Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Fimmtudaginn 09. maí 1996, kl. 15:51:15 (5855)

1996-05-09 15:51:15# 120. lþ. 134.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur

[15:51]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Virðulegi forseti. Við erum á öðrum degi að ræða þetta mál og mér sýnist að umræða sé rétt að byrja miðað við þann fjölda sem hér er á mælendaskrá enda er það ekki skrýtið þar sem við erum að ræða umdeildasta mál þingsins, bæði fyrir vinnubrögð og efnisinnihald. Það er ljóst að hér er á ferðinni ein grófasta árás og atlaga sem við höfum séð í langan tíma að verkalýðshreyfingunni, bæði að samskiptareglum á vinnumarkaði og að réttindum og kjörum fólks. Það er athyglisvert og ég hef tekið eftir því af því að ég hef setið mestan part undir þessari umræðu, að ráðherrarnir sem leggja þetta mál fram í þinginu, sjást ekki við þessa umræðu nema þá hæstv. fjmrh. af því að hann er neyddur til þess að vera hér. Það er líka athyglisvert við þessa umræðu sem ég hef tekið eftir að Framsfl., hjúin í þessari ríkisstjórn, sjást ekki. Það er aðeins þegar hv. þm. Guðni Ágústsson framsóknarmaður þarf stundum að sinna störfum í forsetastól, að hann læðist inn í þingsalinn. En hann er líka fljótur út aftur þgar þeim störfum er lokið, enda er alveg ljóst að Framsfl. skammast sín fyrir þetta frv. þó að það sé ljóst af umræðum sem hér hafa farið fram að hæstv. fjmrh. gerir það greinilega ekki. Það er líka athyglisvert varðandi hæstv. fjmrh., að þegar verið er að ræða af mikilli alvöru um alvarlega skerðingu á réttindum opinberra starfsmanna, þá situr hann iðulega glottandi undir þeirri umræðu. Eina skiptið sem hæstv. ráðherra fer úr jafnvægi er þegar verið er að tala um það aftur og aftur að hæstv. ráðherra hafi ekki haft neitt samráð við opinbera starfsmenn. Þá verður hæstv. ráðherra mjög órólegur því að auðvitað veit hann að hann hefur ekki haft neitt eðlilegt samráð við opinbera starfsmenn. Og sannleikanum verður hver sárreiðastur. Þetta er athyglisvert við þessa umræðu.

Ég ætla að byrja á vinnubrögðunum. Ég veit að það kemur ráðherranum úr jafnvægi en það verður að hafa það. Ég spyr hvort hæstv. ráðherra geri sér grein fyrir því að hann er að þverbrjóta lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna með því að hafa ekkert samráð við opinbera starfsmenn um þetta mál. Ég veit ekki hvort 36. gr. hefur farið fram hjá honum. Það er eina greinin sem hann hefur greinilega ekki lesið þegar hann var að fara yfir allt þetta frv. og breyta öllum réttindum og skyldum opinberra starfsmanna þvers og kruss í þessum lögum. Þá hefur hann ekki lesið 36. gr. En þar segir svo, með leyfi forseta:

,,Við samning reglugerða samkvæmt lögum þessum svo og við endurskoðun þeirra skal jafnan gefa Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja kost á að fylgjast með og fjalla fyrir hönd félaga sinna um ágreiningsatriði þau, sem upp kunna að koma.``

Þetta ákvæði laganna er þverbrotið. Það er alveg ljóst með hvaða hugarfari hæstv. ráðherra umgengst þessi mikilvægu lög um opinbera starfsmenn. Hæstv. ráðherra getur ekki komist upp með að neita því að lögin um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna eru hluti af samningsbundnum kjörum ríkisstarfsmanna sem hann er einhliða að breyta. Og það er náttúrlega ljóst að einhliða breyting á lögbundnum kjörum gengur ekki, en auðvitað byggja kjarasamningar á þeim og hafa gert til margra ára. Það er óumdeilt að ráðningarréttindi ríkisstarfsmanna eru bundin í lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Nei, hæstv. ráðherra sér enga ástæðu til þess að hafa samráð eða samvinnu um þessi mál við opinbera starfsmenn. Þvert á móti treður hann á þessum réttindum launafólks.

Hæstv. ráðherra getur heldur ekki neitað því, getur ekki komist upp með að neita því að þau réttindi sem hér er verið að taka af fólki á ósvífinn hátt, eru réttindi sem opinberir starfsmenn hafa gegnum árin verið að kaupa sér með lægri launakjörum, lífeyrisréttindi, starfsöryggi og fleira. Skyldi ráðherrann vita hvað opinberir starfsmenn hafa fórnað miklu í beinum launagreiðslum fyrir þessi réttindi?

Hver er svo tilgangurinn með þessu öllu saman? Af hverju er ráðherrann að þessu? Jú, jú, hann er að taka upp nýja starfsmannastefnu. En hvað skyldi vera falið á bak við þetta? Af hverju er verið að breyta þessu? Það mun auðvitað verða ítarlega rætt við þessa umræðu. Það skyldi þó ekki vera að það sé verið að taka þessi réttindi til baka af því að ráðherrann gerir sér vonir um að öll umræðan í næstu kjarasamningum hjá opinberum starfsmönnum þurfi að snúast um að ná þessum réttindum til baka þannig að opinberir starfsmenn geti ekki rætt eðlilega um kjarabætur. Auðvitað er tilgangurinn líka eins og við vitum að hæstv. ríkisstjórn er að opna farveg fyrir öll sín einkavinavæðingaráform. Fylgifiskar þessa frv. bíða eftir því að komast á dagskrá, eins og einkavæðing Pósts og síma og bankanna sem sennilega verður beðið með til haustsins þar til búið væri að ná fram þessum skerðingarákvæðum. Póstur og sími er mál út af fyrir sig sem við þurfum að taka sérstaka umræðu um í þinginu. Það á auðvitað að nýta þessi ákvæði sem ríkisstjórnin er að keyra í gegnum þingið til þess að skerða réttindi starfsmanna Pósts og síma, taka af þeim lögbundin réttindi og gera við þá ráðningarsamninga, kannski um lægri kjör. En það er nú ekki hægt að hafa þau lægri en þar.

Einkavæðing Pósts og síma er auðvitað á döfinni þó að þetta sé undir einhverju dulnefni um að það sé verið að breyta Pósti og síma í hlutafélag, að það sé verið að opna þetta til kaupa fyrir fjármagnseigendur í landinu. Mér kæmi ekki á óvart þó ekki innan allt of langs tíma væru Eimskip orðin einn af eigendum Pósts og síma.

Það er ljóst af þeim ályktunum, virðulegi forseti, sem hér hafa verið lesnar --- ég hef sjaldan séð þær fleiri í einu máli í þinginu --- að þessi vinnubrögð eru fordæmd og þessi réttindaskerðing, um allt land af öllum stéttarfélögum, bæði á opinbera markaðnum og almenna markaðnum. Það skyldi þó ekki vera tilviljun að það er aðeins einn aðili, Vinnuveitendasambandið, tvíburabróðir fjmrh., sem er sammála þessum skerðingum. Það er ósköp lítill munur á húsbóndavaldinu í fjmrn. og uppi í Vinnuveitendasambandi.

