Skýrsla um endurskoðun á útvarpslögum

Föstudaginn 10. maí 1996, kl. 14:17:27 (5880)

1996-05-10 14:17:27# 120. lþ. 135.91 fundur 298#B skýrsla um endurskoðun á útvarpslögum# (umræður utan dagskrár), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur

[14:17]

Hjálmar Árnason:

Virðulegi forseti. Nú munu vera um það bil 20 ár síðan frú Margrét Thatcher komst til valda í Bretlandi og hefur flokkur hennar setið þar linnulaust síðan. Þar er óhætt að segja að upp hafi verið brettar ermar, virðulegi þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir og ákvarðanir ýmsar þeirrar ríkisstjórnar hafa verið umdeildar. Sumar breytingar á ríkisrekstri þar virðast hafa heppnast vel en aðrar mjög umdeildar svo ekki sé meira sagt. Hitt vekur þó athygli að á þessum tíma hefur breska þjóðin að meðtöldum íhaldsmönnum verið sammála um að mynda skjaldborg utan um breska ríkisfjölmiðilinn BBC. Þessi staðreynd er athyglisverð í ljósi þeirra tillagna sem liggja fyrir í þeirri skýrslu sem hér er til umræðu.

Svo virðist sem tillaga nefndarinnar sé sú að minnka fjárveitingar til Ríkisútvarpsins, draga að flestu leyti úr umsvifum þess hvort heldur er til dagskrárgerðar, fréttaþjónustu, öryggismála eða dreifingar. Það er með öðrum orðum verið að varpa upp hugmyndum sem frú Margrét Thatcher virðist ekki einu sinni hafa komið í hug.

Hér er vitaskuld um mjög pólitískt mál að ræða og verður örugglega tekist á um núna næstu mánuði og markar umræðan í dag væntanlega upphaf þeirrar vinnu. Umrædd skýrsla hefur þar af leiðandi sannað gildi sitt sem ágætur umræðugrundvöllur og útgangspunktur. Á fáeinum mínútum gefst ekki svigrúm til þess að skoða einstaka liði hennar nákvæmlega en ég leyfi mér að lýsa yfir ákveðnum efasemdum við ýmsar þær forsendur sem skýrsluhöfundar gefa sér. Ég nefni tvær.

Sterklega er gefið í skyn að rekstur Ríkisútvarpsins á Íslandi sé óeðlilega dýr. Ef við skoðum saman rekstur nokkurra annarra sjónvarpsstöðva erlendis kemur í ljós að klukkutími í útsendingu í breska ríkissjónvarpinu BBC er rúmar 5 millj. kr. Í danska og sænska sjónvarpinu er sambærilegur kostnaður um 3 millj. kr. Og hverjar skyldu sambærilegar tölur vera í íslenska sjónvarpinu? Um það bil 300 þús. kr. á klukkustund eða 10 sinnum lægri en í Danmörku og Svíþjóð. Það finnst mér hæpin forsenda.

Í annan stað er bent á sem veikleika í ríkisútvarpi á Íslandi að fjölgun mínútna, þ.e. aukning í útsendingu hefur verið að meðaltali lægri hér á landi en í öðrum Evrópuríkjum. Það finnst mér vægast sagt hæpin forsenda því að ég bendi á að Rás 2 útvarpar nú þegar 24 tíma á sólarhring og sé því ekki hvar mætti koma fyrir aukningu í útsendingu. Fleiri dæmi af svipuðum toga mætti nefna en verður að bíða betri tíma. Þó vil ég nefna að í skýrslunni er talað um að þjóðhagslega hagkvæmt geti verið að fela einkaaðilum tiltekna þætti í útvarpinu. Þá vil ég spyrja: Af hverju þá ekki að ganga skrefið til fulls og leggja Ríkisútvarpið niður því að þar kunna að sparast miklir peningar? En þá verðum við að spyrja: Hvað tekur við? Hverju erum við þá að sleppa? Það eru mörg víti að varast.

