka þeim stjórnmálaflokkum sem fara með stjórn landsins. Það fólk er allt á einu máli upp til hópa. Upp til hópa eru menn á einu máli um hve slæm þessi lagasmíð er og ég þykist vera sannfærður um það að í þinginu líka eru mjög svo skiptar skoðanir um þetta innan stjórnarflokkanna. Og ég ætla að vona að þingmenn sem fylgja stjórnarflokkunum að málum eða eru í þeim flokkum láti ekki segja sér fyrir verkum ef þeir telja óeðlilega að verki staðið hér sem sannanlega er. Það er verið að færa rök fyrir því að þessi lagasmíð stangist á við stjórnarskrá landsins, samninga og lög. Hér er verið að lesa upp úr ályktunum sem koma víðs vegar að af landinu þar sem bæjarstarfsmenn eru að vísa til þess m.a. eins og hér kom fram áðan úr Borgarbyggð að kjarasamningar þar hvíla á þeim lögum sem hér er verið að taka upp með rótum.

Ég var kominn að álitsgerð Kennarasambands Íslans. Þar segir m.a., með leyfi forseta: ,,Verði frv. að lögum mun það hafa veruleg áhrif á kjör ríkisstarfsmanna. Um yrði að ræða einhliða breytingar á lögbundnum kjörum sem kjarasamningar hafa byggt á til margra ára. Það er ólíðandi að löggjafinn grípi inn í kjör starfsmanna ríkisins og skerði þau einhliða eins og hér er verið að gera tilraun til. Kennarasamband Íslands lýsir sig tilbúið til þess að setjast niður með fulltrúum annarra stéttarfélaga og ríkisins og ræða þær breytingar sem æskilegt væri að mati aðila málsins að gera á núverandi lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Slíkt verður þó að gera í tengslum við gerð kjarasamninga með heildarkjör í huga. Mikilvægt er að breytingar á kjörum launafólks séu gerðar í sátt á milli aðila en ekki unnið að þeim einhliða innan veggja fjmrn. án alls samráðs við stéttarfélögin eins og gert hefur verið í þessu máli.``

Þetta var úr álitsgerð Kennarasambands Íslands. Samband ísl. bankamanna hefur ályktað um þetta mál og það er vert að vekja athygli á því að í vinnunni sem fram hefur farið við að plægja í gegnum alla þessa lagasmíð hafa komið fulltrúar úr öllum samtökum opinberra starfsmanna, einnig Sambandi ísl. bankamanna sem býr við samninga sem tengjast því réttindakerfi sem hér er til umræðu. Þar hefur myndast mjög mikil og góð samstaða. Í áliti frá Sambandi ísl. bankamanna segir, með leyfi forseta:

,,Samband ísl. bankamanna, SÍB, hefur fjallað um frumvarp til laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. SÍB krefst þess að frv. verði dregið til baka án tafar. Það er í hæsta máta óeðlilegt að Alþingi breyti einhliða lögum um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna. Kjarasamningar ríkisstarfsmanna eru gerðir með hliðsjón af ákvæðum laganna. Lögin eru því mikilvægar grundvallarforsendur við gerð kjarasamninga. Því er ósiðlegt að gera breytingar á þeim án þess að samkomulag liggi fyrir við samtök þeirra launamanna sem heyra undir lögin. Réttindi þau sem starfsmenn ríkisfyrirtækja njóta samkvæmt lögunum eru hluti af ráðningarkjörum þeirra og slíkum ráðningarkjörum á ríkisvaldið ekki að breyta einhliða og án samkomulags við samtök þeirra starfsmanna sem hlut eiga að máli. Með því að keyra umrætt lagafrv. í gegnum Alþingi er ríkisstjórnin að ófyrirsynju að efna til ófriðar við samtök launamanna sem erfitt verður að sjá fyrir endann á.

Á undanförnum árum hafa samtök launamanna, þar á meðal samtök starfsmanna ríkisfyrirtækja, lagt sitt af mörkum til þess að skapa stöðugleika á vinnumarkaði. Umrætt frv. er einkennilegt framlag ríkisvaldsins til þeirrar viðleitni og beinlínis þess eðlis að geta kollvarpað þeim ávinningi sem náðst hefur. Því væri skynsamlegast að draga frv. til baka nú þegar og efna til viðræðna um hugsanlegar breytingar á réttindum og skyldum opinberra starfsmanna.``

Þetta sagði m.a. í álitsgerð Sambands ísl. bankamanna. Hér eru bankamenn að óska eftir viðræðum við ríkisstjórnina um efni þessara laga og hæstv. fjmrh. kom í ræðustól í fyrradag og sagði að ekki stæði á sér að ganga til samninga og samráðs. Hvers vegna í ósköpunum er það ekki gert? En eitt má hæstv. fjmrh. vita, að það verður ekki gert í andateppustílnum. Það verður gert þannig að menn gefi sér góðan tíma til þess og við séum ekki að fara út í einhverja málamyndavinnu, einhvern málamyndaprófarkalestur, eins og boðið var upp á þegar frv. var upphaflega lagt fram.

