Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Föstudaginn 10. maí 1996, kl. 18:37:33 (5905)

1996-05-10 18:37:33# 120. lþ. 135.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 135. fundur

[18:37]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. flutti snarpa, stutta ræðu, tvo og hálfan klukkutíma og kom víða við. Í síðasta hluta ræðu sinnar kom hann að þessu frv. sem er til umræðu, réðist þar m.a. á 20. gr. frv. sem er samhljóða og 34. gr. gildandi laga. Þá ræddi hann um 12. gr. frv. um veikinda- og barnsburðarleyfi og taldi að þar mundu gerast miklar breytingar yrði þetta frv. samþykkt. Ég vil láta það koma fram enn á ný, sem ég hef reyndar gert líklega fjórum sinnum í þessari umræðu, að svo er ekki. Það er held ég alveg skýrt fyrir þá sem lesa frv. En það er kannski ástæða að geta þess að í núgildandi lögum segir einungis í 17. gr. og það er allt og sumt:

,,Ákveða skal með reglugerð hvernig fari um launagreiðslur til starfsmanna í veikindaforföllum, svo og til kvenna í fjarvistum vegna barnsburðar.`` Þetta er það eina sem segir í núgildandi lögum þannig að þetta hangir á reglugerð og sú reglugerð mun gilda þar til annað verður ákveðið, annaðhvort í kjarasamningum eða með lögum. Og þetta hefur þá þýðingu að lög gilda framar reglugerðum og það er minnst á kjarasamninga og varla geta menn verið á móti því að semja um sín kjör. Þetta ætti því að vera alveg skýrt.

Varðandi framgangskerfið, þá er það alveg sérstakt mál. Það hangir ekkert á þessu frv. sem við erum að ræða hér, tel ég. Það verður hlustað á háskólamenn. Það er hins vegar rétt sem kom fram að þeir hafa ekki talað mjög skýrt í þessu máli og einni röddu. En ég tel að það sé engin ástæða til annars en að viðhalda framgangskerfinu, þar á meðal á milli dósents og prófessors, ef háskólinn vill gera það. Þá þarf það að gerast í sérstökum lögum og ég efast um að bandormurinn verði afgreiddur á þessu þingi.

Þótt ég eigi ekki að vera að verja OECD vil ég minna hv. þm. á að lífskjörin eru þó best í þeim löndum sem eru í OECD og í vaxandi mæli hefur verið hlustað á umhverfisboðskap þessara samtaka, sérsaklega DAC eða Developement Assistance Committee hjá þessum samtökum sem við eigum reyndar ekki aðild að. Það er sívaxandi skilningur í heiminum, einkum á meðal fátækustu þjóðanna, að það ber að reyna að ná og nýta einkaframtakið meira en gert hefur verið, einkafjármagnið, einkafjárfestingar til þess að byggja upp atvinnulíf og bæta lífskjör. Og grundvallaratriðin eru frjáls viðskipti milli þjóða, svo að ég tali tungumál sem gamall sósíalisti hlýtur að skilja.