Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Föstudaginn 10. maí 1996, kl. 12:24:47 (5871)

1996-05-10 12:24:47# 120. lþ. 135.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur

[12:24]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil í fyrsta lagi segja að fæðingarorlof, veikindaréttur og makaréttur breytist ekkert frá því sem nú er í þessu frv. verði það að lögum.

Ég vil í öðru lagi láta það koma fram að æviráðning og biðlaunaréttur eru eðlileg og beinlínis fylgifiskur þess að fólk hafði hvorki samnings- né verkfallsrétt áður fyrr. Það má sjá á umræðum sem urðu í þingi á sínum tíma um það frv. Ég bendi á að æviráðnir starfsmenn ríkisins eru um það bil 10% af starfsmönnum ríkisins ef kennararnir eru ekki meðtaldir. Ég bendi á varðandi biðlaunaréttinn að verið er að breyta biðlaunarétti þeirra sem eru í starfi þannig að þeir fái ekki tvöföld laun en aðeins verið að fella það niður af þeim sem nýir eru enda er flestum ljóst að það hlýtur að vera eðlilegt eftir að verkfalls- og samningsréttur er fenginn.

Þá vil ég geta þess vegna fyrirspurnar að unnið er að tilraunaverkefni um starfsmat. Ég vil einnig segja frá því að afnám framgangskerfisins er ekki afleiðing af þessu frv., sem hér er verið að ræða, en kemur fram í bandormi ríkisstjórnarinnar enda er bréfið skrifað til menntmrh. en ekki til fjmrh.

Hv. þm. sagði að of lág laun væru hjá opinberum starfsmönnum. Það má ugglaust deila um það en ég bendi á það að forustumenn ASÍ hafa haldið því fram að sá sem hér stendur hafi hækkað laun opinberra starfsmanna, einkum kennara og heilbrigðisstétta langt umfram það sem eðlilegt er. Ég vil geta þess einnig að bankamenn ætla að fara í mál við vinnuveitendur sína á þeirri forsendu að fjmrh. hefur hækkað launin svo mikið.

Þá vil ég geta þess enn fremur vegna ráðningarsamninga að það er auðvitað tilvísun í lög löngu áður en samningsréttur og verkfallsréttur varð til þannig að það er alveg furðulegt að sjá yfirlýsingar eins og þær sem hv. þm. vitnaði til.

Loks vil ég segja að það stendur að ánægt starfsfólk skiptir máli og sá sem hér stendur hefur einmitt látið sig þau mál varða. Í fyrsta lagi með því að benda á það hvað starfsfólk ríkisins er að gera og koma því á framfæri og því hefur verið hælt, enda er margt gott að gerast hjá starfsfólki ríkisins. Í öðru lagi hef ég beitt mér fyrir því að veitt sé viðurkenning fyrir þá starfsemi á vegum ríkisins sem er til fyrirmyndar og það er fyrst og fremst vegna þess að fólkið sem starfar hjá ríkinu hefur staðið sig vel. Þetta þarf að koma fram því að annað var gefið í skyn í ræðu hv. þm.