Í álitsgerð Sambands ísl. bankamanna segir enn fremur, með leyfi forseta: ,,Viðurkennt er af hálfu forsvarsmanna ríkisstjórnarinnar að mikilvæg ástæða þess að ætlunin er að keyra umrætt frv. í gegnum þingið í vor séu áform um breytingu á rekstrarformi nokkurra ríkisfyrirtækja, þeirra á meðal ríkisviðskiptabankanna tveggja. Það er eindregin skoðun SÍB að rekstrarformsbreyting ríkisviðskiptabankanna þurfi mun lengri aðdraganda og undirbúning en ríkisstjórnin hefur ætlað sér til þessa verks.``

Hæstv. forseti. Þetta eru mikilvægar og athyglisverðar yfirlýsingar sem koma frá Sambandi ísl. bankamanna um áform sem hafa verið hjá ríkisstjórninni um að einkavæða ríkisbankana. Hér eru samtök bankamanna að óska eftir viðræðum og allt annars konar vinnubrögðum en viðhöfð eru af hálfu ríkisstjórnarinnar í þessum einkavæðingaráformum hennar. Enn fremur segir undir lok ályktunar Sambands ísl. bankamanna:

,,Það er veigamikið hagsmunamál eigendanna bankanna, þ.e. þjóðarinnar, starfsmanna þeirra og viðskiptavina að ekki verði flanað að þessum breytingum. Því er það skoðun SÍB að breytingar á lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins geti og eigi að bíða þess að réttmætir samningar náist um þau mál við samtök þeirra launamanna sem undir lögin heyra.``

[15:00]

Þetta var úr ályktun frá Sambandi ísl. bankamanna þar sem hvatt er til samninga og annarra vinnubragða en ríkisstjórnin viðhefur bæði í þessu máli og öðrum málum sem koma nú úr nefndum þingsins og til afgreiðslu. Ég nefni t.d. Póst og síma. Það er eitt frv. sem bíður afgreiðslu og við vitum það öll náttúrlega að það frv. sem um er að ræða er beinlínis sett fram til þess að unnt sé að einkavæða Póst og síma og hafa réttindin af því fólki sem þar starfar. Það er markmiðið. En í leiðinni ætla þeir að koma á þessu nýja valdstjórnarfyrirkomulagi, þessu meiri háttar fyrirkomulagi hæstv. ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar, þessum nýju lögum um húsbændur og hjú, þessu 17. aldar fyrirkomulagi sem ríkisstjórnin kallar nútímavæðingu ríkisþjónustunnar. Það var meira að segja fyrir upplýsingatímann, á 17. öld, sem vinnubrögð af þessu tagi og viðhorf af því tagi sem hér eru kynnt voru við lýði í þjóðfélaginu og þangað aftur er þessari nútímavæðingu er heitið.

Frá Dómarafélagi Íslands kemur mjög hógvær yfirlýsing og vel ígrunduð. Ein setning þar segir kannski meira en mörg orð:

,,Það er eindregin skoðun stjórnar Dómarafélags Íslands að frv. þetta ef að lögum verður eigi ekki að taka til dómara.``

Segir það ekki nokkra sögu? Það er ítarleg álitsgerð frá Dómarafélaginu, engin stóryrði þar á bæ en sagt: ,,Það er eindregin skoðun stjórnar Dómarafélags Íslands að frv. þetta ef að lögum verður eigi ekki að taka til dómara.`` Það mun hafa verið hæstv. forsrh. sem sagðist ekki deila við dómarann. Það var eftir einhvern kjaradóminn, minnir mig. Ég veit ekki hvort hann ætlar að deila við Dómarafélagið. Það er kannski allt annar handleggur þegar dómarar eru komnnir í kjarafélag. Það er eitthvað mjög illt, eyðileggja það, grafa undan því. (SJS: Hvar er forsrh.? Er ekki hægt að fá hann?) Það verður náttúrlega séð til þess að ekki verður lokið við umræðuna án þess að hæstv. forsrh., sem ber ábyrgð á þessum skerðingar- og hafafrumvörpum, verði viðstaddur umræðuna og geri okkur grein fyrir sínum hugmyndum um nútímavæðingu. (Gripið fram í: Og hvaða áhrif frv. muni hafa.) Og hvaða áhrif þetta frv. og þessi frumvörp öll muni hafa, bæði á starfsemi hjá hinu opinbera, á réttindi starfsfólksins og á vinnumarkaðinn almennt. Finnst mönnum kannski það engu máli skipta sem verkalýðsfélögin eru að álykta um þessi efni? Prestarnir mótmæla þeirri réttinda- og kjaraskerðingu sem þetta frv. hefur í för með sér. (SJS: Hvað segir séra Hjálmar?) Hvað segir séra Hjálmar? Það er ekki hægt að fara að dæmi Pílatusar og þvo hendur sínar af þessu frv. Það verður að sjálfsögðu fylgst með því hvernig menn greiða atkvæði þegar þessi réttinda- og haftafrumvörp koma til afgreiðslu í þinginu. Hér er fólk í stéttarfélögum að höfða til þingsins, dómgreindar þingsins, höfða til þingmanna. Hér hafa hv. þingmenn verið að koma upp með tillögur um það hvernig hægt sé að efla völd þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu og alls kyns reglur og hugmyndir uppi um aðskilnað í þeim efnum. Hvers vegna ekki að byrja á aðskilnaði strax? Hvers vegna sýna einstakir þingmenn núna ekki þann manndóm ef þeir á annað borð eru á þeirri skoðun að þessi frumvörp séu til ills, að fella þau, láta ekki stýra sér með þeim hætti sem ríkisstjórnin gerir kröfu til? Það þarf ekki að bíða eftir neinum lagabreytingum eða stjórnarskrárbreytingum til þess.

