Skýrsla um endurskoðun á útvarpslögum

Föstudaginn 10. maí 1996, kl. 15:01:56 (5890)

1996-05-10 15:01:56# 120. lþ. 135.91 fundur 298#B skýrsla um endurskoðun á útvarpslögum# (umræður utan dagskrár), SighB
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur

[15:01]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Árna Johnsen sem lýsti því yfir að það væru engin rök fyrir helstu niðurstöðum í skýrslunni. Ég vil þakka hv. þm. Hjálmari Jónssyni fyrir að tjá sig ekki um málið því að ég túlka það svo að hann standi við það álit sitt sem hann undirritaði fyrir einu og hálfu ári sem gengur gegn niðurstöðum skýrslunnar. Ég vil þakka hv. þm. Tómasi Inga Olrich fyrir að halda sig fjarri umræðunni því að hann átti sæti í báðum nefndunum og er orðinn ósammála sjálfum sér. Ég þakka hæstv. forseta, Ólafi G. Einarssyni, sem ekki hefur tjáð sig í þessari umræðu því að ég lít svo á að það þýði að hann hafi ekki skipt um skoðun og haldi enn að það sé nauðsynlegt öryggisatriði fyrir íslensku þjóðina að byggja upp langbylgjusendi. Ég vil þakka þeim þingmönnum sem hér hafa komið fram eins og þingmönnum Framsfl. og leitt það í ljós að hæstv. menntmrh. er búinn að mála sig út í horn í málinu og situr þar næstum einn og yfirgefinn, búinn að girða í kringum sig með stólum eins og sjá má, hæstv. forseti.

Virðulegi forseti. Hæstv. menntmrh. svaraði ekki spurningum mínum. Hann sagði hins vegar: Í þessum tillögum eru skynsamlegar skoðanir, og það er einmitt mergurinn málsins. Fyrri skýrslu fyrrv. menntmrh. var hent, ekki vegna þess að hún væri illa unnin, heldur vegna þess að núv. menntmrh. taldi að þar kæmu ekki fram nógu skynsamlegar skoðanir. Sú skýrsla sem hér um ræðir er unnin á þeim grundvelli, skoðanirnar fyrst, rökstuðningurinn á eftir. Skoðanirnar fyrst, rökstuðningurinn á eftir og það sér hver sá maður sem les rökstuðninginn með skýrslu nefndarinnar og sér hversu illa hann er unninn. Hvernig geta menn notað það fyrir rök um breytta stjórn Ríkisútvarpsins að menn haldi eða telji eða álíti sennilegt að málin séu svona eða hins veginn í nágrannalöndunum án þess að hafa fyrir því að afla upplýsinga? Hvernig eru það rök fyrir því að hætta stuttbylgjusendingum að snúa sér til manna sem allir hafa tengingu á Interneti og beint samband við stærstu fjölmiðla þjóðarinnar og geta leitað sér upplýsinga þar fyrirhafnarlítið án þess að spyrja þá: Hlustið þið á stuttbylgjusendingar Ríkisútvarpsins og vita ekki einu sinni hvort viðkomandi eiga tæki til að taka á móti þeim eða ekki? Af hverju voru sjómennirnir ekki spurðir sem nota þetta næstum því daglega við vinnu sína? Hvernig getur maður látið hjá líða að gagnrýna rökstuðning sem er fólginn í því, svo ég nefni nýtt dæmi, að tekin er eina niðurstaða skoðanakönnunar sem hægt er að finna, þar sem áhorf á Stöð 2 reyndist meira en áhorf á ríkissjónvarpið og það notað sem rökstuðningur fyrir því að ríkissjónvarpið standi sig ekki? Hvernig er annað hægt en að mótmæla skoðunum sem byggðar eru á rökum um að það þurfi að fylgja í kjölfar þróunar erlendis, en þær upplýsingar sem vitnað er til um þróun erlendis eru frá 5--10 ára gamlar. Hefur ekkert skeð á síðustu 5--10 árum? Hvernig er annað hægt en mótmæla skoðunum sem byggðar eru á röksemdum af þessu tagi og hverjar eru þær skoðanir sem hér koma fram að hætta eigi þeirri þjónustu Ríkisútvarpsins við áhorfendur og hlustendur að birta auglýsingar, að hætta eigi að útvarpa stuttbylgjusendingum til sjómanna, að hætta eigi að byggja upp langbylgjusendimöguleikana sem að áliti forsrh. og þáv. menntmrh. var öryggisatriði sem varð að grípa til tafarlaust eftir snjóflóðaslysið á Flateyri? Hvernig er hægt að fallast á rök um að það eigi að hætta, fella niður ekki þá skyldu Ríkisútvarpsins heldur þau réttindi landsmanna allra að geta hlustað á útvarp og síðan sjónvarp án tillits til þess hvar þeir búa á landinu? Þetta eru skoðanir sem hæstv. menntmrh. telur skynsamlegar, en getur enginrök fært fyrir vegna þess að skoðanirnar voru settar fram fyrst og rökin á eftir.

Hæstv. menntmrh. byrjaði á því þegar hann smíðaði far sitt að gera neglugatið og ætlaði sér að reisa kjölinn síðast. Þannig ætlar hann að byggja sitt far. Það hvílir nú skuggi yfir Ríkisútvarpinu. Þeim skugga hefur hæstv. menntmrh. varpað yfir stofnunina með þessari pólitísku skýrslu. Alþingi verður að blása þeim skugga burt.