[16:00]

Eitt af markmiðum frv. er að ríkið eigi að verða fyrsta flokks vinnuveitandi. Hvað býr hér að baki? Ætlar hæstv. fjmrh. sem er einn stærsti atvinnuveitandinn í landinu að fara í eitthvert kapphlaup við Vinnuveitendasambandið með þessi nýju lög að vopni um hver sé duglegri að píska starfsfólkið áfram? Er það það sem býr að baki? Fjmrh. hefur auðvitað eitt fram yfir VSÍ, það er einn munur. Hann getur í krafti meiri hluta síns náð fram hugðarefnum sínum að skerða kjör og réttindi fólksins með lagasetningu á Alþingi og tekið einhliða ákvörðun um að breyta umsömdum réttindum en VSÍ þarf til þess atbeina ríkisstjórnarinnar og það virðist vera auðsótt þegar VSÍ leitar eftir því að skerða kjör og réttindi fólksins. Þessi nýsjálenska stefna er líka sameiginlegt áhugamál þessara tvíburabræðra í Garðastrætinu og uppi í Arnarhvoli. Það er alveg ljóst. Undir nafni einhvers sveigjanleika í kjörum og réttindum launafólks. En til hvers ætlar fjmrh. að nota þennan sveigjanleika? Er þetta ekki sveigjanleiki sem ráðherrann er að reyna að fá til þess að hægt sé að reka fólk eftir einhverri geðþóttaákvörðun? Sveigjanleiki í að borga þeim betur sem fjmrh. og forstöðumenn einstakra stofnana telja rétt að borga betur eftir einhverri geðþóttaákvörðun. Á mannamáli þýðir þessi sveigjanleiki ekkert annað en skerðing á réttindum og kjörum fólks og skerðing á bótum, sveigjanleiki í því að geta ráðið og rekið fólk o.s.frv.

Það er nokkuð sérkennilegt að við stöndum frammi fyrir því að það er búið að blóðsjúga velferðarkerfið og það verður ekki lengra gengið þar. Hvað er þá tekið til við þegar það verður ekki gengið lengra þar? Þá er farið að skerða réttindi og kjör fólksins. Það er einmitt þetta sem Framsfl. og Sjálfstfl. sameinast um þegar þeir komast í ríkisstjórn að þeir sjá ekkert lengra en skerða réttindi og kjör fólksins. Þar var markhópurinn við síðustu fjárlagagerð. Voru það fjármagnseigendur sem hæstv. fjmrh. var að reyna að ná peningum af til að reyna að minnka halla ríkissjóðs? Nei, aldeilis ekki. Markhópurinn var aldraðir. Það var á ósvífinn hátt og ég hef aldrei séð annað eins eins og við síðustu fjárlagagerð hvernig ráðist var að öldruðum í þjóðfélaginu með margvíslegum hætti og markhópurinn var sjúkir, fatlaðir og atvinnulausir og venjulegt launafólk með lágar og meðaltekjur. Nú þarf hæstv. fjmrh. að bíða næstu fjárlagagerðar fram á haustið og meðan nýtir hann tíma af því að hann getur ekki haft meira af þessum hópum í bili gegnum fjárlagagerðina að skerða réttindi og kjör fólksins.

Þetta eru vinnubrögðin, virðulegi forseti. Það er engin virðing fyrir samráði eða eðlilegum samskiptareglum við fólk. Það eru notuð vinnubrögð og samskipti við verkalýðshreyfinguna sem maður hélt, virðulegi forseti, að þekktist ekki í siðuðu samfélagi en ríkisstjórnin gerir þetta allt í krafti þess meiri hluta sem hún hefur á Alþingi. Það verður fróðlegt að sjá þegar hjúin koma til atkvæðagreiðslu, Framsfl., hvað mörg varadekk springa hjá ríkisstjórninni vegna þess að ég trúi því varla þótt Framsfl. sé ansi langt leiddur í þessu stjórnarsamstarfi að hver og einn einasti þingmaður Framsfl. ætli að greiða frv. atkvæði, þeirri ósvífni að ráðast svona á kjör og réttindi opinberra starfsmanna. Ég trúi því ekki fyrr en á reynir.

Það hafa borist mjög margar umsagnir við þetta frv. eins og fram hefur komið, virðulegi forseti, m.a. frá BSRB vitanlega, sem fer einmitt mjög ítarlega yfir það hversu ósiðlega ríkið ætlar að breyta forsendum í samningum. Ég ætla að leyfa mér að lesa nokkrar línur í því áliti. Það verður fróðlegt að vita hvort hæstv. ráðherra hafi kynnt sér þær mörgu umsagnir sem hér liggja fyrir. Ég leyfi mér að efa það. Honum er greinilega alveg sama hvað fólkið í landinu hefur að segja um þetta mál. Ráðherrarnir í ríkisstjórninni haga sér eins og einræðisherrar, og telja fyrir neðan sína virðingu að eiga eðlileg samskipti við fólk. En í áliti BSRB segir, með leyfi forseta:

,,Lögin um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og kjarasamninga ríkisstarfsmanna mynda eina kjaraheild. Kjarasamningar ríkisstarfsmanna eru gerðir í umhverfi laganna um réttindi og skyldur. Lögin eru þannig forsenda fyrir kjarasamningunum. Sem dæmi má nefna að í kjarasamningum ríkisstarfsmanna eru ekki ákvæði um uppsagnarfrest eða starfslok með öðrum hætti eins og er í kjarasamningum starfsmanna á almennum vinnumarkaði.`` Síðan segir: ,,Því hefur verið haldið fram að ákvæði laganna um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins sé ekki hluti af samningsbundnum kjörum ríkisstarfsmanna. Þetta er rangt. Dæmi eru um að einstök ákvæði laganna eigi uppruna sinn í kjarasamningum. Það sem skiptir þó meira máli er að í ráðningarsamningum langfletra ríkisstarfsmanna er svo um samið að um réttindi og skyldur launþegans fari eftir lögum um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna að svo miklu leyti sem öðruvísi er ekki um samið í ráðningarsamningnum.``

Síðan er farið yfir það, virðulegi forseti, hvernig ýmis réttindi eru háð ávinnslu en það er að þau ávinnist í áföngum en önnur eru áunnin og það er vitnað til þess, og það sýnir meðfram öðru að það er nauðsynlegt að hæstv. forsrh. sé við umræðuna, það er vitnað til þess að oddviti ríkisstjórnarinnar mun hafa heitið hluta ríkisstarfsmanna því að þeir héldu ávinnsluréttindum sínum við flutning á grunnskólanum frá ríki til sveitarfélaga. BSRB væntir þess að hið sama verði látið gilda fyrir félagsmenn BSRB við fyrirhugaðar breytingar á lögunum um réttindi og skyldur.