Ýmsar undantekningar hafa verið í þessu og menn með ýmsar skoðanir. Prófessorar í Háskóla Íslands hafa viljað láta skilgreina sig sem embættismenn. Það er skoðun þeirra. En hafa menn gert sér grein fyrir því hvað það er sem ríkisstjórnin ætlar að gera á móti? Múlbindingin, plástrunin, að svipta þá tjáningarfrelsi og frelsi til að hafa nokkur afskipti af kjaramálum.

Í álitsgerð Félags starfsmanna Alþingis og Starfsmannafélags Ríkisendurskoðunar segir: ,,Í V. kafla athugasemda með frv. er greint frá því að eitt meginmarkmið þess sé að jafna réttarstöðu ríkisstarfsmanna og starfsmanna á almennum vinnumarkaði. Í frv. er hins vegar hvergi gerð nákvæm grein fyrir því í hverju meintur ójöfnuður er fólginn eða útskýrt hvernig ná á fram jöfnuði þarna á milli. Þeim jöfnunar\-áformum frv. er lúta að því að skerða fyrirliggjandi réttindi ríkisstarfsmanna er mótmælt. Í þessu sambandi má benda á ýmis þau atriði sem forsvarsmenn BHMR, BSRB og KÍ hafa haldið á lofti og varða m.a. breytingu á ráðningarformi, skerðingu á ráðningarfestu, afnámi eða skerðingu á biðlaunarétti og almenna skerðingu málskotsréttar. Til viðbótar þessu vilja Félag starfsmanna Alþingis og Starfsmannafélags Ríkisendurskoðunar sérstaklega benda á eftirfarandi atriði.`` Síðan eru þau rakin og ég mun ekki fara nánar í þau efni en hins vegar er undir lokin á þeirri álitsgerð vakin sérstök athygli á 47. gr. sem bætir réttarstöðu þeirra sem standa utan stéttarfélagsins, setja þá undir sérstakan verndarvæng fjmrh. og ríkisstjórnar en setur félögin hins vegar í óvissu og þeirra stöðu. Hér segir t.d. um þetta efni:

,,Nauðsynlegt er að það liggi fyrir meðan frv. er til umfjöllunar á þinginu hvort ætlunin sé að 7. gr. laga nr. 94/1981, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, haldi áfram gildi sínu en þar er kveðið á um að starfsmenn sem standa utan stéttarfélaga greiði gjald til þess stéttarfélags sem þeir ættu að tilheyra eða hvort ætlunin sé að gera einhverjar breytingar þar á. Ekki verður annað séð af orðalagi framangreinds ákvæðis en að það verði í raun og veru stéttarfélögin sem semji fyrir hönd þessara starfsmanna líka þótt óbeint sé.``

Þarna lýsa þessir aðilar áhyggjum yfir þessu efni.

Lögmannafélag Íslands segir m.a. í álitsgerð sinni sem er byggð á vinnu laganefndar félagsins, með leyfi forseta:

,,Laganefndin leyfir sér að vekja athygli á því að fyrirkomulag 23. gr. frv. um tímabundna skipun í embætti gæti leitt til vanda í stjórnsýslunni, sérstaklega að því er varðar æðstu embætti ef framkvæmdin yrði sú að skipun lyki án málefnalegra ástæðna. Þá má ætla að fyrirkomulag þetta geti fælt sjálfstætt starfandi sérfræðinga frá því að sækjast eftir embættum ef ætla má að skipunartími sé takmarkaður.``

