Skýrsla um endurskoðun á útvarpslögum

Föstudaginn 10. maí 1996, kl. 14:55:26 (5888)

1996-05-10 14:55:26# 120. lþ. 135.91 fundur 298#B skýrsla um endurskoðun á útvarpslögum# (umræður utan dagskrár), ÁJ
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur

[14:55]

Árni Johnsen:

Virðulegi forseti. Ég var að velta því fyrir mér hvers vegna hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson tók sérstaklega á því að hv. þm. Sighvatur Björgvinsson hefði gert heiðarlega tilraun til þess að spyrja menntmrh. um gang mála. Það er kannski vegna þess að ýmis atriði stjórnarandstæðinga í þessari umræðu hafa verið mjög ómálefnaleg.

Það er af hinu góða að ræða mál Ríkisútvarpsins opinskátt og hispurslaust og ágætt að gera það á þeim grunni sem sú skýrsla sem hér er rædd býður upp á. Ég er ekki sammála öllu í skýrslunni og mjög ósammála sumu en hún er góð til umræðu. Það er um að gera að leggja spilin á borðið, brydda upp á nýjum hugmyndum og til þess á að ætlast af þeim sem semja slíka skýrslu að þeir opni dyr til margra átta.

Sumt er úrelt í rekstri Ríkisútvarpsins og sumt gengur of langt í daglegum rekstri, svo sem litun frétta án þess að farið sé nánar út í þá sálma. En Ríkisútvarpið er mikilvægur þáttur í íslenskri menningu og er sameign þjóðarinnar. Fólkið í landinu lítur á Ríkisútvarpið sem sameign og ber ábyrgð á því að því leytinu til. Ríkisútvarpið er eitt af helstu ankerum íslenskrar menningar og við skulum rækta það í stíl við það. Það er því gott að fá snarpa umræðu um málið.

Mig langar að ræða lítillega þrjú atriði sem ég er ósammála í skýrslunni. Í fyrsta lagi tel ég út í hött að nefna það að fresta eða draga af uppsetningu langbylgjunnar í Gufuskálum. Það er mál sem er mjög brýnt og engin rök fyrir því í skýrslunni að leggja það niður. Það er sagt í skýrslunni að það sé minnkandi ástæða til þess og í öðru lagi er sagt að í eðli sínu sé langbylgjukerfið viðkvæmt og geti farið halloka í ilviðrum. Þetta eru engin rök. Það eru a.m.k. 10--15 ár þangað til hugsanlega kemur fram tækni sem getur leyst af verkefni langbylgjunnar. Langbylgjan sem öryggi og tenging hennar um allt landið er mikilvægur þáttur sem þarf að hlúa að.

Auglýsingar eru að mínu mati einn af grunnþáttunum í starfi og rekstri útvarpsins og á að tryggja að svo verði áfram í eðlilegri samkeppni við aðra aðila í íslenskum fjölmiðlum. Það er grundvallaratriði að mínu mati að efla innlenda dagskrárgerð, bæði í Ríkisútvarpi og sjónvarpi og ég vil hvetja hæstv. menntmrh. til þess að sem fyrst fari þessar stofnanir undir eitt og sama þakið í húsi Ríkisútvarpsins.

Þetta eru þau atriði sem ég vildi leggja áherslu á. Hæstv. menntmrh. hefur sagt, herra forseti, að það eigi að tryggja framtíð Ríkisútvarpsins í eðlilegri samkeppni og ég vil taka undir það.