Virðulegi forseti. Mér finnst að hæstv. forsrh. skuldi opinberum starfsmönnum skýringu hvort hann hafi ekkert meint með því sem hann var að segja í þessu efni. Síðan er í umsögn BSRB vitnað til þess hvernig er verið að svipta stóran hóp félaga innan BSRB samnings- og verkfallsrétti. Það er kafli út af fyrir sig, virðulegi forseti, í þessu frv. en þar segir, með leyfi forseta:

,,Samkvæmt 39. gr. frv. skulu laun og önnur kjör embættismanna ákveðin af kjaranefnd.`` Mér þykir ekkert skrýtið þó hæstv. fjmrh. þurfi á fresti að halda við þessa umræðu en ég vildi gjarnan að hann hlustaði á mál mitt en væri ekki með annan fund. Ég held áfram, virðulegi forseti: ,,Af 22. gr. frv. virðist mega ráða að ýmsir félagsmenn stéttarfélaga innan BSRB sem nú hafa samningsrétt um kaup og kjör eigi framvegis að teljast til embættismanna og missa þannig allan rétt til samningsgerðar um kaup og kjör. Þetta virðist einkum eiga að ná til starfsmanna ráðuneyta og sýslumannsembætta, lögreglumanna, fangavarða, tollvarða o.fl. Frumvarpsgreinin snertir samningsrétt margra stéttarfélaga, þar á meðal Starfsmannafélags ríkisstofnana, Landssambands lögreglumanna, Félags starfsmanna Stjórnarráðs og Tollvarðafélags Íslands. Mjög óljóst er hverjir nákvæmlega eigi að heyra undir skilgreininguna ,,embættismaður.`` BSRB mótmælir því harðlega að svipta stóran hóp félagsmanna samningsrétti um kaup og kjör.``

Það er eðlilegt að BSRB álykti með þeim hætti. Ég held að það sé alveg ljóst að ýmis ákvæði þessa frv., m.a. þetta sem ég var að lesa og vitnaði til í umsögn BSRB, brjóta gegn alþjóðasamningum. Bæði 87. og 98. gr. samþykkta Alþjóðavinnumálastofnunarinnar og félagsmálasáttmála Evrópu. Það er auðvitað nauðsynlegt ekki síður en frv. um stéttarfélög og vinnudeilur að fengin verði álitsgerð um þetta frv. varðandi þessa þætti málsins. Ég get t.d. vitnað í bók um alþjóðlega mannréttindasáttmála þegar verið er að svipta stóran hóp opinberra starfsmanna samningsrétti, verkfallsrétti að það brýtur í bága við ákvæði félagsmálasáttmála Evrópu sem er 6. gr., 4. tölul. en þar segir svo, með leyfi forseta. Það er undir kaflafyrirsögninni Réttur til að semja sameiginlega:

,,Í því skyni að tryggja að réttur til að semja sameiginlega verði raunverulega nýttur skuldbinda samningsaðilar sig til`` og auðvitað fer hæstv. fjmrh. út þegar ég er að ræða um alþjóðasamninga: ,,Rétt verkafólks og vinnuveitenda á sameiginlegum aðgerðum þegar hagsmunaárekstrar verða, þar á meðal verkfallsrétti með þeim takmörkunum sem til kynnu að koma vegna gerðra heildarsamninga.``

Mér sýnist nokkuð ljóst að það þurfi að skoða þetta ákvæði í ljósi þessa ákvæðis í alþjóðasamningi. Rétt verkafólks og vinnuveitenda á sameiginlegum aðgerðum þegar hagsmunaárekstrar verða, þar á meðal verkfallsrétti með þeim takmörkunum sem til kynnu að koma vegna gerðra heildarsamninga.

Hv. efh.- og viðskn. hefur fengið mjög athyglisverða umsögn sem ég held að hv. þingmenn ættu allir að lesa vegna þess að hún tekur mjög ítarlega og faglega á þessu máli. Það er umsögn Félags ísl. hjúkrunarfræðinga. Það er nokkuð athyglisvert að undir hana ritar m.a. Ásta Möller, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, og eftir því sem ég best veit er hún einn af varaþingmönnum Sjálfstfl. Það hefði verið full ástæða til þess að hæstv. fjmrh. hefði leitað í smiðju til þessarar konu og til þess að kynna sér hvað hann er raunverulega að gera og hvernig hann er að brjóta á opinberum starfsmönnum. En í umsögn hjúkrunarfræðinga um að svipta starfsmenn samnings- og verkfallsrétti segir:

,,Í þessu frv. er ráðherrum gefið mikið svigrúm og aukið vald til að taka ákvörðun um hvaða stöður falla utan samningsumboðs stéttarfélaga. Í 1.--9. tölul. 1. mgr. 22. gr. frv. eru talin upp ákveðin starfsheiti og einnig starfsmenn ákveðinna stofnana. Í 10. tölul. 1. mgr. er síðan bætt við þeim sem skipaðir eru í störf af forseta Íslands samkvæmt öðrum lögum svo og þeir er gegna störfum er öldungis verður jafnað til embætta þeirra manna sem getið er í 1.--9. tölul. Í skýringum með 22. gr. frv. kemur fram að ekki sé ætlunin að allir starfsmenn þeirra stofnana sem taldir eru upp í greininni verði embættismenn í skilningi laganna, heldur aðeins þeir sem skipaðir eru í embætti skv. 23. gr. Í 23. gr. frv. er hins vegar ekkert sem takmarkar frekar vald ráðherra til að skipa menn í stöðu.

Af þessu má sjá að vald ráðherra til að ákveða að starfsheiti falli utan samningsumboðs stéttarfélags er mjög mikið. Ráðherra á t.d. að ákveða hverjir það eru sem gegna störfum sem öldungis verður jafnað til embætta þeirra manna sem getið er í 1.--9. tölulið.``

Þetta er mjög sérstakt ákvæði. Ráðherra á að ákveða það hvaða starfsheiti innan þeirra stofnana sem taldar eru upp í 1.--9. tölul. verði skipaðir embættismenn. Eins og fram kom í umsögn félagsins um 1. gr. þessa frv. þá getur félagið fallist á að það er nauðsynlegt að ákveðnir ríkisstarfsmenn njóti meiri ráðningarfestu en aðrir vegna eðlis starfa síns. Félagið telur það hins vegar vera fráleitt að ráðherrar og jafnvel forstöðumenn, sbr. umsögn með 5. gr. frv., hafi möguleika á að taka ákvörðun um það að svipta stóran hluta starfsmanna samnings- og verkfallsrétti eins og gert er ráð fyrir í frv. Þar er ályktað að það stangist auk þess á í 4. mgr. 6. gr. félagsmálasáttmála Evrópu sem ég var að lesa áðan og full ástæða er til að fá Lagastofnun til að skoða og einnig ákvæði 87. og 98. gr. samþykkta Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. Ég er sannfærð um að verði látið á þessi ákvæði reyna, verði frv. að lögum óbreytt að þessu leyti, að niðurstaðan verði að það sé verið að brjóta þessar alþjóðasamþykktir. Það er í hverju málinu á fætur öðru, sem kemur frá þessari hæstv. ríkisstjórn, verið er að brjóta alþjóðasáttmála. Þessir menn bera ekki virðingu fyrir neinu, ekki launþegum, opinberum starfsmönnum, starfsfólki almenna vinnumarkaðarins, alþjóðasamþykktum sem gerðar eru í þinginu. Það er ekki borin virðing fyrir einu eða neinu.

