Skýrsla um endurskoðun á útvarpslögum

Föstudaginn 10. maí 1996, kl. 13:32:33 (5876)

1996-05-10 13:32:33# 120. lþ. 135.91 fundur 298#B skýrsla um endurskoðun á útvarpslögum# (umræður utan dagskrár), SighB
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur

[13:32]

Sighvatur Björgvinsson:

Virðulegi forseti. Árið 1994 lagði þáv. menntmrh. Ólafur G. Einarsson fram frv. til laga um breytingu á útvarpslögum. Það var byggt á áliti nefndar undir forustu Tómasar Inga Olrich alþingismanns sem hafði unnið gaumgæfilegar athuganir á þeim málum, m.a. áttu í þeirri nefnd sæti fulltrúar tveggja svokallaðra sjálfstæðra útvarpsstöðva. Í niðurstöðu þessarar nefndar var m.a. fjallað um hvernig bregðast megi við þróun útvarpsmála erlendis, hver hlutdeild ríkisins ætti að vera í útvarpsrekstri, hvernig jafna mætti aðstöðu fjölmiðla um auglýsingar í ljósvakamiðlun, um dreifikerfi útvarps og um afnotagjöld.

Nú rösku ári síðar er nýr menntmrh. kominn fram á völlinn. Hann hefur kastað niðurstöðu fyrirrennara síns í ruslafötuna og leggur nú fram skýrslu starfshóps um endurskoðun á útvarpslögum sem gengur í þveröfuga átt við mörg inntaksefnin í fyrri skýrslu. Það eina sem er sameiginlegt með fyrri nefndinni og þeirri síðari er að einn maður hefur setið í þeim báðum, hv. þm. Tómas Ingi Olrich, og skrifar undir niðurstöður beggja skýrslnanna. Ja hérna.

Lítum aðeins á þá niðurstöðu sem nú er lögð fram og er gerólík þeim niðurstöðum sem áður voru lagðar fram og kynntar af hæstv. menntmrh. þáv., Ólafi G. Einarssyni. Í fyrsta lagi er nú lagt til að Ríkisútvarpið hverfi alveg af auglýsingamarkaði, auglýsingar í hljóðvarpi verði aflagðar eins fljótt og eðlilegt getur talist en sala auglýsingarýmis í sjónvarpi aflögð í þrepum. Það er lagt til að kostun á efni í ríkissjónvarpinu hverfi hið fyrsta. Lagt er til að felld verði niður sú skylda Ríkisútvarpsins að senda út til alls landsins. Lagt er til að sú meginregla gildi í rekstri Ríkisútvarpsins að starfsemi þess skuli aðeins bundin við þá þætti sem ekki verði unnir af öðrum. Lagt er til að dagskrárgerðardeild stofnunarinnar verði bannað að skuldbinda sig fram í tímann. Lagt er til að núverandi útvarpsráð verði lagt niður en þess í stað verði stjórnin sett undir fimm manna stjórn sem öll verði skipuð af pólitískum menntmrh., sem sé að stjórn útvarpsins verði alfarið færð undir pólitískan ráðherra. Það er sagt að ef aukin verði starfsemi svæðisútvarpa, verði rekstur móðurstofnunarinnar í Reykjavík að dragast saman að sama skapi. Lagt er til að hætt verði endurbyggingu Ríkisútvarpsins á langbylgjustöðvum á Gufuskálum og Eiðum. Lagt er til að stuttbylgjusendingum Ríkisútvarpsins verði hætt. Lagt er til að afnotagjöld verði lögð niður en tekinn upp nefskattur í staðinn. Flestallt af þessu er í algerri andstöðu við það sem að nefnd fyrrv. menntmrh. lagði til.

Á hverju byggjast þessar tillögur? Þær byggjast m.a. á efni sem kemur fram í viðauka og greinargerð og þar er margt kyndugt að sjá. Í fyrsta lagi rifja ég upp tillöguna um að leggja núverandi útvarpsráð niður en setja útvarpið í staðinn undir beina stjórn menntmrh. fyrir tilverknað fimm manna sem hann skipar. Þetta er sagt vera reist á athugunum á því hvernig málum er fyrir komið í öðrum löndum.

Lítum á bls. 25 um Sveriges Radio í Svíþjóð. Þar segir, með leyfi forseta: ,,Um eiginlegt útvarpsráð virðist ekki að ræða. Miðlarnir hafa þó einhvers konar yfirstjórn,`` er sagt þar.

