Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Fimmtudaginn 09. maí 1996, kl. 16:58:09 (5856)

1996-05-09 16:58:09# 120. lþ. 134.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 134. fundur

[16:58]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er því miður ekki tækifæri til þess á einni eða tveimur mínútum að svara öllu því sem kom fram hjá hv. þm. Flest af því voru gamlir kunningjar reyndar. Það var athyglisvert hvernig hún endaði ræðuna því að hún sagðist eftir þessa ræðu sína þurfa að flytja aftur ræðu hv. þm. Ágústs Einarssonar sem las upp nefndarálit minni hlutans. Nú treystir formaður Þjóðvaka ekki sínum eigin manni betur en svo að hún vill flytja þetta nefndarálit aftur. Ég býst við því (Gripið fram í: Sjaldan er góð vísa of oft kveðin.) að það þurfi að gera og sé í stíl við þá málsmeðferð sem hérna hefur tíðkast í þessari umræðu.

En það eru tvö atriði sem ég tel ástæðu til að nefna nú þegar. Annað snertir fæðingarorlofið og hitt æviráðninguna. Hv. þm. sagði um fæðingarorlofið að ég hefði ekkert aðhafst varðandi breytt lög um alþingismenn. Þetta er aldeilis rangt því að fjmrn. hefur gert athugasemdir við yfirlýsingu Jafnréttisráðs og telur að það eigi að skilja ákvæðið í lögunum um alþingismenn þannig að það sé ekki víðtækari réttur en er í þeim lögum sem hér er verið að breyta.

Ég vil einnig láta það koma alveg skýrt fram að með bráðabirgðaákvæðinu í frv. er kveðið á um það mjög skýrt að núgildandi reglugerð standi óbreytt. Það þýðir hins vegar að einungis fastráðnar konur njóta launagreiðslna í barnsburðarleyfi og þess vegna þarf að breyta reglugerðinni ef það á að ná til annarra starfsmanna einnig. En í dag er talið útilokað að regugerðin nái jafnt til karla og kvenna vegna orðalags þessara laga. Þetta þarf að koma mjög skýrt fram.

[17:00]

Í öðru lagi vil ég ræða æviráðninguna. Hv. þm. gaf í skyn að það ætti að vera launamunur á milli þeirra sem væru æviráðnir og hinna. Ég veit ekki hvort hv. þm. veit að ef við teljum frá kennarana þá munu 1.800 ríkisstarfsmenn vera æviráðnir eða u.þ.b. 10%. Það vinna í dag hlið við hlið hjá ríkinu fólk sem er æviráðið, sem svo er kallað, og hinir sem eru á gagnkvæmum uppsagnarfresti. Launamunurinn er enginn og hefur ekki verið í tíu ár. Það væri því algjört nýnæmi ef ætti að fara að taka það upp af því tilefni að verið sé að breyta lögunum. Ég held að flestum sé ljóst að þetta er úrelt og það hefur ekki komið fram að það eigi að bæta mönnum það upp í launum þótt lögunum sé breytt að þessu leytinu til. Þetta tvennt vildi ég að kæmi fram hér strax. Hin atriðin sem hv. þm. nefndi verða að bíða þar til ég flyt ræðu mína við þessa umræðu einhvern tíma síðar í þessum mánuði.