Orkustofnun

Mánudaginn 13. maí 1996, kl. 15:12:16 (5918)

1996-05-13 15:12:16# 120. lþ. 136.1 fundur 302#B Orkustofnun# (óundirbúin fsp.), SvG
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur

[15:12]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Snemma á þessu ári lýsti hæstv. iðnrh. því yfir að hann vildi hlutafélagavæða Orkustofnun. Það mál hefur hins vegar aldrei verið rætt í þessari stofnun og ég vildi leyfa mér að byrja á því að spyrja hæstv. iðnrh. hvaða rök eru fyrir því að það sé nauðsynlegt að gera Orkustofnun að hlutafélagi?

Þegar hæstv. iðnrh. hafði komist að þessari niðurstöðu skrifaði hann bréf og hótaði því að ríkið mundi hætta þátttöku í orkurannsóknum ef þau fyrirtæki sem í hlut áttu samþykktu ekki tafarlaust að stofna hlutafélag. Þessi hótun var auðvitað alveg með ólíkindum og varð til þess að það varð uppnám hjá þessum stofnunum og sérstaklega Orkustofnun og hefur m.a. haft það í för með sér að vaxandi fjöldi fóks þar leitar sér nú að vinnu annars staðar og stefnir þannig í tvísýnu með þær mikilvægu rannsóknir, grunnrannsóknir, bæði í vatnamælingum og jarðhitarannsóknum sem þar hafa verið stundaðar.

Það er alveg ljóst að framganga hæstv. iðnrh. í Orkustofnunarmálinu hefur veikt Orkustofnun og þar með orkurannsóknir í landinu. Nú liggur hins vegar fyrir að þrátt fyrir sterkan vilja ráðherra verður ekki á þessu þingi afgreitt frv. til laga einkavæðingu Orkustofnunar þó að það væri ekki nema vegna þess að frv. er ekki komið fram.

Ég vil þá spyrja hæstv. iðnrh. í öðru lagi: Er einhver hætta á því að hann haldi áfram að sauma að Orkustofnun í sumar án þess að Alþingi hafi fengið ráðrúm til að fjalla frekar um málið?