Þetta sagði m.a. í álitsgerð frá Lögmannafélagi Íslands og hér er komið að atriði sem ég vék lítillega að í upphafi máls míns um að það kunni að orka tvímælis að stytta ráðningartímann eða gera hann þetta afmarkaðan. Ég veit að það eru ólík sjónarmið uppi hvað þetta snertir, en ég tel að þetta geti einnig haft skaðlegar afleiðingar í för með sér og hvet menn til að hyggja nánar að því hvort þeir trúa því raunverulega að menn starfi betur ef þeir búa við óvissu um framtíð sína. Ég held ekki. Ég held að það eigi ekki að byggja starf einstaklinganna á óttanum heldur á framfaravilja og viljanum til að starfa með öðru fólki. Það er úr þeim vilja og þeim samstarfsgrundvelli sem þannig verður til sem er dregið. Það er sá grunnur sem verið er að ráðast á.

Það er álitsgerð frá skrifstofu jafnréttismála. Þar er m.a. bent á að það sé mjög mikilvægt í lögum af þessu tagi að þau séu skýr og þá er sérstaklega verið að hugsa þarna um jafnréttismálin. Þar er sérstaklega vikið að því að í 9. gr. laganna um samninga séu ákvæði mjög óskýr einfaldlega vegna þess að reglurnar sem ákvæðið á að byggja á eru ekki fyrir hendi.

Í ályktun frá Alþýðusambandi Íslands segir, með leyfi forseta: ,,Miðstjórn ASÍ mótmælir harðlega þeim hugmyndum sem frv. boðar varðandi kjarastefnu og ákvarðanir um kjaramál. Um slík mál á að fjalla í kjarasamningum og eina leiðin til að eitthvert vit og sanngirni verði í ákvörðunum um kjaramál opinberra starfsmanna er sú að launakerfið verði allt uppi á borðinu og um það samið í kjarasamningum þeirra stéttarfélaga sem starfa hjá ríkinu. Miðstjórn ASÍ ætlast til þess af Alþingi að frv. um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins verði ekki að lögum í því formi sem nú liggur fyrir þinginu. Miðstjórnin væntir þess að á næstu mánuðum verði þetta mál til umræðu ásamt þeim öðrum frumvörpum og hugmyndum sem fram hafa komið um réttarstöðu launafólks á Íslandi á sameiginlegum vettvangi ríkisvalds, verkalýðshreyfingar og samtaka atvinnurekenda. Samráð á slíkum vettvangi er eina aðferðin sem einhver von er til að leiði til samkomulags um niðurstöður sem til farsældar horfa.``

Þetta sagði m.a. í álitsgerð frá Alþýðusambandi Íslands. Það er athyglisvert að það eru ekki síður félög á almennum vinnumarkaði sem álykta og taka undir með félögum opinberra starfsmanna hvað snertir þessi hafta- og skerðingarfrumvörp ríkisstjórnarinnar.

Kennarafélag Kennaraháskólans tekur að öllu leyti undir umsögn sem Bandalag háskólamanna hefur sent frá sér. Stéttarfélag sjúkraþjálfara bendir sérstaklega á að verði frv. óbreytt að lögum stríðir það beint eða óbeint gegn ýmsum ákvæðum stjórnarskrár Íslands og gegn ýmsum alþjóðlegum samþykktum sem Ísland hefur gerst aðili að.

Meinatæknafélagið sendir frá sér ítarlega álitsgerð. ,,Meinatæknafélag Íslands hvetur hv. Alþingi að skoða vel það frv. sem hér er fjallað um og íhuga með hvílíku offorsi lagabreytingar sem varða starfsumhverfi 25 þúsund launamanna eru keyrðar áfram.``

Félag tækniskólakennara. Bent er á að frv. þessu er samkvæmt því sem stendur á bls. 20, og er þar vísað í frv., ,,ætlað að jafna réttarstöðu ríkisstarfsmanna og starfsmanna á almennum vinnumarkaði. Hér virðist þó víða vera gengið allmikið lengra í þá átt að rýra réttindi opinberra starfsmanna umfram þau lélegu réttindi sem starfsfólk á almennum vinnumarkaði hefur.`` Undir lokin á ályktuninni segir að það sé horfið aftur á bak en ekki til nútímalegs horfs.