Svo er alveg ljóst þegar maður les þetta frv. sem hefur það að markmmiði að samræma kjör og réttindi á almennum vinnumarkaði hjá hinu opinbera að það er hægt að taka ákvæði eftir ákvæði í þessu frv. og það sýnir sig að sum ákvæðin ganga í þveröfuga átt við það markmið. Það er verið að setja ákvæði um geðþóttaákvarðanir um að ráðherra eða forstöðumenn geti tekið einfalda ákvörðun um að svipta menn samnings- eða verkfallsrétti. Það er alrangt sem fram kemur í athugasemdum frv. að nú hafi flestir ríkisstarfsmenn fengið samnings- og verkfallsrétt og því sé ekki ástæða til þess að félagsmenn í samtökum opinberra starfsmanna njóti annarrar réttarstöðu en félagsmenn innan vébanda ASÍ. Það sem er alveg ljóst, virðulegi forseti, er að hæstv. fjmrh. samræmir bara það sem honum hentar við almenna vinnumarkaðinn, bara það sem honum hentar, samræmir hann við almenna vinnumarkaðinn og þá er það allt sem lýtur að skerðingu. Það samræmir hann við almenna vinnumarkaðinn en lætur annað eiga sig. Þegar um er að ræða betri réttindi á almenna vinnumarkaðinum er óþarfi að samræma. Þannig eru vinnubrögðin. Það þarf engan að undra þó að þessar umræður séu rétt að byrja, virðulegi forseti, því að þversögnin er mjög mikil í þessari nýju starfsmannastefnu ríkisstjórnarinnar.

Maður furðar sig raunverulega á því hvert ríkisstjórnin er eiginlega að fara og síðan undrast fjmrh. reiði opinberra starfsmanna.

Það má auðvitað nefna fleira í þessu sambandi. Í núgildandi lögum er starfsmanni skylt að hlíta breytingum lögum samkvæmt á störfum hans og verkahring á því er hann tók við starfi enda hafi breytingin ekki áhrif til skerðingar á launakjörum hans eða réttindum. Sama er um breytingar er yfirmaður ákveður en þeirri ákvörðun má skjóta til ráðherra. Síðan er sérstaklega tekið fram að breytingar á störfum mega ekki hafa áhrif til skerðingar á launakjörum eða réttindum og ákvörðunum yfirmanna sem þeir geta skotið til ráðherra. Þetta ákvæði hefur verið túlkað þannig m.a. með vísan til ákvæða í almennum vinnurétti að starfsmenn ríkisins eigi ekki að sæta meiri röskun á högum sínum en viðkomandi gat búist við þegar hann réði sig til starfans. Samkvæmt 19. gr. verður starfsmaður nú að sæta því að starfi hans og launakjörum er breytt og eina ráðið sem hann hefur er að segja upp starfi sínu og það sem er athyglisvert, segja upp starfi sínu og jafnvel þiggja lægri laun hluta af uppsagnarfresti. Ósvífni hæstv. ríkisstjórnar gengur svo langt, virðulegi forseti, að hann þarf jafnvel að þiggja lægri laun hluta af uppsagnarfrestinum því ef hann gerir þetta getur hann misst eins mánaðar laun og vinnur einn mánuð á lægri kjörum en hann samdi um í upphafi. Þannig getur framkvæmin orðið á þessu.

[16:15]

Um þetta segir t.d. í umsögn Félags ísl. hjúkrunarfræðinga: ,,Í núgildandi lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins er í 33. gr. ákvæði um það að starfsmanni sé skylt að hlíta breytingum lögum samkvæmt á störfum hans og verkahring frá því er hann tók við starfi, enda hafa breytingar ekki áhrif til skerðingar á launakjörum hans eða réttindum.``

Þessu er núna verið að breyta, virðulegi forseti. Þarna er gróflega vikið frá þeim markmiðum í þessari blessaðri starfsmannastefnu ríkisins um að samræma réttindi á almennum markaði og hjá hinu opinbera.

Einnig má nefna rétt til að flytja hóp embættismanna á milli embætta. Þannig er hægt að krefja þá um að breyta högum sínum á starfsvettvangi fyrirvaralítið. Ákvæði 36. gr. felur það í sér eins og það er orðað að hægt er að flytja mann úr einu embætti í annað, bara sisvona. Það mætti halda að þeir væru að tala um skepnuhald en ekki mannahald í þessari starfsmannastefnu. Það er eins og menn séu að fjalla um þræla sem megi fara með að vild en ekki manneskjur sem eiga kröfu á því að hafðar séu við þær eðlilegar samskiptareglur og mannréttindi þeirra virt, jafnvel þó hæstv. fjmrh. eigi í hlut. Það er einnig óþolandi valdníðsla og brot á mannréttindum fólks að kveðið er á um vald til að framlengja uppsagnarfrest í allt að sex mánuði ef margir leita lausna samtímis. Þetta er frekleg íhlutun í ákvörðun fólks um að ráða sjálf hverjum það selur starfskrafta sína. Auðvitað er ekkert slíkt ákvæði að finna á almennum vinnumarkaði. Sama hvar litið er í þessu frv. Alls staðar er gengið á rétt fólks. Það sem er íþyngjandi umfram almennan vinnumarkað er annaðhvort haldið áfram í lögunum eða bætt við íþyngjandi ákvæði, en þau réttindi sem opinberir starfsmenn hafa haft umfram almenna vinnumarkaðinn og þeir hafa keypt með lægri launum skulu af þeim tekin. Þetta er boðskapurinn og ein af þversögnunum í þessu frv.

Ríkisstjórnin hefur sjálfsagt ekkert hugsað um afleiðingarnar og er sjálfsagt alveg sama. Hún telur sig geta komist upp með hvað sem vera skal gagnvart launafólki í landinu. Hefur hún virkilega engar áhyggjur af því hvaða afleiðingar þetta muni hafa þegar dregur nær kjarasamningum á þessu ári? Er tilgangurinn sá að kraftar verkalýðshreyfingarinnar eigi að fara í að ná til baka þeim réttindum sem ríkisstjórnin er nú að hrifsa af launafólki þannig að verkalýðshreyfingin verði upptekin við það og komi ekki fram með neinar launakröfur? Nei, ég er svei mér hrædd um að ríkisstjórnin sleppi ekki svo billega. Fólk um allt land er reitt vegna þessarar valdníðslu og ósvífni ríkisstjórnarinnar.

Það sorglega við þetta allt saman og raunverulega þyngra en tárum taki er að þegar við sjáum loksins rofa til í þjóðfélaginu, sjáum einhvern efnahagsbata, vitum við að hann gengur ekki til launafólks sem þó hefur borið hitann og þungann af því að rétta við atvinnulífið og halda uppi stöðugleikanum á undanförnum árum. Launafólk hefur orðið að taka á sig margra milljarða skattbyrði af atvinnulífinu til að treysta atvinnuna í landinu, launafólk hefur mátt búa við það að aftur og aftur er ráðist að velferðarkerfi þjóðarinnar og kjörum þeirra sem eru síst aflögufærir. Launafólk hefur mátt þola engar eða litlar launahækkanir í mörg ár, allt í nafni stöðugleikans í landinu. Svona er verið að verðlauna fólk fyrir að hafa treyst stöðugleikann í landinu með því að herða sultarólina og fá engar launahækkanir svo árum skiptir. Þetta er þakklætið. Verðlaunin eru að það er ráðist að samskiptareglum, réttindum og kjörum fólks með þessum lögum, en samkvæmt ákvæðum núgildandi laga er skylt að hafa samráð við verkalýðshreyfinguna og opinbera starfsmenn ef einhverjar breytingar á að gera á slíku. Þetta er svo fullkomin ósvífni að manni verður eiginlega orða vant, hæstv. ráðherra.

