Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Föstudaginn 10. maí 1996, kl. 12:34:22 (5875)

1996-05-10 12:34:22# 120. lþ. 135.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, SighB
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur

[12:34]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. hefur komið fram með nokkuð alvarlegar ásakanir. Hann hefur sagt að málsmeðferðin á Alþingi sé til þess ætluð að koma í veg fyrir að lýðræði nái fram að ganga. Alþingi starfar eftir þingskapalögum sem sett eru af Alþingi sjálfu. Þar eru festar í sessi reglur þingræðis, þær starfsreglur sem Alþingi er ætlað að vinna eftir. Ég veit ekki til þess, virðulegi forseti, að þær reglur hafi verið brotnar. Ég veit ekki til annars en að þær umræður sem hér hafa farið fram hafi verið að fullu og öllu innan marka þeirra reglna sem íslenska stjórnarskráin og íslensk lög setja um framkvæmd þingræðis og lýðræðis í þessu landi. Ég tel það mjög alvarlega ásökun þegar einn af hæstv. ráðherrum kemur fram til þess að saka alþingismenn, bræður sína og systur á löggjafarsamkundu þjóðarinnar, um að vera að koma í veg fyrir að lýðræði nái fram að ganga á Alþingi Íslendinga þegar það eina sem þessir þingmenn eru að gera er að fara nákvæmlega eftir þeim vinnureglum sem íslenska þjóðin hefur lögleitt um hvernig lýðræðið eigi að ganga fyrir sig á Íslandi.

En það má kannski vekja athygli á öðru og spyrja að því hvernig hæstv. fjmrh. finnist það samrýmast lýðræðisreglunni að hér situr ríkisstjórn með mjög öflugum þingmeirihluta. Hún er skipuð af tveimur flokkum sem í síðustu kosningum urðu stærstu flokkar þjóðarinnar, Sjálfstfl. og Framsfl. Það hefur enginn framsóknarmaður tekið til máls í allri þessari umræðu. Þeir hafa ekki tjáð sig um afstöðu sína. Þeir hafa ekki rökstutt skoðanir sínar á þessum málum. Þeir hafa engu svarað ábendingum stjórnarandstöðunnar. Þeir hafa engu svarað því sem fram hefur komið í bréfum fjölmargra stéttarfélaga sem hafa haft efnislegar athugasemdir við frv. Það er varla hægt að segja að þeir hafi verið á Alþingi Íslendinga til að hlusta. Þeir hafa ekkert sagt. Hvað skyldi þeirra fólk hafa við þá að segja þegar þing Alþýðusambands Íslands kemur saman innan nokkurra daga? Þar mætir fólk úr öllum stjórnmálaflokkum til að fjalla um þá gjörð Alþingis Íslendinga sem hér er að fara fram. Hvað skyldu þeir ágætu framsóknarmenn í verkalýðshreyfingunni hafa að segja við sína flokksbræður á Alþingi, en margir þeirra sitja á Alþingi fyrir tilverknað þeirra, þegar þeim verður það ljóst að Framsfl. einn þingflokka hefur ekkert tjáð sig um þessi mál og varla að hæstv. félmrh. undanteknum haft döngun í sér til þess að sitja þingfundi þegar málin hafa verið til umræðu?