Félag ísl. náttúrufræðinga segir undir lokin á sinni umsögn: ,,Það er krafa Félags ísl. náttúrufræðinga að ofangreint frv. verði dregið til baka og gengið verði til samninga við samtök ríkisstarfsmanna með það fyrir augum að draga úr miðstýringu og ná fram raunverulegum endurbótum á starfsmannahaldi ríkisins.``

Iðjuþjálfafélag Íslands leggur til að frv. þetta verði dregið til baka. Stéttarfélag sálfræðinga segir m.a. í álitsgerð sinni: ,,Af þeirri ástæðu leyfir félagið sér að leggja til við hv. þingnefnd að hún geri það að tillögu sinni að málið verði tekið af dagskrá þingsins.`` Félag fréttamanna: ,,Stjórn Félags fréttamanna mælist til þess að Alþingi hætti umfjöllun um frv. og að um málið verði samið á réttum vettvangi áður en til löggjafans komi. Félag fréttamanna er ekki sátt við einhliða breytingar á kjörum félagsmanna.``

[15:15]

Þinginu hafa borist ótal ályktanir frá fundum stórum og smáum, vinnustaðafundum. Sjúkraliðafélag Íslands sendir mjög ítarlega greinargerð. Þar segir í niðurlagi:

,,Framkvæmdastjórn Sjúkraliðafélags Íslands telur sig með greinargerð sinni hafa fært fullgild rök og ástæðu til að hafna frv. fjmrh. til breytinga á lögum nr. 38/1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Félagið krefst þess að frv. verði dregið til baka og fallið verði frá öllum hugmyndum um breytingar á réttindum og skyldum starfsmanna ríkisins án samráðs og samvinnu við samtök þeirra. Þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið í þessu máli og fleirum er varða réttindi og réttarstöðu launþega eru með öllu óviðunandi.``

Í greinargerð frá Félagi starfsmanna stjórnarráðsis segir m.a.: ,,Félag starfsmanna Stjórnarráðsins er aðili að BSRB. Félagið hefur sjálfstæðan samningsrétt en samkvæmt núgildandi lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins hefur það ekki verkfallsrétt. Í félaginu eru 290 félagsmenn eða ríflega helmingur starfsmanna Stjórnarráðsins. Í 22. gr. ofangreinds frv. kemur fram að skipaðir starfsmenn Stjórnarráðsins verði embættismenn og hafi þar af leiðandi ekki samningsrétt heldur fari kjör þeirra eftir úrskurði Kjaradóms eða kjaranefndar. Nú eru um það bil 40 félagsmenn skipaðir þannig að verði þetta frv. að lögum mun stórlega skerðast samningsréttur félagsins.``

Nú kemur ekki fram í lögunum eða þeim breytingum hverjir það eru nákvæmlega sem verða embættismenn, hverjir verða skipaðir. Það fer bara eftir atvikum. Það er geðþóttaákvörðun.

Landssamband lögreglumanna lýsir undrun sinni á þeim starfsaðferðum sem ríkisstjórnin beitir í þessu máli og mótmælir þeim harðlega. Landssamband slökkviliðsmanna. Efnislega er Landssamband slökkviliðsmanna ósammála fjölmörgu sem frv. hefur að geyma og lýtur m.a. að skerðingu réttinda og kjara, en vísar að öðru leyti til umsagna stjórnar BSRB og athugasemda þess við einstakar greinar frv. ,,Landssamband slökkviliðsmanna skorar á ríkisstjórnina að draga frv. nú þegar til baka og ganga þess í stað til samráðs og samninga um efni þess við samtök launafólks sem er í samræmi við leikreglur lýðræðisþjóðfélaga.``

Tollvarðafélagið hefur haft til umfjöllunar frv. til laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Tollvarðafélagið bendir á að hér sé um einhliða breytingar á réttarstöðu að ræða. Félagið vill benda á að árið 1986, og nú vitna ég í álitsgerðina, með leyfi forseta: ,,Á árinu 1986 afsöluðu tollverðir sér verkfallsrétti við gerð kjarasamninga, en það ákvæði skerti á engan hátt rétt tollvarða til þátttöku í almennum kjarasamningum. Eðlilegra hefði verið í stað einhliða lagabreytinga að viðræður um þær hefðu farið fram við gerð kjarasamninga. Frv. miðar að breytingum á ákvæðum sem gengið var út frá við undirritun ráðningarsamninga félagsmanna. Benda má á að þetta er gert einhliða á miðju samningstímabili.``

Nú er mér kunnugt um að tollverðir hafa verið að þrýsta á um það að sjálfsögðu að þeir verði ekki sviptir samningsrétti. Hins vegar ítreka ég að hið sama gildir að sjálfsögðu um þá sem eru í því félagi og starfsmenn Stjórnarráðsins, Fangelsismálastofnunar og annarra stofnana, t.d. sýslumannsembætta þar sem er starfandi fólk sem á að skilgreina sem embættismenn. Þar vitum við ekki hvernig línurnar liggja, fólk veit það ekki. Þar er allt komið undir þessu duttlungaveldi.

Starfsmannafélag ríkisstofnana segir að það sé í hæsta máta óeðlilegt að Alþingi geri einhliða breytingar á þeim lögum sem kjarasamningar starfsmanna ríkisins m.a. byggja á. Félagið krefst þess að raunverulegt samráð verði við opinbera starfsmenn og að leitað verði eftir víðtæku samkomulagi við samtök þeirra er undir lögin heyra.