Nú stefnir ríkisstjórnin sjálf þessum stöðugleika í hættu með ótrúlegri óbilgirni og þrælslegum vinnubrögðum í garð launafólks og verkalýðshreyfingarinnar. Og fulltrúi Verslunarráðsins situr og hlær alveg eins og fjmrh. Hann er að vinna verk fyrir Verslunarráðið, er það ekki? Það er ekki hlæjandi að þessu, hv. þm. Vilhjálmur Egilsson, það er ekki hlæjandi að þessu. Það er alvörumál þegar verið er að svipta fólk réttindum sem það hefur áunnið sér með því að fá minni laun en gerist og gengur á almennum markaði. Það er ljóst að starfsumhverfi opinberra starfsmanna og starfsfólk á almennum vinnumarkaði er í miklu uppnámi sem getur leitt til stríðsástands á vinnumarkaðnum sem enginn veit hvar endar. Af hverju var ekki hægt að hafa eðlileg vinnubrögð og samskipti við opinbera starfsmenn í þessu máli?

Það er a.m.k. ljóst að þessi vinnubrögð munu stefna þeirri þjóðarsátt sem ríkt hefur á liðnum árum í hættu. Auðvitað er ástæðan, eins og hefur komið fram, stórfelld einkavæðingaráform af hálfu ríkisstjórnarinnar. Það þurfti auðvitað að skerða biðlaunarétt fólksins til þess að knýja það í gegn og nýir starfsmenn fá engin biðlaun. En af hverju var þá ekki hægt að taka það ákvæði eitt og sér inn í þingið og láta annað eiga sig í stað þess að rúlla með fullkominni óbilgirni yfir hvert réttindamálið á fætur öðru sem launafólk hefur háð harða baráttu fyrir og kostað hafa miklar fórnir í launamálum í gegnum árin?

Það er alveg rétt sem stendur í áliti minni hluta efh.- og viðskn. sem Ágúst Einarsson mælti fyrir á fyrsta degi þegar við ræddum um þetta mál. Með þessu frv. er brotið gegn eðlilegum samræðuvettvangi sem undirbúningi fyrir lagasmíð, gripið einhliða í kjarasamninga og vegið að rótum skipulags stéttarfélaga á opinberum markaði. Það er verið að skipta opinberum starfsmönnum í flokka, úrvalsflokk einhverra forstöðumanna sem öllu eiga að ráða og fá svigrúm til þess að taka geðþóttaákvarðanir og ákveða einhverjar launauppbætur til einhverra útvaldra sem þeim eru þóknanlegir. Síðan eru aðrir flokkar, annar flokkur sem gæti verið flokkur almenns opinbers starfsmanns sem hefur bæði verkfalls- og samningsrétt og síðan þriðji flokkur sem hefur hvorki verkfalls- né samningsrétt.

Það hefur nokkuð verið rætt um biðlaunaréttinn. Biðlaun eru skert í frv. og biðlaunaréttur felldur niður hjá nýjum starfsmönnum. Þrátt fyrir þessi ummæli hæstv. forsrh. sem ég vitnaði í áðan er rétturinn verulega skertur. En í ákvæði til bráðabirgða er gert ráð fyrir að ríkisstarfsmenn sem eru í starfi í dag haldi biðlaunarétti sem er þó aðeins brot af þeim rétti sem þeir hafa. Samkvæmt núgildandi lögum á ríkisstarfsmaður sem starfað hefur í 15 ár eða skemur hjá ríkinu rétt á biðlaunum í sex mánuði ef staða hans er lögð niður en hafi hann starfað í yfir 15 ár hjá ríkinu á hann rétt á biðlaunum í 12 mánuði ef staða hans er lögð niður. Nú á að breyta þessu og viðkomandi á rétt til bóta er nemur föstum launum í þrjá mánuði ef hann hefur verið í þjónustu ríkisins skemur en í 15 ár en ella sex mánuði. Þannig að hjá núverandi starfsmönnum ríkisins er verið að skera niður þessi réttindi um helming en fella þau niður hjá opinberum starfsmönnum sem ráðnir eru eftir gildistöku laganna.

Það er alveg ljóst, hverju sem hæstv. ráðherra annars heldur fram, að opinberir starfsmenn hafa litið á biðlaun sem bætur fyrir að réttindaáhersla hjá ríkinu rofnar þegar staða starfsmanna er lögð niður. Biðlaun falla niður ef starfsmanni er boðið sambærilegt starf hjá ríkinu þar sem hann nýtur þá sambærilegra réttinda. Í 14. gr. gildandi laga er starfsmönnum einnig tryggður forgangur að sömu eða sambærilegri stöðu ef hún losnar innan næstu fimm ára sem nú á einnig að breyta þannig að ekki verður um að ræða forgang að sama eða sambærilegu starfi hjá ríkinu. Hér er verið að raska áunnum réttindum án bóta sem hlýtur að varða við stjórnarskrá, hvorki meira né minna. Á þetta hefur margsinnis verið bent í umræðunum. En hæstv. ráðherra hlustar ekki á það frekar en annað.

Þetta er sennilega forsmekkurinn að því sem koma skal að skerða lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna án bóta eða samsvarandi launahækkana. Ég yrði ekki hissa þótt ríkisstjórnin ætli að taka þessar árásir sínar, þessar atlögur í nokkrum áföngum. Og það næsta sem opinberir starfsmenn þurfa að fara að berjast gegn er að tekin verði af þeim lífeyrisréttindin, kannski án bóta eða launahækkana. Það væri a.m.k. líkt hæstv. ríkisstjórn að gera það.

[16:30]

Það hefur nokkuð verið fjallað um æviráðninguna. Það er ljóst að fjölmargir starfsmenn ríkisins hafa sætt sig við lægri laun vegna þess að ekki hefur verið gagnkvæmur uppsagnarfrestur heldur æviráðning. Þetta hefur flokkast undir það sem menn kalla starfsöryggi. Þessi réttur er einhliða afnuminn hjá nýjum starfsmönnum og þeim ekki gefinn kostur á að sætta sig við gagnkvæman uppsagnarfrest eða takmarkaðan ráðningartíma og þá gegn betri kjörum eins og á almennum vinnumarkaði. Ég er alveg viss um að opinberir starfsmenn hefðu vel verið til viðræðu ef ekki hefði verið þetta óðagot á ráðherrunum að sætta sig við að æviráðning yrði afnumin gegn því að á móti kæmu sanngjarnar bætur eða greiðslur. En þetta er bara einhliða tekið af fólki án nokkurra bóta. Hérna er húsbóndavaldinu beitt í krafti meiri hlutans á Alþingi og þetta ákvæði knúið í gegn þrátt fyrir mótmæli opinberra starfsmanna vegna þess að í gegn skal það með góðu eða illu, það er boðskapurinn frá hæstv. ríkisstjórn og hæstv. fjmrh.

