Orkustofnun

Mánudaginn 13. maí 1996, kl. 15:16:20 (5920)

1996-05-13 15:16:20# 120. lþ. 136.1 fundur 302#B Orkustofnun# (óundirbúin fsp.), SvG
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur

[15:16]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Ég verð að segja alveg eins og er að mér þykir leiðinlegt að þurfa að segja eftirfarandi: Hæstv. ráðherra er ekki að segja satt. Málið er að það hefur verið tekin um það stefnumótandi ákvörðun af honum að breyta Orkustofnun þannig að hún verði annars vegar stjórnsýslustofnun á sviði orkumála en hins vegar verði orkurannsóknirnar allar einkavæddar eða gerðar að hlutafélagi í samvinnu við aðra aðila. Þetta er málið. Svona blasir málið við starfsmönnum Orkustofnunar og þetta mál hefur aldrei verið borið undir þessa stofnun. Það er því nauðsynlegt að hv. alþingismenn átti sig líka á því að hæstv. ráðherra sagði til viðbótar núna áðan að áfram yrði leitað samkomulags við önnur fyrirtæki um orkurannsóknir. Þetta þýðir nákvæmlega það sem ég var að spyrja um áðan, þ.e. að hætta sé á því að haldið verði áfram að sauma að Orkustofnun í sumar til skaða og tjóns fyrir rannsóknir í orkumálum sem þó eru vissulega undirstöðuþáttur fyrir okkar atvinnulíf og framkvæmdir á orkusviðinu.