Félag ísl. leikskólakennara segir m.a., með leyfi forseta: ,,Það er álit Félags ísl. leikskólakennara að óeðlilegt og \mbox{óásættanlegt} sé að Alþingi geri einhliða breytingar á lögum um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna. Lögin um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins hafa m.a. mótað það umhverfi sem kjarasamningar hafa verið gerðir í. Þar af leiðandi eru þau ein forsenda kjarasamninga, enda iðulega vísað til þeirra við samningaborð.

Póstmannafélagið er með svipaða afstöðu og aðrir og vísar í umsögn BSRB um frv. Stjórn kjaradeildar Félags ísl. félagsvísindamanna hefur borist ósk um að veita umsögn um frv. og lýsir yfir fullum stuðningi í sínu áliti við ályktanir sem BHMR, BSRB og KÍ hafa sent frá sér varðandi frv. Félag ísl. símamanna krefst þess eindregið að frumvörpin verði dregin til baka. Samskiptareglur á vinnumarkaðnum verða ekki bættar með lögþvingunum. Félag flugmálastarfsmanna ríkisins fer fram á að frv. verði dregið til baka og vísar til umsagnar Bandalags starfsmanna ríkis og bæja um frv. Starfsmannafélag sjónvarpsins mælist eindregið til þess að frv. verði dregið til baka. Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar. Stjórn þess krefst að frv. verði dregið til baka. Það segir hér í álitsgerð Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar, með leyfi forseta:

,,Það er í hæsta máta óeðlilegt að Alþingi geri einhliða breytingar á þeim lögum sem kjarasamningar starfsmanna ríkisins byggja á.``

Félag opinberra starfsmanna á Vestfjörðum krefst þess að frv. þetta verði dregið til baka. ,,Stjórn félagsins telur fráleitt að hægt sé að svipta fólk lögbundnum réttindum sem orðið hafa til í tengslum við kjarasamninga því svo sannarlega eru ákvæði núverandi laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins hluti af samningsbundnum kjörum samninga ríkisstarfsmanna.``

Starfsmannafélag Húsavíkur hafnar alfarið hjálögðu frv. og krefst þess að ríkisstjórnin dragi það til baka. ,,Starfsmannafélagið telur eðlilegt, séu aðilar sammála um að gera breytingar á gildandi lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, að þær verði gerðar í komandi kjaraviðræðum.``

Þetta er tónninn í þeim félögum sem hafa ályktað um þessi mál og hann er allur á þann veg að frv. og frumvörpin verði þegar í stað og undanbragðalaust dregin til baka, að þau verði ekki samþykkt. Reyndar hafa fjölmörg önnur félög ályktað um þessi efni og sum félögin hafa sent frá sér mjög ítarlegar skýrslur þar sem farið er rækilega yfir frumvörpin bæði í heild sinni, vinnubrögðin, aðdragandann og síðan er farið rækilega yfir einstakar greinar frumvarpanna. Og ég vona svo sannarlega að ríkisstjórnin láti kalla frv. að nýju inn til þingnefndar, efh.- og viðskn. þar sem gerðar verði þær breytingar sem duga á þessu frv. En það verður ekki gert í andateppustílnum hér á fáeinum vordögum. Þá verður það ekki samráð samkvæmt þeim vinnubrögðum sem hér hafa verið höfð í frammi.

Ég nefndi að mörg félaganna hafa sett fram athugasemdir sem er mjög mikilvægt að menn gaumgæfi og íhugi. T.d. spurningin um fæðingarorlofið og veikindaréttinn, réttindi sem gleymdust í fyrstu próförk en fóru síðan inn í bráðabirgðaákvæði. Þar hefur t.d. Félag ísl. hjúkrunarfræðinga vakið máls á ýmsu sem mér finnst þarft að hugleiða. Þar sem fjallað er um veikinda- og barnsburðarleyfi, 12. gr., segir orðrétt, með leyfi forseta, í þessari álitsgerð Félags ísl. hjúkrunarfræðinga:

,,Í þessari grein er gert ráð fyrir því að sömu lagaákvæði muni gilda um veikindarétt og barnsburðarleyfisrétt ríkisstarfsmanna og annarra starfsmanna á almennum vinnumarkaði. Í ákvæði til bráðabirgða er gert ráð fyrir því að þeir ríkisstarfsmenn sem falla undir núgildandi lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins muni halda rétti sínum til launa í veikindum og barnsburðarleyfi samkvæmt reglugerð þangað til um annað hefur verið samið, væntanlega í kjarasamningum. Á vegum heilbr.- og trmrh. er nefnd að störfum sem á að semja frv. um laun í fæðingarorlofi. Hugmyndin er sú að allir hafi sama rétt til launa í fæðingarorlofi, hvort sem þeir starfi hjá hinu opinbera eða á almennum vinnumarkaði. Fjmrh. hefur auk þess lýst því yfir að ekki komi til greina að auka útgjöld hins opinbera til þessa málaflokks. Hingað til hefur lögbundinn réttur kvenna í þjónustu ríkisins til launa í barnsburðarleyfi verið mun verðmætari en réttur kvenna sem starfa á almennum vinnumarkaði. Af framansögðu má því draga þá ályktun að stefna ríkisstjórnarinnar sé sú að skerða rétt kvenna sem starfa hjá ríkinu til launa í barnsburðarleyfi. Ef þetta reynist rétt er hér um alvarlega aðför að réttindum kvenna í ríkisþjónustu að ræða og það munu hjúkrunarfræðingar aldrei sætta sig við. Félag ísl. hjúkrunarfræðinga leggur áherslu á að nauðsynlegt er að tryggja öllum foreldrum óskert laun í fæðingarorlofi til að tryggja jafna stöðu karla og kvenna á vinnumarkaði.

Laun í veikindum og barnsburðarleyfi eru hluti af kjörum starfsmanna og að mörgu leyti er ekki óeðlilegt að stéttarfélög semji um þessi atriði í kjarasamningi. Þetta gefur þó tilefni til hugleiðinga um aðra fleti á þessu máli. Það að barnsburðar- og veikindaréttur ráðist í kjarasamningum einstakra stéttarfélaga getur verið varasamt út frá markmiðinu að jafna kjör karla og kvenna. Barnsburðarleyfisréttur getur t.d. verið mjög misjafnlega verðlagður eftir því hvaða stéttarfélag á í hlut. Það kunna að skapast þær aðstæður að starfsgreinafélög sem að mestu leyti eru skipuð karlmönnum sjái sér hag í því að selja barnsburðarleyfisrétt sinna félagsmanna fyrir meiri launahækkanir. Þetta getur síðan haft þær afleiðingar að konur sæki síður í þessar starfsgreinar og því getur þetta hjálpað til við að viðhalda skiptingu vinnumarkaðarins í dæmigerð kvenna- og karlastörf.

Það er einnig mjög vandasamt verkefni að gera reglur um barnsburðarleyfi þannig úr garði að þær inniberi ekki beina eða óbeina mismunun milli kynja. Veikindaréttur getur einnig verið misjafnlega verðmætur eftir því hvaða starfsgrein á í hlut. Það er skoðun Félags ísl. hjúkrunarfræðinga að löggjafinn eigi að tryggja öllu launafólki viðunandi veikinda- og barnsburðarleyfisrétt. Þetta á að vera hluti af því öryggisneti sem nauðsynlegt er að launþegar búi við.``

Þetta var úr greinargerð frá Félagi hjúkrunarfræðinga þar sem vakin er athygli á því hvað kunni að gerast, afleiðingum þess, að setja þessi réttindi, þar með fæðingarorlofið sem áður var tryggt fyrir alla, inn í bráðabirgðaákvæði og síðan inn í einstaka samninga. Ég ætla ekki að kveða upp úr um hvað kann að vera endanlega rétt í þessum efnum. Mér finnst eðlilegt að þegar til framtíðar horfir verði þessi réttindi samræmd fyrir allt launafólk á Íslandi, fyrir alla landsmenn. Það finnst mér eðlilegt. En það verður ekkert niður á við, ekki með því að hafa réttindi af því fólki sem hefur þau skást. Það á að bæta þau, ekki draga úr þeim. Og hér er verið að lýsa því yfir að það kunni að skapast sú hætta hjá fólki sem er óánægt með launakjör sín, ef það á að fara að versla með þessa þætti. Þá er sérstaklega vakin athygli á ólíkum viðhorfum sem kunni að vera uppi á meðal karla og kvenna. Ég vona að svo sé ekki en þarna er bent á ákveðna hættu sem þessu kann að fylgja. Þetta var úr álitsgerð frá hjúkrunarfræðingum.

Félag háskólakennara segir, með leyfi forseta: ,,Almennur fundur í Félagi háskólakennara, haldinn 26. mars 1996, krefst þess að ríkisstjórnin dragi þegar í stað til baka frumvörpin um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna og stéttarfélög og vinnudeilur sem fela í sér mikla skerðingu á réttindum opinberra starfsmanna. Kjarasamningar opinberra starfsmanna hafa um langan tíma tekið mið af þessum réttindum og væri það því ígildi uppsagnar á kjarasamningi af hálfu ríkisins ef frumvörpin ná fram að ganga. Fundurinn mótmælir harðlega vinnubrögðum ríkisstjórnarinnar og þeirri lítilsvirðingu sem starfsmönnum ríkisins er sýnd með frumvörpunum.``