Því hefur verið haldið fram í þessari umræðu að ekki sé verið að breyta veikinda- og orlofsrétti, en er það rétt? Hér er vissulega ekki um bein skerðingarákvæði að ræða en það er verið að undirbúa jarðveginn að mínu mati til þess að skerða þann rétt eða hugsanlega að láta opinbera starfsmenn kaupa hann aftur í næstu kjarasamningum.

Það hafa réttilega komið fram í mörgum umsögnum áhyggjur um óvissuna vegna veikindaréttar og fæðingarorlofs en í 12. gr. frv. er ráðgert að hverfa frá því fyrirkomulagi sem nú gildir að veikindaréttur ríkisstarfsmanna og réttur til launa í fæðingarorlofi sé ákveðinn með reglugerð. Gert er ráð fyrir að um þessi atriði skuli framvegis gilda almenn lög, kjarasamningar og kjaraákvarðanir. Það er full ástæða til þess að hafa áhyggjur af því gagnvart opinberum starfsmönnum sem snýr að fæðingarorlofinu vegna þess að það liggja fyrir tillögur sem kveða á um verulegar skerðingar á fæðingarorlofsrétti opinberra starfsmanna. Og sjálfsagt er hæstv. fjmrh. með þessu ákvæði að flytja þetta inn í kjarasamningana, að undirbúa jarðveginn fyrir það að geta skert fæðingarorlofsrétt opinberra starfsmanna. Ætlar hæstv. fjmrh. að neita því? Það væri a.m.k. athyglisvert innlegg í umræðuna ef hann neitar því að verið sé að breyta þessu eins og hér segir til þess að það sé hægt að skerða á haustdögum eða næsta vetri fæðingarorlofsrétt opinberra starfsmanna.

Það er athyglisvert að þegar við vorum að fjalla um fæðingarorlofsrétt þingmanna þá kom engin athugasemd frá hæstv. fjmrh. Þar er ákvæði mjög ótvírætt. ,,Alþingismaður á rétt á fæðingarorlofi þann tíma sem lög eða kjarasamningar opinberra starfsmanna kveða á um.`` Þar er ekki gerður greinarmunur á því hvort það er karl eða kona þannig að hæstv. fjmrh. gæti samkvæmt þessu ákvæði, sem ég hef borið undir lögfræðinga, fengið sex mánaða fæðingarorlof og það væri ágætt að við losnuðum við hann úr þingsalnum ef hann tæki sér sex mánaða fæðingarorlof. En þetta er ótvírætt. Þetta er alveg ótvírætt ákvæði sem hæstv. ráðherra hefur ekki gert neina tilraun til þess að fá breytt. Það eru allir alþingismenn sem eiga rétt á fæðingarorlofi og það er ekki gerður neinn greinarmunur á hvort um er að ræða karl eða konu. Ég er viss um að það verður mjög gott fordæmi fyrir opinbera starfsmenn í næstu kjarasamningagerð að gera kröfu til þess að fá sama fæðingarorlofsrétt og hæstv. fjmrh. hefur. Hann getur varla neitað opinberum starfsmönnum um það. Varla hefur hæstv. fjmrh. einhver forréttindi í þessu efni umfram opinbera starfsmenn en það væri kannski eftir öðru að hann hefði það.

Sama má segja um það sem kallað hefur verið makalaun og hefur verið hluti af þeim réttindum sem opinberir starfsmenn hafa haft. En það má lesa út úr ákvæðum til bráðabirgða að þeim eigi að breyta. Við fráfall starfsmanns á maki rétt á þriggja mánaða launum og þetta nær til maka allra starfsmanna nú. Þessu á að breyta og í ákvæði til bráðabirgða er vikið til þess að þetta ákvæði eigi að gilda þar til um annað hefur verið samið, þó ekki um embættismenn. Það virðist því vera að hæstv. ráðherra undirbúi það að semja þetta út af borðinu í næstu kjarasamningum nema fyrir embættismenn. Embættismenn eiga að halda þessu, úrvalsflokkurinn á að halda þessum réttindum.

Virðulegi forseti. Nú erum við komin að einum ljótustu ákvæðum þessa frv. og er af mörgu að taka. Hér er verið að biðja um heimild til þess að reka opinbera starfsmenn vegna heilsubrests. Svo langt er gengið í þessu frv. að það er verið að biðja Alþingi um það að hæstv. ráðherra og forstöðumenn fái heimild til þess að reka starfsmenn vegna heilsubrests. Þetta er boðskapurinn í hinni nýju starfsmannastefnu afturhaldsaflanna í landinu. Húsbændurnir, Sjálfstfl., boðar starfsmannastefnu þar sem reka má fólk vegna heilsubrests og hjúin, Framsfl., fylgja á eftir og segja ekki orð í þingsölum til þess að mótmæla þessu og samþykkir að reka megi fólk vegna heilsubrests. Maður trúir varla sínum eigin augum að lesa þetta ákvæði 30. gr. frv. Það er ekkert verið að fela það. Þetta er sagt alveg berum orðum að hægt sé að láta fólk fara vegna heilsubrests. Þegar maður les sum ákvæði þessa frv. eins og þetta sem ég hef vitnað í er eins og maður sé kominn ein 100 ár aftur í tímann. Nú á að reka fólk vegna heilsubrests. (Gripið fram í: Eina öld.) A.m.k. eina öld, hv. þm., ef ekki lengra. Eins og maður sé kominn 100 ár aftur í tímann þegar verkafólk var algerlega réttindalaust gagnvart vinnuveitanda sínum og var kúgað áfram af atvinnurekendavaldinu gersamlega réttindalaust. Við erum að endurlifa þessa sögu. Sum ákvæði þessa frv. eru alveg með ólíkindum. Ég held, virðulegi forseti, að það sé nokkuð ljóst að stór hluti fólks fyrir utan þetta Alþingishús viti ekki um það hvað hér er á ferðinni. Þótt opinberir starfsmenn og félög opinberra starfsmanna hafi verið að reyna að kynna þessi skerðingarákvæði þá held ég að fólk viti almennt ekki um hvað hér eru alvarleg ákvæði á ferðinni. Mér liggur við að segja að við séum að fjalla um alvarlegri skerðingarákvæði, alvarlegri atlögu að fólki en við höfum þó í því umdeilda frv. sem er stéttarfélög og vinnudeilur. Það er aumingja hæstv. félmrh. sem fær allar skammirnar. Enginn talar um hæstv. fjmrh. Hann situr bara glottandi í sínum stól, allt bitnar á hjúinu, hæstv. félmrh. En þetta held ég að sé bara miklu verra en það sem við erum að sjá í frv. til breytinga á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur. Það er því full ástæða til þess að ræða þetta mál nokkuð ítarlega, virðulegi forseti.

Það er alveg ljóst að þetta ákvæði sem hér á að fara að breyta og veita forstöðumönnum það vald að hafa þá svipu að reka bara fólk, m.a. út af heilsubresti, að opinberir starfsmenn hafa keypt sér þetta ákvæði með harðri baráttu til að tryggja fólk vegna langvarandi veikinda. En því er bara kippt á brott sisvona einhliða án nokkurs samráðs eins og allt annað í þessu frv.

