Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Föstudaginn 10. maí 1996, kl. 15:46:40 (5894)

1996-05-10 15:46:40# 120. lþ. 135.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur

[15:46]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Pétur Blöndal lenti ekki í neinum vandræðum með að reikna út hvernig ætti að bæta honum, mér og okkur hinum afnám sérréttinda okkar í lífeyrismálum. Ég trúi því varla að hann sé ekki það snjall stærðfræðingur að hann geti áttað sig á því að allar réttindaskerðingar á kjörum opinberra starfsmanna, hvort heldur það eru biðlaun eða annað, hljóta að verka sem kjaraskerðingar. Vill hv. þm. kannski halda því fram að þær aðgerðir sem verið er að gera í þessu frv. séu til þess ætlaðar að bæta kjör opinberra starfsmanna? Hann hlýtur að vera mér sammála um að þetta eru aðgerðir sem eru gerðar til þess að rýra kjör þeirra, til þess að draga niður réttindi sem þeir hafa nú. Það getur vel verið að það sé erfitt að reikna nákvæmlega út í prósentum hvað það þýðir. En það breytir ekki því að söm er sú gerð.

Ég get aðeins vísað honum á þá dóma sem fallið hafa í þessu efni og beðið hann um að spyrja þá sem hafa fengið dæmd biðlaun eða aðrar skaðabætur sem ríkið hefur neitað að greiða en fólkið átt rétt á, hvað þeir telji að þessi réttindi hafi numið miklum fjárhæðum eða miklum hluta launa viðkomandi. Það er í mörgum tilvikum ekkert smáræði þannig að það er auðvitað alveg ljóst, herra forseti, að hv. þm. er að taka þátt í að skerða réttindi sem hann eins og ég veit að eru peninga virði því að allt sem veitir einhverjum réttindi sem geta kallað á greiðslu síðar eru peninga virði. Það veit enginn maður betur en sá sem hefur höndlað jafnmikið með peninga og verðmæti og þessi hv. þm.