Hvað skyldu t.d. sjálfstæðismenn í Landssambandi verslunarmanna hafa að segja um að það eru nánast aðeins tveir þingmenn Sjálfstfl. sem virðast hafa skoðun í þessu máli? Það eru hæstv. fjmrh. sem vissulega hefur skoðun, þá skoðun m.a. að þeir sem hafa eitthvað út á þennan málflutning að setja séu að standa í vegi fyrir því að lýðræðið nái fram að ganga. Hv. formaður efh.- og viðskn. Vilhjálmur Egilsson. Skyldu sjálfstæðismenn á þingi Alþýðusambands Íslands vera mjög ánægðir með það að þeir skuli ekki geta haft eftir öðrum þingmönnum flokksins eitt aukatekið orð um afstöðu þeirra t.d. til þeirra fjölmörgu athugasemda sem settar hafa verið fram í bréfum, í blöðum, í útvarpi og sjónvarpi af því fólki sem m.a. hefur stutt þá til að ná kjöri hingað inn á Alþingi Íslendinga? Finnst hæstv. fjmrh. þetta vera lýðræði, að svona eigi menn að haga sér í lýðræðislandi? Að passa upp á að kjósendur geti ekki haft neitt eftir sér um alvarleg átakamál til þess að geta komið fram síðar og sagt: ,,Ja, mér urðu á mistök. Ég ætlaði ekki að gera svona. Ég hefði gjarnan viljað fá þessu breytt en ég verð að lúta meiri hlutanum, meiri hlutanum í mínum flokki, meiri hlutanum í ríkisstjórninni og því greiddi ég atkvæði svona.`` Það er ekki lýðræði að alþingismenn sitji þegjandi undir afgreiðslu mála eins og fram á að fara hér. Það er ekki lýðræði vegna þess að kjósendur eiga kröfu á því, til þeirra alþingismanna sem þeir hafa kosið, að þeir fái vitneskju um hvaða afstöðu viðkomandi þingmaður hefur tekið til erfiðra og átakamikilla mála. Allflestir þingmenn Sjálfstfl. og Framsfl. sem náðu kjöri í síðustu kosningum ætla sér að standa þannig að afgreiðslu mála að kjósendur þeirra geti ekkert eftir þeim haft, nákvæmlega ekki neitt um hvaða skoðun þeir persónulega höfðu á þeim frumvörpum sem hér á að afgreiða og á afstöðu sinna eigin stuðningsmanna og kjósenda í hópi launafólks. Það er það ,,slagplan`` sem lagt hefur verið af þingmönnum þessara flokka. Þeir ætla að reyna að hverfa í skuggann með þögninni þannig að ekkert verði eftir þeim haft og þeir geti komið seinna og sagt: ,,Við vildum gjarnan hafa haft þetta öðruvísi.``

Það er hins vegar hrósvert að hæstv. fjmrh. hugsar ekki svona. Hann ætlar að standa þannig að málum að það fari ekkert á milli mála hver vilji hans er og hver hans afstaða er og ekki einu sinni hvernig hann svarar fjölmörgum gagnrýnisatriðum sem fram hafa komið þó hann svari þeim ekki öllum.

Virðulegi forseti. Ég veit að hæstv. fjmrh. hefur mikinn áhuga á því að þessi mál gangi hratt og greiðlega fyrir sig og að menn þurfi ekki að taka meiri tíma í málflutning sinn en nauðsynlegur er. Ég man eftir einum þingskörungi sem átti sæti á Alþingi Íslendinga fyrir allmörgum árum. Hann hafði það fyrir sið að alltaf er nýr þingmaður rakst inn í salinn, byrjaði hann ræðu sína að nýju svo að þar færi ekkert fram hjá þeim þingmanni sem kominn var. Ég ætla ekki að tileinka mér þennan sið en mér þykir verra að formaður efh.- og viðskn. skuli ekki vera hér staddur því það er aldrei að vita nema ég byrji á byrjuninni ef hann kemur inn einhvern tíma í miðjum klíðum. Og það mundi sjálfsagt tefja málið allverulega. (Fjmrh.: Hv. þm. fylgir nú alltaf sömu ...) Og nú veit ég það að hæstv. fjmrh. er allra manna greiðasamastur, sérstaklega við okkur stjórnarandstæðinga svo að ég er alveg sannfærður um að hann mundi skjótast niður á neðri hæðina og sækja hv. þm. Vilhjálm Egilsson svo að þingsveinar þurfi ekki að tefja sig frá mikilvægum þjónustustörfum við aðra þingmenn. (Fjmrh.: Ef hv. þm. styttir mál sitt, þá er það ...) Ég get lofað hæstv. fjmrh. því að ég muni tala skemur en ella ef hv. þm. Vilhjálmur Egilsson er til staðar.