Um stjórn Norsk rigskringkastning er sagt: ,,Þó að ríkisvaldið sé eini hluthafinn er stjórn fyrirtækisins valin á hluthafafundi en ekki er fullljóst hvernig fulltrúar eru valdir ...`` o.s.frv. Síðan segir: ,,Stjórnin virðist einhvers konar yfirrekstrarstjórn.``

Síðan er fjallað um Danmarks Radio og TV2 í Danmörku. Þar segir: ,,Við ritun þessarar skýrslu lágu ekki fyrir nákvæmar upplýsingar um útvarpsráð þessara miðla``.

Þetta eru upplýsingarnar sem byggt var á. Það er ekki verið að fullyrða mikið. Ef stjórn íslenska ríkisútvarpsins væri lýst með sama hætti, þá yrði lýsingin svona: Það virðist vera að á Íslandi sé Ríkisútvarpinu stjórnað af útvarpsráði og það eru líkur til að formaður þess heiti Gunnlaugur Sævar Gunnlausson. Ég spyr: Vanda menn ekki betur upplýsingaöflun sína en svona? Liggja virkilega engar upplýsingar fyrir í Danmörku, Svíþjóð og Noregi um hvernig stjórn ríkisútvarpsstöðva þar er fyrir komið eða skildu stuttbuxnadrengir Sjálfstfl. ekki hvað stóð í textanum? Af hverju er tekið svona til orða?

Virðulegi forseti. Ef við lítum nánar á þessa merkilegu skýrslu sem unnin er sem undirstaða að þeim tillögugerðum sem hér eru nefndar, þá skulum við aðeins fletta upp á bls. 10. Það er ágætt að staðnæmast þar. Þar er verið að bera saman fastráðna starfsmenn evrópskra ríkismiðla og fastráðna starfsmenn Ríkisútvarpsins á sambærilegum tíma og það á að sýna hversu illa sé staðið að verki hjá Ríkisútvarpinu. Vísvitandi er því sleppt að í báðum tilvikum er verulegur hluti starfseminnar unninn af verktökum. Í báðum tilvikum var um það að ræða að verktakar voru ýmist ráðnir að stofnununum úr hópi starfsmanna sem þannig fækkaði eða þá að verktakar sem áður höfðu verið utan stofnunarinnar en unnið í hennar þágu voru ráðnir sem starfsmenn. Því er sleppt. Samanburðurinn út í hött. En ég vek athygli á því að í þessum upplýsingum er ekkert sagt t.d. um þá niðurstöðu Ríkisendurskoðunar úr stjórnsýsluathugun hennar hjá stofnuninni, að afköst fréttadeildar Ríkissjónvarpsins stórjukust og útsendingartími frétta á sama tíma og kostnaður dróst stórlega saman. Hver er sá formaður útvarpsráðs sem stingur slíkum upplýsingum um sína eigin stofnun undir stól? Er það nú metnaður formanns útvarpsráðs fyrir hönd stofnunarinnar sem hann á að stýra eða hitt þó heldur.

Ef við kíkjum betur á þennan pappír, þá eru gefnar þær upplýsingar á síðu 9 að samkvæmt upplýsingum frá Stöð 2 greiddu um 46 þúsund sjónvarpsheimili áskrift í desember. Þar að auki liggur fyrir að auglýsingatekjur Stöðvar 2 eru um 300 millj. kr. Með öðrum orðum, árlegt ráðstöfunarfé Stöðvar 2 samkvæmt þessu eru 2,1 milljarður kr. á sama tíma og árlegt ráðstöfunarfé ríkissjónvarpsins er 1.760 millj. kr. þegar allt er lagt saman. Formaður útvarpsráðs spyr ekki: Hvernig stendur þá Stöð 2 sig í innlendri dagskrárgerð miðað við ríkissjónvarpið, þegar ráðstöfunarfé er svona miklu meira? Hvaða hagsmuni er verið að verja, virðulegi forseti?

