Orkustofnun

Mánudaginn 13. maí 1996, kl. 15:14:10 (5919)

1996-05-13 15:14:10# 120. lþ. 136.1 fundur 302#B Orkustofnun# (óundirbúin fsp.), iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur

[15:14]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Eitthvað hefur sá skilningur sem hann leggur í þær formbreytingar og þá fyrirkomulagsbreytingu sem stendur til að gera á Orkustofnun farið skakkt ofan í hv. þm. Staðreyndin er sú að það eru hvorki hugmyndir uppi um það að gera Orkustofnun að hlutafélagi né einkavæða hana þannig að ég bið hv. þm. að hafa þetta í huga. Það sem hins vegar hefur gerst er þetta: Í samstarfi við orkufyrirtækin og fulltrúa starfsmanna Orkustofnunar hefur verið leitað að leið til þess að breyta því fyrirkomulagi á Orkustofnun sem verið hefur um langan tíma að Orkustofnun nýti eingöngu starfskrafta sína til að framkvæma öll þau verk á sviði grunnrannsókna. Ef þetta gengur fram mun Orkustofnun eftir sem áður halda utan um allar grunnsóknir í landinu en hún hefur tækifæri til þess að kaupa þjónustuna af starfandi verkfræðistofum eða starfandi hlutafélögum sem væru í eigu orkufyrirtækjanna, þ.e. fá orkufyrirtækin sem hafa verulega hagsmuni af því að vel sé staðið að rannsóknum til þess að vera virkari þátttakendur í þessum kaupum.

Nú veit ég að hv. þm. situr í stjórn Landsvirkjunar og auðvitað veit hann miklu betur en það sem hann er að segja úr þessum ræðustóli á hinu háa Alþingi vegna þess að hann hefur fengið allar upplýsingar um framgang málsins, þ.e. þær hugmyndir sem iðnrn. hefur. Hann fékk þær síðast norður á Akureyri á fundi í síðustu viku þar sem málið var nákvæmlega kynnt fyrir hv. þm. Ekkert annað stendur til í sumar en að leita eftir samstarfi við orkufyrirtækin og Orkustofnun og það starfsfólk sem þar er starfandi um þessa fyrirkomulagsbreytingu. Megintilgangurinn er sá að ná fram aukinni hagkvæmni með þessu starfi og að hafa meiri fjármuni þrátt fyrir hugsanlegan samdrátt í fjárveitingum á næsta ári, að þá verði meiri fjármunir til ráðstöfunar, til beinna orkurannsókna en núna eru og það er megintilgangurinn með breytingunni.