Herra forseti. Á hátíðlegum stundum er gjarnan talað um að ein af helstu auðlindum Íslands sé svokallaður mannauður. Hvað er það? Það er nú bara launafólkið í landinu, hvorki meira né minna, fólk í opinberri þjónustu og fólk sem starfar á hinum frjálsa vinnumarkaði. Þekking þessa fólks, menntun þess, reynsla þess, starfshæfni þess, trúnaður þess við þau störf sem það gegnir og vinnuveitanda sinn, þetta er í mæltu máli það sem átt er við með orðinu mannauður, þ.e. reynsla, þekking og starfshæfni fólksins er a.m.k. á hátíðum og tyllidögum talin vera ein helsta auðlind þjóðarinnar, sú auðlind sem við ætlum að byggja framtíð okkar á. Það er því full ástæða til þess að menn umgangist þessa auðlind ekki af síðri virðingu en t.d. þann ágæta þorskstofn sem menn eru stöðugt að tala um að þurfi að vernda og varðveita gegn arðráni og ofsókn. En það er aldeilis ekki gert. Það er aldeilis ekki gert því að hæstv. ríkisstjórn hefur lagt fram á Alþingi frumvörp sem miða að því í fyrsta lagi að endurskipuleggja vinnumarkaðinn eftir sínu höfði og í öðru lagi að taka réttindi af því fólki sem vinnur á vegum ríkisins, þ.e. með einhliða aðgerð vinnuveitandans á að taka réttindi af starfsfólki sem fyrir þennan vinnuveitanda vinnur. Ekki er það mikil virðing fyrir mannauðnum sem í því felst. Menn verða auðvitað að skoða málin í heild en ekki einstaka hluta þeirra. Þó að hér sé til umræðu frv. til laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, þá er þetta frv. aðeins hluti af þeim ráðagerðum sem ríkisstjórnin hefur uppi um breytingu á starfsumhverfi launafólks. Það er eðlilegt að menn skoði þá hluti í heild. Og það er mjög athyglisvert að sú endurskipulagning á vinnumarkaði eins og það er kallað sem ríkisstjórnin vill gera og hefur haft frumkvæði um á þessu þingi varðar bara annan aðilann.

Í tillögum hæstv. ríkisstjórnar eru engar tillögur gerðar um breytingu á skipulagi þeirrar hliðar á vinnumarkaði sem greiðir launin. Það eru engar tillögur gerðar um breytingu á skipulagi Vinnuveitendasambands Íslands þó svo hér sé farið fram með verulega breytt fyrirkomulag á skipulagi og frjálsræði hins viðsemjandans, verkalýðshreyfingarinnar. Við skulum nefna dæmi sem varpar nokkru ljósi á þetta.

[12:45]

Hér var mikil áhersla lögð á að það þyrfti að breyta skipulagi á hinum frjálsa vinnumarkaði þannig að hægt væri að mynda vinnustaðarfélög hjá stærri vinnuveitendum þar sem störfuðu ekki færri en 250 manns til þess að auka fjölbreytnina og frjálsræðið á vinnumarkaðinum og gefa svokölluðum vinnustaðarfélögum sambærileg réttindi til að gera kjarasamninga og hefðbundnum stéttarfélögum og landssamtökum þeirra. En mér er spurn, herra forseti, við hvern áttu þessir aðilar að semja? Við hvern átti vinnustaðarfélagið að semja? Það átti ekki að semja við vinnuveitandann. Það átti ekki að semja við eiganda fyrirtækisins þannig að samkvæmt þessu skipulagi ríkisstjórnarinnar gátu starfsmennirnir ekki samið við vinnuveitanda sinn. Þeir urðu að semja við Vinnuveitendasamband Íslands í Garðastræti. Skipulag Vinnuveitendasambandsins er þannig upp byggt að það getur bannað einstökum aðildarfélögum eða aðilum að sambandinu að semja óháð og gerir það, þannig að þó að ríkisstjórnin teldi sig vera að opna möguleika á fjölbreyttari samningsaðstöðu eða samningaferli launþegamegin þá passar hún sig vandlega á því að gera engar breytingar vinnuveitendamegin. Þó að starfsmenn stórs fyrirtækis, við skulum segja byggingarfyrirtækis, byggingarverktaka sem væri að hefja stórframkvæmdir á hálendi Íslands, tækju þá ákvörðun að stofna vinnustaðarfélag með fullum réttindum stéttarfélags þá gat viðkomandi félag ekki samið beint við vinnuveitanda sinn heldur varð að fara niður í Garðastræti og semja við vinnuveitendasambandsklíkuna í heild. Frjálsræði, frjálshyggja og frjálslyndi ríkisstjórnarinnar náði ekki lengra en að þessum landamærum, þ.e. landamærum sem skipta á milli yfirráðasvæðis stéttarfélaganna í landinu og yfirráðasvæðis vinnuveitendanna í landinu. Þar var engu breytt. Hið leniníska skipulag Vinnuveitendasambands Íslands var látið gersamlega óhaggað. Þar er miðstjórnarvaldið og forræðishyggjan sterkari en hjá nokkrum öðrum félagasamtökum í landinu. Þannig hefur Vinnuveitendasambandið bókstaflega byggt sig upp til að koma í veg fyrir að einstakir vinnuveitendur geti samið beint við starfsmenn sína um kaup og kjör. Markvisst hefur verið unnið að því að byggja vinnuveitendasamtökin þannig upp á Íslandi og það hefur tekist. En á sama tíma og hæstv. ríkisstjórn lagði til að leysa upp alla þætti í skipulagi íslenskrar verkalýðshreyfingar, sem hún hefur komið sér upp á undanförnum árum, greiða þar allt í sundur, þá datt henni ekki í hug að hagga við hinni hlið vinnumarkaðarins sem er miðstýrðasta og skipulagðasta kerfi á Íslandi þar sem einn talar fyrir alla og menn hafa ekki frjálsræði að því að taka ákvarðanir öðruvísi en hin sterka miðstjórn heimilaði. Þar er leninískt skipulag í fullu gildi. Þar er engin ástæða til þess að gera breytingar.

