Skýrsla um endurskoðun á útvarpslögum

Föstudaginn 10. maí 1996, kl. 14:52:09 (5887)

1996-05-10 14:52:09# 120. lþ. 135.91 fundur 298#B skýrsla um endurskoðun á útvarpslögum# (umræður utan dagskrár), StB
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur

[14:52]

Sturla Böðvarsson:

Virðulegi forseti. Samkeppni í útvarps- og sjónvarpsrekstri var nauðsynleg og ég tel að hún hafi sannað sig m.a. í þeirri miklu og öru þróun sem hefur orðið á Íslandi í fjölmiðlum. Ég vona svo sannarlega að sú samkeppni leiði áfram til þess að útvarps- og sjónvarpsstöðvarnar batni.

Allar breytingar á útvarpslögum verður að gera í ljósi þeirrar sérstöðu að mínu mati sem Ríkisútvarpinu er ætluð án þess þó að ganga á rétt hinna frjálsu útvarpsstöðva og sjónvarpsstöðva sem vissulega verður að gera miklar og skýrar kröfur til.

Skýrslan sem hér er til umræðu er mikilvægt innlegg í þá umræðu sem ég tel nauðsynlegt að fari fram um löggjöfina og um rekstur útvarps- og sjónvarpsstöðva áður en til þess kemur að fyrir Alþingi verði lagt frv. til laga sem felur í sér miklar og róttækar breytingar á þessari löggjöf og þá sérstaklega hvað varðar ríkisfjölmiðlana.

Ég vil eins og hér hefur komið fram hjá öðrum minna á þá skýrslu sem Ríkisendurskoðun sendi frá sér um Ríkisútvarpið og sjónvarpið. Ég tel að hún hafi verið mjög mikilvægt innlegg í alla þessa umræðu og mér sýnist að þær hugmyndir sem koma fram hjá starfshópnum falli að nokkru leyti í þann farveg sem þar er bent á. En ég vil lýsa því yfir að ég tel að það eigi að breyta afnotagjöldunum í nefskatt og spara þar með þá innheimtu sem fylgir og er unnin af innheimtustofnun á vegum sjónvarps og útvarps.

Ég tel engu að síður að það verði að gæta þess að í það minnsta verði þrír meginþættir tryggðir í löggjöf. Það er í fyrsta lagi að útvarps- og sjónvarpsstöðvarnar sinni því að gæta og verja hina íslensku menningu. Það verði tryggt að sjónvarps- og útvarpsstöðvarnar geti sinnt öryggisþættinum og almannavarnaþættinum sem er geysilega mikilvægur í okkar strjálbýla landi með hina löngu og erfiðu strönd. Í þriðja lagi verður að tryggja að stöðvarnar hafi ekki möguleika á því fyrirvaralaust að læsa inni dagskrá sem verður að gera ráð fyrir að geti gengið til allra landsmanna, eins og gerðist fyrir stuttu með ensku knattspyrnuna. Við verðum að reikna með því að sú krafa sé uppi að ríkissjónvarpið og Ríkisútvarpið nái til allra landsmanna. Það er grundvallaratriði sem ég vil undirstrika í þessari umræðu.