Við skulum kíkja á það sem segir um þá ákvörðun að fella niður stuttbylgjusendingar íslenska ríkisútvarpsins. Það er á bls. 14. Þar er sagt: ,,Könnunin náði til 350 einstaklinga, íslenskra ríkisborgara, víða um heim. Könnunin var gerð með hætti að öllum þeim sem skráð höfðu netföng sín á hinn svokallaða Íslandspóstlista á Internetinu voru sendar spurningar ... og þeim boðið að tjá skoðun sína.``

Hvaða menn eru þetta? Þetta eru þeir sömu og hafa aðgang í gegnum Internetið að Morgunblaðinu og textafréttum sjónvarpsins og þurfa ekkert á stuttbylgjuútsendingum að halda. Þeir eru spurðir. En það gleymdist að spyrja einnar lykilspurningar þegar afstaða þessara manna var könnuð. Hver er sú? Eigið þið stuttbylgjutæki? Mennirnir voru aldrei spurðir að því. Þeir voru bara spurðir: Hlustið þið á stuttbylgjuútvarp? Þetta er svipað og ef menn réðust í könnun á áhorf á sjónvarpsefni Stöðvar 2 og Ríkisútvarpsins og spyrðu menn sem ættu ekki sjónvarpstæki og ætluðu sér að taka mark á þeirri niðurstöðu. En ég spyr: Voru 600 sjómenn á Reykjaneshrygg spurðir um það hvort þeir hlustuðu á stuttbylgjusendingar íslenska útvarpsins? Nei, þeir voru ekki spurðir. Hvernig halda menn að svarhlutfallið yrði þar hjá 600 sjómönnum? Hvers konar ruglugangur er þetta? Þetta eiga að heita vísindalegar aðferðir til þess að undirbyggja skynsamlegar niðurstöður.

Hvað segir síðan? Það segir að það eigi að leggja niður framkvæmdir við uppbyggingu langbylgjusenda í Gufunesi og á Eiðum sem hafi verið í eigu bandaríska hersins. Hvenær komst langbylgjumastur á Eiðum í eigu bandaríska hersins, virðulegi menntmrh.? Það mastur var byggt árið 1938, löngu áður en bandaríski herinn kom hingað til lands. Hvernig stendur á því að stuttbuxnadeild Sjálfstfl. heldur að bandaríski herinn eigi þetta allt? Hvenær fékk bandaríski herinn langbylgjumastrið á Eiðum að gjöf? Ég vissi ekki betur en það væri í eigu íslenska ríkisins. Og hvað segir þetta lið síðan um þá ákvörðun að leggja niður útsendingar með langbylgju frá Gufunesi? Þeir segja: Þetta er ekkert öryggisatriði. Þetta skiptir engu máli. Þetta er ekki það öryggisatriði sem menn halda. --- Hvenær var ákvörðunin tekin um að endurbyggja langbylgjumastrið á Gufunesi? Hún var tekin af ríkisstjórn Davíðs Oddssonar samkvæmt tillögum Davíðs Oddssonar rétt eftir snjóflóðaslysið á Flateyri. Þá hafði hæstv. þáv. menntmrh. margoft flutt tillögu um það í ríkisstjórninni að langbylgjunetið yrði byggt upp aftur vegna þeirra miklu öryggishagsmuna sem þar er um að tefla.

Ein af tillögum forsrh. eftir snjóflóðaslysið á Flateyri var að skuldbinda ríkissjóð um 200 millj. kr. tafarlaust til þess að byggja upp langbylgjumastrið á Gufunesi. Síðan kemur einhver stuttbuxnastrákur úr Sjálfstfl. og segir þetta bara allt rugl, að það sé ekkert vit í þessari tillögu forsrh. Davíðs Oddssonar um að hefjast handa um þessa framkvæmd og skuldbinda ríkið upp á 200 millj. vegna hennar út af öryggishagsmunum. Svona eru vinnubrögðin í þessari skýrslu. Hún er ekkert innanhúsplagg Sjálfstfl. þó hún sé blá á litin. Hún er gefin út af menntmrn. og unnin af menntmrh. í ríkisstjórn tveggja stjórnarflokka.

Hæstv. menntmrh. hefur sagt að margt í þessari skýrslu sé eins og talað út úr hans hjarta. Ég spyr: Hver eru þau atriði? Ég spyr hæstv. menntmrh.: Hvernig á framgangur þessa máls svo að vera? Er þetta hans stefna? Er þetta stefna ríkisstjórnarinnar? Hvernig á að fara með þessa vitlausu skýrslu stuttbuxnadeildarinnar úr Sjálfstfl.?