Ég er enn að vitna í þetta ágæta plagg frá Félagi ísl. hjúkrunarfræðinga, undirrituðu af Ástu Möller, formanni Félags ísl. hjúkrunarfræðinga og einum af varaþingmönnum Sjálfstfl. Ég hef sagt það og endurtek að hæstv. fjmrh. hefði átt að leita í smiðju til þessarar ágætu konu vegna þess að það væri mjög gagnlegt fyrir hæstv. ráðherra að lesa mjög ítarlega yfir þessa umsögn. Það væri fróðlegt að vita hvort hæstv. ráðherra hefði gert það. Í umsögn um greinina um að það megi reka fólk vegna heilsubrests segir:

,,Í 30. gr. er kveðið á um að skylt sé að veita embættismanni lausn frá störfum vegna heilsubrests ef hann hefur verið frá störfum vegna sjúkdóma eða slysa samfellt í eitt ár eða sem svarar 1/18 af samfelldum starfstíma hans hjá ríkinu ef sá tími er lengri en eitt ár.``

Í skýringum með 30. gr. frv. er vísað í 5. gr. reglugerðar um veikindaforföll starfsmanna ríkisins og látið að því liggja að hér sé um að ræða efnislega sömu hlutina þó með annarri útfærslu vegna fimm ára skipunartíma embættismanna. Þetta er ekki rétt. Í 5. gr. reglugerðarinnar segir að ef starfsmaður hefur verið frá störfum vegna veikinda svo mánuðum skiptir á hverju ári um fimm ára tímabil eða ef starfsmaður hefur verið frá starfi vegna veikinda tvöfaldan þann tíma er hann átti rétt á að halda launum með fjarveru sinni þá megi veita starfsmönnum lausn frá starfi. Ef starfsmenn hafa starfað í þjónustu ríkisins í 20 ár eiga þeir samkvæmt reglugerð rétt á launum í eitt ár í veikindum og þurfa því að vera frá störfum vegna veikinda samfellt í tvö ár til þess að stjórnvöld hafi heimild til að veita þeim lausn frá störfum vegna veikinda. Í frv. er hins vegar skylda að veita starfsmönnum sem starfað hafa í þjónustu ríkisins í 20 ár lausn frá störfum. Það er skylda að reka þá ef þeir hafa verið fjarverandi vegna veikinda samfellt í rúmlega 13 mánuði.``

Þetta er boðskapurinn. Þetta er hin nýja starfsmannastefna hæstv. fjmrh. Síðan eru ýmis önnur ákvæði sem þarf að fara ítarlega í og ég mun gera í minni seinni ræðu í þessari umræðu, virðulegi forseti, sem ég geri ráð fyrir að verði á þriðjudag eða miðvikudag í næstu viku en það er málskotsréttur. Það er alvarlegt ákvæði í þessu frv. að skertur er möguleiki starfsmanna til að skjóta ákvörðun yfirmanns til æðra stjórnsýslustigs. Það getur ekki annað verið en þetta gangi þvert á ákvæði stjórnsýslulaga og mun ég koma að því síðar að ég held að verið sé að brjóta stjórnsýslulögin á opinberum starfsmönnum. Stjórnsýslulögin, stjórnarskráin, alþjóðlegir samningar. Allt sem hægt er að brjóta er brotið.

[16:45]

Síðan er það ákvæðið um áminningu eða ákvæði 21. gr. og 44. gr. en þar er mikil réttarskerðing eins og margt annað. Þannig er gert ráð fyrir í 44. gr. að ekki sé skylt að veita manni áminningu áður en honum er sagt upp störfum án tillits til þess hver ástæða uppsagnarinnar er. Hér á að lögfesta einn eina geðþóttaákvörðunina. Síðan er ákvæði um að það sé unnt að segja starfsmanni upp án áminningar og án þess að gefa honum kost á að bæta ráð sitt. Ég tel að hér sé verið að fara inn á mjög hættulega braut, vægast sagt mjög hættulega braut og um sé að ræða ákvæði sem brýtur gegn stjórnsýslulögum. Hér er bara hægt að taka einhverja stjórnvaldsákvörðun án nokkurrar skýringar og reka opinberan starfsmann.

Ég spyr: Hvert eru menn að fara? Hvaða nýju samskiptareglur eru það sem verið er að taka upp hjá stærsta atvinnurekanda landsins, fjmrh.? Það er alveg ótrúlegt hvað hæstv. fjmrh. og hans samstarfsmönnum uppi í fjmrn. dettur í hug. Þeir leika að vísu nokkuð lausum hala vegna þess að það er ekkert aðhald í Framsfl. Þeir komast upp með frjálshyggjuna sína alveg óhefta á varadekkjunum inn í þingsal og komast upp með þetta allt saman. Hugmyndaflugið er alveg á fljúgandi ferð uppi í fjmrn. núna. Þeir hugsa hvað sé nú hægt að gera meðan þeir eru með svona auðsveipan samstarfsflokk eins og Framsfl. Það tækifæri skal nú notað til þess að koma öllum frjálshyggjuákvörðununum í gegn. En að mörgu leyti má náttúrlega segja að hæstv. fjmrh. sé samkvæmur sjálfum sér. Hann hefur alltaf talað fyrir bullandi frjálshyggju og einskis svifist í þeim efnum. Þeir sem hafa verið að andmæla honum, sem einhverjir eru kannski til í hans flokki, hafa bara gefist upp. Valdið í landinu liggur hjá tveim eða þrem ráðherrum og tveim eða þrem mönnum uppi í Garðastræti gegnum miðstýrt atvinnurekendavald. Það eru örfáir menn sem ráða og stjórna öllu í þessu landi og svo eru til fjármagnseigendur sem njóta náttúrlega góðs af öllu. Þetta er sú staða sem við búum við. Í skjóli alls þessa er tækifærið nýtt og ráðist hvar sem hægt er að kjörum og réttindum fólksins.

Ég held það sé mjög alvarlegt ákvæðið sem kveður á um að skerða möguleika starfsmanns til að skjóta ákvörðun til yfirmanns og þau ákvæði sem er að finna varðandi það hvernig hægt er að reka fólk og fara með það.

Síðan er furðulegt ákvæði um að veita áminningu ef ekki er um fullnægjandi árangur í starfi að ræða, fullnægjandi árangur í starfi. Það veit enginn hvað þetta þýðir. Það er inntak stjórnsýslulaga, virðulegi forseti, að þegar yfirmenn taka íþyngjandi ákvarðanir er varða starfsmenn ber þeim að taka tillit til hagsmuna og réttinda starfsmanna samkvæmt stjórnsýsulögum. Það felur vitaskuld í sér að eðlilegt sé að starfsmönnum sé gefinn kostur á að bæta ráð sitt áður en yfirmenn taka ákvörðun um áminningu eða uppsögn starfsmanna. Báðar þessar greinar, 21. og 44. gr., sem kveða á um þessar geðþóttaákvaðranir yfirmanna, stangast á við ákvæði stjórnsýslulaga. Það væri nauðsynlegt að hafa formann efh.- og viðskn. til að spyrja hann út í um þetta mál. Var það skoðað hvort verið væri að brjóta hér ákvæði stjórnsýslulaga?