Það er vissulega ástæða til þess að nefna þetta þó svo að þetta mál falli ekki undir það frv. sem hér er verið að ræða og þó svo að hæstv. félmrh. hafi gefist upp við að reyna að fá þetta skipulag samþykkt á Alþingi. Af hverju er ástæða til að nefna þetta hér? Vegna þess að þetta var einn þátturinn í þeim hugmyndum sem ríkisstjórnin lagði fram á Alþingi um það hvernig hún vildi sjá endurskoðun á vinnumarkaðnum í heild, bæði vinnumarkaði opinberra starfsmanna og hinum almenna vinnumarkaði. Svona vildi hún sjá breytingarnar. Þetta var tilgangur ríkisstjórnarinnar og þó svo hún hafi verið hrakin til baka með einstaka þætti í fyrirætlunum sínum er hugurinn enn þá óbreyttur. Tilgangurinn sá hinn sami, markmiðið það hið sama, þ.e. ríkisstjórnin vill með lögum knýja fram eigin hugmyndir um hvernig hún vill helst sjá réttindi launafólks á vinnumarkaði. Viljinn til þess að knýja slíkt fram með lögum nær aðeins til þeirrar hliðar vinnumarkaðarins sem heitir stéttarfélög, þ.e. samtök launafólks, en henni er alveg sama þó að það sé í raun réttri aðeins tveir aðilar sem koma fram fyrir hina hliðina, þ.e. Vinnuveitendasambandið, sem hefur afl sitt í nokkrum herbergjum í Garðastræti og er þar miðstýrt með leninískri forræðishyggju, og ríkið, sem er í höndunum á hæstv. fjmrh. einum, að vísu af og til með afskiptum forsrh. þegar honum finnst ástæða til þess að láta sérstaklega til sín taka gagnvart sínum eigin fjmrh. þó svo að stærsta hlutverk forsætisráðherra í flestum þjóðfélögum og einnig hinu íslenska samkvæmt mínu viti eigi að vera að standa að baki fjármálaráðherra sínum. Sá forsætisráðherra sem gerir það ekki er til lítils nýtur en það er því miður ekki það sem við þekkjum hér. En látum það vera.

Herra forseti. Áður en ég vík að því frv. sem hér er um að ræða vildi ég gjarnan koma að einu atriði vegna þess að það varðar þessi mál einnig, þ.e. félagafrelsið hjá opinberum starfsmönnum, hvernig þeir eiga að standa að sínum málum. Það er þessi spurning sem er kannski ekki öllum ljós. Hvað kemur skipulag aðila vinnumarkaðarins félagafrelsi, samningsfrelsi og launakjörunum við? Það er vissulega áhyggjuefni að almenningur virðist í ríkara mæli farinn að hafa meiri áhyggjur af því að gripið sé til einhverra aðgerða sem skerða tímabundið það sem eftir verður í buddunni, þ.e. koma við veskið. Almenningur virðist farinn að hafa miklu meiri áhyggjur af einhverjum slíkum aðgerðum, sem skerða eitthvað launin á líðandi stund, fremur en aðgerðum sem beint er gegn réttindum þessa sama fólks til þess að taka höndum saman til að berjast fyrir launum sínum sem koma ekki fram á líðandi stundu í því sem eftir verður í buddunni en kemur í veg fyrir að þetta sama fólk geti hrundið af sér árásum sem ríkisstjórnir gera iðulega á kaup þess og kjör eða ná þeim markmiðum sem verkalýðshreyfingin hefur barist fyrir og náð að verulegu leyti. Það veldur mér áhyggjum hvað skilningurinn á þeim aðgerðum sem gerðar eru hverju sinni er bundinn því einu hvernig kemur það við budduna núna. Ef það kemur ekki við budduna akkúrat núna á líðandi stund hefur fólk ekki sérstakar áhyggjur af því.