Nú vil ég nefna dæmi af einni sjónvarpsstöð starfandi á Íslandi. Frá því að hún opnaði hefur hún ekki sýnt eina einustu mínútu af íslensku efni. Það sem er meira, hún sýnir grófara ofbeldi en nokkru sinni hefur sést í íslenskri sjónvarpsstöð. Ég nefni enn fremur að þessi sjónvarpsstöð sýnir grófara klám en nokkru sinni hefur sést í íslensku sjónvarpi. Ég nefni þetta vegna þess að það mál er mjög alvarlegt, svo alvarlegt að ég vil skora á hæstv. menntmrh. að beita sér í krafti embættis síns til þess að athugað verði hvort slíkt hátterni í sýningum er löglegt, til varnar íslenskum börnum.

Skilji samt enginn orð mín svo að ég leggist gegn einkastöðvum í fjölmiðlun. Við höfum til allrar hamingju ánægjuleg dæmi um metnaðarfulla og vel heppnaða dagskrárgerð í fjölmiðlum þar sem er t.d. Stöð 2 og Bylgjan. Með tilkomu þeirra útvarps- og sjónvarpsstöðva skapaðist hæfileg, eðlileg og tímabær samkeppni við Ríkisútvarpið og Ríkisútvarpið tók við sér til allrar hamingju. Við verðum að átta okkur á því að ríkisútvarp gegnir öðrum skyldum en einkastöðvar geta nokkru sinni axlað. Hagnaðarvonin rekur og á að reka þær til verka og er ekkert nema gott um það að segja. Hins vegar eru ýmsir þættir sem geta aldrei rúmast innan lögmála markaðarins, m.a. af því að þeir munu aldrei skila hagnaði. Þar koma til skyldur ríkisins gagnvart þegnum sínum. Þar er hin lýðræðislega skylda ríkisins, nefnilega sú skylda að halda uppi þeim fjölbreytileika sem einkennir mannlífið, gefa öllum hópum kost á að láta til sín heyra, gefa öllum hópum færi á að njóta menningarefnis, jafnvel þó fámennir séu. Þannig hefur einmitt fjölbreytileikinn og trúverðugleikinn verið aðalsmerki Ríkisútvarpsins og þjóðin sátt við þann fjölbreytileika af því að hann er lýðræðislegur, hefur einkenni umburðarlyndis og er óháður hagnaðarvon. Ég minni á að Ríkisútvarpið hefur löngum verið talinn öflugasti háskóli þjóðarinnar með öllum sínum fjölbreytileik.

Aldrei finnur maðurinn jafnmikið til smæðar sinnar eins og þegar náttúruhamfarir bresta á. Við minnumst sorglegra atburða vestan af fjörðum frá sl. vetri. Þá kom í ljós hversu illa er búið að Ríkisútvarpinu í öryggsmálum. Mér sýnist vera fetað inn á svipaðar slóðir í umræddri skýrslu. Ég mun aldrei geta fallist á hringlandahátt með öryggishlutverk Ríkisútvarpsins. Þjóðin ætlast til þess að það standi sig á slíkum stundum og það fjöregg skulum við ekki bregða á leik með. Í nefndinni er lagt til að útvaprsráð verði lagt niður og komið á koppinn fimm manna rekstrarstjórn skipaðri af einum og sama aðila, ráðherra. Þá er ráðherra ætlað að veita rekstrarleyfi til nýrra útvarpsstöðva og í nefndartillögunum er ekki gert ráð fyrir neinni takmörkun á eignaraðild einkastöðva. Þetta þýðir m.a. að einn aðili getur ráðið örlögum fjölmiðla heillar þjóðar. Þetta þýðir líka að einn fjársterkur aðili getur eignast fjölmiðla landsins. Það er í mótsögn við grundvallaratriði lýðræðisins. Hins vegar höfum við dæmi um það hvernig pólitísk afskiptasemi útvarpsráðs hefur skaðað innra starf útvarpsins.

Herra forseti. Í uppsiglingu er mikil átakavinna um framtíð Ríkisútvarps og sjónvarps á Íslandi, endurskoðun útvarpslaga er þörf. Það er spennandi vinna fram undan þar sem er tekist á um pólitísk ágreiningsefni en umræðan mun snúast fyrst og síðast um metnaðarfulla fjölmiðlun og menningarlega fjölmiðlun á Íslandi. Hvernig verður henni best fyrir komið í ríkisfjölmiðlum og einkastöðvum þannig að öll þjóðin geti notið en ekki bara takmarkaður hluti hennar?