Síðan eru það alvarlegustu ákvæði frv. Það er þessi svokallaða yfirvinnuskylda og það að afhenda forstöðumönnum ríkisstofnana þetta einhliða vald á því hverjir geta fengið launahækkanir og hverjir ekki. Nú er bara skylt að vinna yfirvinnu, ákvæði um það í lögum að það sé skylt að vinna yfirvinnu. Þetta er ekkert líkt því sem er í löndunum í kringum okkur og við berum okkur saman við, þar sem dagvinnan nægir yfirleitt til framfærslu. Hér er verið að skylda fólk til yfirvinnu. Það er auðvitað verið að fjarlægjast þau markmið, enda næst það varla undir þessari ríkisstjórn, að dagvinna nægi til framfærslu. Þetta er furðulegt ákvæði.

Það er alveg ljóst í mínum huga, hæstv. ráðherra, að með ákvæðinu um að forstöðumenn fái einhliða vald til þess að ákveða hverjir geti fengið launahækkanir og hverjir geti ekki fengið launahækkanir, er verið að festa í sessi það neðanjarðarhagkerfi sem við höfum búið við í kjarasamningum, varðandi kjaramálin í þjóðfélaginu.

Það er siðlaust að gera þetta svona og mun enn auka á það frumskógalögmál sem gildir um öll kjaramál í landinu. Það er sett í vald forstöðumanna hverjir séu verðugir og hverjir ekki til að fá launahækkanir, hverjir eru í náðinni hjá forstöðumönnunum og hverjir ekki. Þetta er varla til þess fallið að bæta andrúmsloftið á vinnustöðunum, fyrir utan það að mismuna verulega í kjörum. Fjmrh. setur reglur og auðvitað án samráðs við opinbera starfsmenn. Það á ekkert að virða ákvæði 36. gr. laganna varðandi þetta fremur en hitt. Og fjmrh. kemst ekki upp með annað en svara því sem margítrekað hefur verið spurt um: Á hverju eiga þessar reglur að byggja? Hann getur ekki boðið Alþingi upp á að það eigi að fara að lögfesta svona ákvæði án þess að Alþingi hafi neina hugmynd um á hvaða forsendum hér á að byggja.

Ég held að ég hafi séð það í áliti meiri hlutans að það eigi að miða við sérstakt álag og árangur í starfi og síðan eigi að leggja til grundvallar hæfni og álag að mér skilst. Síðan klifar ráðherrann á því að það sé ákvæði um það að þetta eigi að gilda jafnt gagnvart konum og körlum. Það er réttlætingin. Hins vegar er ég alveg alveg sannfærð um að þetta mun enn auka launamuninn í þjóðfélaginu og ekki síst á milli kvenna og karla. Við höfum jafnréttislögin þegar verið er að vísa í að það standi einhver parsus um það að konur og karlar eigi í jöfnum mæli að njóta þessa. Við höfum jafnréttislögin sem segja að konur og karlar eigi að njóta sömu kjara fyrir jafnverðmæt og sambærileg störf. Það eru engin lög í landinu eins mikið brotin og jafnréttislögin. Auðvitað verður litið fram hjá þessu ákvæði. Þeir fara með það eins og þeim sýnist, þeir forstöðumenn sem fá þetta geðþóttavald.

Ég spyr: Hvaða möguleika eiga kvennastéttirnar í gegnum þessi ákvæði? Hvað verður lagt til grundvallar, ábyrgð á mannlegum verðmætum eða ábyrgð á fjármagni og peningalegum verðmætum? Verða umönnunarstörfin ekki hunsuð? Ég spyr: Hvaða möguleika eiga kvennastéttirnar á spítölunum sem bera ábyrgð á umönnun barna, sjúkra og aldraðra? Verður þeim umbunað? Og ég spyr: Verður eitthvað í þessari reglugerð um það að stofnanir sem fara fram úr á fjárlögum og forstöðumenn þeirra geti ekki átt rétt á að umbuna fólki sínu með þessum launahækkunum? Þá er auðvitað borin von til þess að fólk t.d. á spítölunum eigi möguleika á að fá launauppbót eða launahækkanir.

Ég vildi ræða ýmislegt fleira varðandi þessa grein, virðulegi forseti, en ætla að geyma mér það þar til ég tek aftur þátt í 2. umr. þessa máls vegna þess að efnið er óþrjótandi sem hægt er að ræða um varðandi þessa grein og hve hættuleg hún er. Það kemur fram t.d. í umsögn BSRB að nýleg launakönnun sýni að 2/3 hlutar launamunar milli kvenna og karla megi skýra með mismunun í greiðslum sem eru ákvarðaðar af yfirmönnunum. Og nú á að fara að auka það að yfirmenn geti beitt þessum greiðslum. En kannanir sýna að 2/3 hlutar launamunar kvenna og karla megi skýra með mismunun í greiðslum. Það er ekki nýtt að þetta hafi verið inni. Mér skilst að BSRB fari yfir það í sinni umsögn að eitthvað slíkt ákvæði svipað þessu hafi áður verið í gildi, það hafi verið numið úr gildi en reynslan af því hafi verið þannig, með leyfi forseta:

,,Forstöðumenn virtust aðallega nota heimildina með þrennum hætti. Sumir notuðu hana alls ekki, vildu ekki mismuna starfsmönnum en aðrir notuðu hana fyrir alla starfsmenn, töldu alla starfsmenn eiga rétt á sérstakri umbun. Þriðji hópurinn reyndi samkvæmt mati að láta suma njóta en aðra ekki. Þessir forstöðumenn uppskáru í ríkum mæli óánægju þeirra starfsmanna sem ekki nutu og töldu sér mismunað.``

Við höfum því reynslu af þessari framkvæmd sem hér á nú að fara að lögfesta.

Síðan er sérkafli sem þarf að ræða mjög ítarlega. Það er kaflinn um að standa utan stéttarfélaga. Það er ljóst að með þessum kafla er verið að brjóta niður stéttarfélög í landinu, hvorki meira né minna. Þeir sem standa utan stéttarfélaga og eiga að geta það samkvæmt ákvæðum frv., eiga að geta notið þeirra réttinda og kjara sem opinberir starfsmenn þurfa að berjast fyrir en þurfa ekkert að greiða í sameiginlegan sjóð verkalýðshreyfingarinnar með félagsgjöldum.

Virðulegi forseti. Ég ætla að fara að ljúka máli mínu. Ég á að vísu alveg eftir að fara yfir þessar umsagnir en ég veit að það eru fleiri sem þurfa að komast að. Ég ætla að fá að komast aftur að þegar möguleiki gefst vegna þess að ég á eftir að fara ítarlega yfir umsagnirnar og ég á líka eftir að fara ítarlega yfir, virðulegi forseti, nefndarálit minni hluta efh.- og viðskn. sem er mjög athyglisvert og tekur á mörgum þáttum sem ég hef ekki komist til þess að taka á og vil ég bíða þar til ég fer næst í ræðustól.

Það er sama hvar litið er, virðulegi forseti, á þetta frv. Hér er verið á mjög óbilgjarnan hátt að ráðast að kjörum og réttindum launafólks. Og það sem meira er, það er með margvíslegum hætti líka gerð tilraun til þess að brjóta niður verkalýðshreyfinguna þannig að atvinnurekendavaldið í Garðastræti og atvinnurekendavaldið í fjmrn. fái alræðisvald til þess að berja á launafólki í landinu.