Það eru fleiri álit og álitsgerðir sem hafa komið frá stéttarfélögunum og ástæða til þess að fara betur yfir þær álitsgerðir. Ég vona að aðrir hv. þingmenn muni gera það þegar þeir taka þessi mál til umræðu. Við erum öll svo ljónheppin að það mun hverjum þingmanni heimilt að tala tvisvar í 2. umr. um þetta mál og ég mun að sjálfsögðu nýta mér þann rétt. En áður en þessari umræðu lýkur held ég að það væri fróðlegt að fá hæstv. fjmrh. til að gerast svo lítillátur að koma hingað í salinn og hlusta á þessa umræðu. Það verður að sjálfsögðu fróðlegt að heyra andsvör hans á eftir eða málflutning í þeirri ræðu sem hann mun flytja um þetta frv. og um þessasr lagabreytingar. En það sem mig langar sérstaklega til að hæstv. fjmrh. fræði okkur um núna er hvaða réttindi það eru sem opinberir starfsmenn búa við sem hafa verið metin til fjár. Ég heyrði ekki betur við umræðu í fyrrakvöld en að hæstv. fjmrh. segði að biðlaunaréttur og æviráðning hefði aldrei verið metin til fjár, þessi réttindi hefðu aldrei verið metin til fjár. Nú vildi ég gjarnan fá að heyra skilgreiningar hæstv. fjmrh.

Hvaða réttindi eru það sem eru metin til fjár og hver ekki? Hver hefur skilgreint hlutina með þessum hætti? Er það samninganefnd ríkisins? Eru það samtök launafólks, einhver tiltekin félög þar? Eru til einhverjir samningar, segir einhvers staðar um þetta í reglugerð? Síðan ætla ég að leyfa mér að frábiðja útúrsnúninga þess efnis að það sem hafi verið sett í lög einhvern tíma fyrr á tíð komi samningum ekkert við núna, jafnvel þótt skírskotað sé til þess í ráðningarsamningnum. Ég segi að það sé útúrsnúningur vegna þess að kjörin eru heilstæður pakki fyrir hvern einstakling. Og þegar samið er um laun er samið um þau á þeim grunni sem lagður hefur verið með lögum og reglugerðum. Ef þeim grunni er á einhvern hátt raskað er kjörum einstaklingsins þar með raskað og þar með samningsbundnum kjörum. Þannig lítum við á málin. Þannig líta samtök launafólks á málin og þannig líta menn almennt á þessi mál.

Ríkisstjórnin og talsmenn hennar hafa hins vegar verið að reyna að snúa út úr þessu með alls kyns orðhengilshætti og vilja láta líta svo út að um þessi mál sem verið er að hreyfa nú hafi ekki verið samið í kjarasamningum.

Ég ætla þá, hæstv. forseti, að ljúka máli mínu að sinni vegna þess að þetta á allt saman eftir að fá miklu betri og ítarlegri umræðu. Ég vona að ríkisstjórnin beri gæfu til þess að taka þær ábendingar sem fram hafa komið frá samtökum launafólks alvarlega á þann veg að frv. verði dregið til baka, það verði boðað til viðræðna, raunverulegs samráðs og viðræðna sem fram fari í sumar og í haust og þess freistað að ná sátt um þær breytingar sem báðir aðilar eru sammála um að þurfi að gera á þessum lögum. Hitt er náttúrlega ekki verið að bjóða upp á að menn ætli að fara að sættast á skerðingar og einhliða yfirgang eða menn fari að sættast á að hér verði komið á samningum þar sem persónusamningar verði reglan og þar sem duttlungastjórnun verði líka grunnregla. En ef hæstv. fjmrh. kemur í andsvar eða tekur þátt í umræðunni síðar í dag ætlast ég til þess að fá skýrar yfirlýsingar og útlistanir hæstv. fjmrh. á þeim reglum sem hann hyggst setja varðandi 9. gr. frv. þar sem kveðið er á um launasamninga í stofnunum hins opinbera. Þar frábiðja menn sér alla útúrsnúninga. Menn vilja fá það vafningalaust hverjar þessar reglur eru. Nákvæmlega hverjar eru þessar reglur? Og finnst hæstv. fjmrh. boðlegt að koma fram með frv. af þessari stærðargráðu sem sætir eins mikilli gagnrýni og raun ber vitni án þess að allar upplýsingar liggi fyrir? Þar eru veigamestu upplýsingarnar um þær reglur sem ráðuneytið eða ríkisstjórnin hyggst setja varðandi samningsgerð inni í einstökum stofnunum.

Hæstv. forseti. Ég ætla þá að ljúka fyrri ræðu minni í þessari umferð svo aðrir þingmenn geti komist að. En ég vonast eftir greinargóðum svörum frá hæstv. fjmrh. og hv. þm. Vilhjálmi Egilssyni sem talaði fyrir þessu frv.