Skýrsla um endurskoðun á útvarpslögum

Föstudaginn 10. maí 1996, kl. 14:37:50 (5883)

1996-05-10 14:37:50# 120. lþ. 135.91 fundur 298#B skýrsla um endurskoðun á útvarpslögum# (umræður utan dagskrár), SJóh
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur

[14:37]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Skýrsla starfshóps á vegum menntmrh. um útvarpslög vekur óneitanlga athygli, ekki síst vegna þess hversu einsleitur þessi starfshópur er. Einhvern veginn finnst mér að áherslan hafi öll legið á eindrægnina innan hópsins og ég sé einnig á niðurstöðunni að hún hefur ekki brugðist.

Það þarf engan að undra þó hrekklausir framsóknarmenn komi alveg af fjöllum þegar þeir verða vitni að vinnubrögðum menntmrh. við framkvæmd þeirra háleitu markmiða sem fram komu í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í menningarmálum. Í Morgunblaðinu 4. maí sl. er haft eftir hv. þingflokksformanni þeirra, Valgerði Sverrisdóttur, að þessar hugmyndir starfshóps um endurskoðun komi þeim í opna skjöldu. Þingflokksformaðurinn sagði einnig að þingmenn Framsfl. hefðu ekkert vitað um vinnu starfshópsins sem menntmrh. skipaði til að endurskoða útvarpslögin. Hér þarf enginn að ganga þess dulinn hverjir eru húsbændur og hverjir hjú í hæstv. ríkisstjórn. Slíkt er til mikillar hagræðingar á stjórnarheimilinu. Enginn er með derring, enda heldur hv. þingflokksformaður áfram samkvæmt Morgunblaðinu 4. maí, með leyfi hæstv. forseta:

,,Við munum auðvitað taka þátt í þeirri vinnu sem hlýtur að vera fram undan og reyndar hefur menntmrh. þegar óskað eftir að við skipum fólk í nefnd sem ætlað er að móta frekari tillögur. Það hefði þó verið að mörgu leyti einfaldara að vinna að málinu ef við hefðum komið fyrr að því.``

Hér er ekki uppivöðslusemin og ekki ráðríkið. Hitt er aftur á móti misskilningur hjá hv. þingflokksformanni að samráð sé einfaldara. Það hefur nefnilega birst með átakanlegum hætti í öðrum málum sem liggja fyrir Alþingi að ekkert lætur hæstv. ríkisstjórn eins illa og samráð. Og mikið þarf að halda af samráðsfundum ef á að takast að sætta framsóknarmenn fullkomlega við tillögurnar ef marka má orð talsmanns Framsfl. hér á undan, hv. þm. Hjálmars Árnasonar, 7. þm. Reykn.

Eitt meginmarkmiðið með tillögum nefndarinnar er að svipta Ríkisútvarpið bæði auglýsinga- og afnotagjöldum, leggja niður þann þátt í tekjuöflun sem fellur undir hugtakið kostun og sem gildir um sjónvarpsmyndir og sjónvarpsþætti. Ríkisútvarpið á með öðrum orðum að verða með öllu háð fjmrh. um tekjur. Verði Ríkisútvarpið svipt þeim tekjum sem hafa veitt því þó það sjálfstæði sem það hefur haft jafngildir það yfirlýsingu þess efnis að Ríkisútvarpið mætti eins leggja niður. Skýrsla starfshópsins greiðir ekki fyrir umræðum um Ríkisútvarpið. Þvert á móti gæti skýrslan orðið til að tefja fyrir nauðsynlegum úrbótum.