Ástæða er til þess að benda á þetta vegna þess að þær aðgerðir sem hæstv. ríkisstjórn grípur til með því frv. sem liggur fyrir og þeim frumvörpum sem eru enn órædd eru einmitt þess eðlis að þar eru menn ekki e.t.v. í mjög miklum mæli að skerða þá fjármuni sem renna í buddu launafólks nákvæmlega á líðandi stund heldur eru menn að reyna að koma í veg fyrir að launafólk í landinu hafi sömu félagslegu stöðu og það hefur haft til þess að verjast slíkum atlögum í framtíðinni, til þess að sækja sér aftur það sem af launafólki kann að verða tekið af einni ríkisstjórn eða annarri. Við höfum öll gert okkur sek um að setja slík lög. Ég tel satt að segja, herra forseti, að svona afskipti séu miklu alvarlegri, líka fyrir budduna, heldur en þó að ríkisstjórn setji einhverjar aðgerðir í gang sem skerða tímabundið eitthvað af þeim fjármunum sem við höldum eftir í buddunni vegna þess að með aðgerðum eins og hér standa til er verið að breyta vegferð sem búið er að marka til framtíðar. Það er verið að koma endanlega í veg fyrir að verkalýðshreyfingin geti beitt sömu úrræðum og hafa getað gagnast henni á liðnum tíma.

Það vill svo vel til að hæstv. ríkisstjórn kom upp um sig í þeim orðum hæstv. félmrh. sem hann lét falla fyrr á þingi í vetur að það væri knýjandi nauðsyn á því að ná þessum málum í gegn núna og ástæðan væri sú að kjarasamningar væru lausir í haust og áður en sá ferill hæfist yrði að vera búið að breyta leikreglum. Þess vegna gat hæstv. félmrh. ekki beðið. Hann sagði: Þegar kjarasamningaferillinn hefst í haust verðum við að hafa breytt leikreglunum. Hvað segir þetta okkur, ágætu þingmenn? Þetta segir okkur að markmiðið með þessum breytingum þarf ekki endilega að vera að skerða laun launafólks á líðandi stundu heldur að setja nýjar reglur um samskipti aðila á vinnumarkaði, bæði á opinbera markaðnum og hinum frjálsa vinnumarkaði sem koma í veg fyrir að verkalýðshreyfingin geti beitt sömu úrræðum í kjarabaráttu sinni og hafa gagnast hingað til. Þegar menn telja upp úr buddunum sínum eftir áratug eða svo er ég ansi hræddur um það að slík breyting verði orðin dýr.

Hvað koma skipulagsmál á vinnumarkaði launakjörunum við? Getur breytt eða öðruvísi skipulag verkalýðshreyfingar, hvort heldur sem menn eru að tala um samtök opinberra starfsmanna eða samtök á hinum frjálsa vinnumarkaði, haft einhver áhrif á kjarabaráttu vinnufólks? Í því sambandi langar mig til að taka eitt dæmi.

Árið 1958 samþykkti þing Alþýðusambands Íslands nýjar tillögur um skipulag hreyfingarinnar. Þar var samþykkt að gera ráð fyrir því að ganga út frá hverjum vinnustað sem grunneiningu, þ.e. að vinnustaðarfélög væru grunneining, og síðan mynduðu vinnustaðarfélögin í sambærilegum atvinnurekstri með sér atvinnugreinasambönd á landsvísu sem ynnu síðan að kjarasamningamálum í samningum við gagnaðila. Hver var ástæðan fyrir því að Alþýðusambandið samþykkti þetta skipulag árið 1958?

(Forseti (RA): Nú er klukkan orðin eitt og ráðgert að gera hlé á fundinum til kl. 1.30. Ég vildi spyrja hv. ræðumann hvort hann kjósi frekar að ljúka ræðu sinni á einni mínútu eða svo eða vera áfram á mælendaskrá og verður þá fyrstur að taka til máls þegar fundur um þetta mál hefst að nýju kl. 3.)

Herra forseti. Það er örðugt fyrir mig að svara þeirri spurningu vegna þess að ég hef orðið þess áskynja að hv. formaður efh.- og viðskn. er enn ekki mættur svo að ég þarf að byrja á byrjuninni aftur. Ég held að ég neyðist þess vegna til að biðja um að nú verði gert hlé á ræðu minni en ég lofa engu um það að ég haldi áfram þar sem ég hér var kominn þegar ræðan hefst að nýju því að ef formaður efh.- og viðskn. skyldi vera mættur í salinn er ekki að vita nema ég þurfi að byrja á byrjuninni aftur.

[13:00]