Úrvinnsla úr skattskrám

Mánudaginn 13. maí 1996, kl. 15:08:45 (5915)

1996-05-13 15:08:45# 120. lþ. 136.1 fundur 301#B úrvinnsla úr skattskrám# (óundirbúin fsp.), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur

[15:08]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem kom fram hjá hv. þm. að fyrir nokkru urðu umræður vegna reglugerðar sem sett hafði verið á grundvelli niðurstöðu tölvunefndar sem fer með þessi mál samkvæmt lögum.

Ég get upplýst hér að sú skoðun sem þá var lofað er á lokastigi og ég á von á því að á allra næstu dögum, hugsanlega á morgun eða hinn daginn, ætti að vera hægt að gera þinginu grein fyrir því hver afstaða ráðueytisins verður.

Í fyrsta lagi er gengið eftir því hvort tölvunefnd hefur breytt afstöðu sinni. Í öðru lagi kemur til greina að breyta reglugerðinni og ég á fremur von á því að það verði gert. Ég get hins vegar ekki hér og nú svarað því mjög skýrt hvort nauðsynlegt er að breyta lögunum til þess að eðlileg birting geti átt sér stað því að þá þarf ég auðvitað að geta svarað þeirri spurningu hvað sé eðlileg birting. Ég vil því gjarnan fá að bíða með það að lýsa yfir afstöðu minni þar til niðurstaða liggur fyrir í málinu en það á að geta orðið á allra næstu dögum.