Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Föstudaginn 10. maí 1996, kl. 12:29:49 (5873)

1996-05-10 12:29:49# 120. lþ. 135.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur

[12:29]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvort það hefur komist til skila sem ég var að reyna að segja en það stendur þannig á að fyrir meira en tíu árum hætti ríkið í grundvallaratriðum að ráða fólk til æviloka eins og stundum er kallað heldur var fólk ráðið með gagnkvæmum uppsagnarfresti. Það vinnur fólk hjá ríkinu hlið við hlið, annars vegar æviráðið og hins vegar með þriggja mánaða uppsagnarfresti og búið að gera í tíu ár á nákvæmlega sömu laununum og hefur aldrei verið rætt að gera mun þar á. Það er því ekkert verið að tala um það og hefur aldrei verið minnst á að launabætur eigi að koma fyrir það þegar ráðningarfestan fer.

Varðandi biðlaunaréttinn kannast ég ekki heldur við að hann hafi verið metinn til launa. Mér er þó sagt án þess að hafa séð að Kjaradómur hafi nefnt það einhvern tíma í niðurstöðu sinni. Það hef ég ekki séð, ég kannast ekki við það. Ég kannast hins vegar við það að lífeyrisrétturinn og starfsöryggið sem felst í því að vinnuveitandinn sé stór og sterkur, að fæðingarorlofið sé fyrir hendi öðruvísi en hjá öðrum og veikindarétturinn sé öðruvísi og aðrir þættir í starfsöryggi hafi verið notaðir af hálfu vinnuveitandans, ríkisins, til þess að benda á að það megi jafna þessa hluti til launa. Við verðum að tala skýrt þegar við erum að tala um þessa hluti. Það er einfalt fyrir stjórnarandstöðumenn að koma upp og tala og tala með þessum hætti en þeir verða þá að átta sig á því hvaða áhrif slíkar ræður hafa. Við sem erum um stundarsakir í því hlutverki að þurfa að gæta ríkissjóðs og vera um leið samningsaðilar við þetta ágæta starfsfólk ríkisins verðum hins vegar að gæta þess að það sé samræmi í málflutningi ríkisins og það skiptir miklu máli.

Þetta vildi ég að kæmi mjög skýrt fram í þessu andsvari. Að öðru leyti vil ég vísa til fyrri andsvara minna sem ég hef komið með við ræður annarra þingmanna en því miður er það þannig að hv. stjórnarandstæðingar skiptast á og það er eins gott að þeir heyri það sem heyra mitt mál, að sitja í salnum, örfáir, og flytja síðan hver á fætur öðrum sömu ræðuna aftur og aftur og taka marga klukkutíma til þess til þess að koma í veg fyrir að Alþingi Íslendinga geti komist að lýðræðislegri niðurstöðu. (ÖJ: ... svör. Þetta er ósvífið.) Þetta er sannleikurinn í málinu.