Lækkun húshitunarkostnaðar

Mánudaginn 13. maí 1996, kl. 15:24:52 (5928)

1996-05-13 15:24:52# 120. lþ. 136.1 fundur 304#B lækkun húshitunarkostnaðar# (óundirbúin fsp.), EKG
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur

[15:24]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er kveðið á um að unnið skuli að lækkun húshitunarkostnaðar í landinu. Það eru ekki höfð fleiri orð um þetta í stefnuyfirlýsingunni en öllum er auðvitað ljóst að hverju þarna er verið að huga. Þetta er mjög mikið hagsmunamál mjög margra byggða í landinu og hefur oft verið rætt í þingsölum.

Það vita allir að húshitunarkostnaður er víða mjög íþyngjandi fyrir heimilin og heimilisreksturinn. Það voru gerðar nokkrar tilraunir á síðasta kjörtímabili til þess að lækka húshitunarkostnað, bæði með því að fá Landsvirkjun til þess að auka afslátt og einnig með því að auka framlög ríkisins til niðurgreiðslna á húshitunarkostnaði. Þrátt fyrir það miðaði ótrúlega lítið áleiðis í því að lækka þennan mikla kostnaðarlið sem er eins og ég sagði íþyngjandi fyrir mörg heimili í landinu.

Ákaflega lítið hefur gerst í þessum málum á þessu kjörtímabili, mér vitanlega, og nýleg verðhækkun Landsvirkjunar leiddi til þess að orkukostnaður heimilanna eða húshitunarkostnaður heimilanna hækkaði umtalsvert af þeim sökum. Lausleg áætlun sem ég hafði undir höndum gerði ráð fyrir því að til þess að lækka orkukostnað þar sem hann er núna dýrastur niður í álíka mikið og hann er í Reykjavík gæti þýtt svona 800 millj. kr. útgjöld. Því langar mig til þess að spyrja hæstv. iðnrh. að því hvort þessi vinna sem talað er um í stjórnarsáttmálanum, í stefnuyfirlýsingunni, sé hafin og þá með hvaða hætti, að hverju sé stefnt í þeirri vinnu að lækka húshitunarkostnaðinn, hvert sé markmiðið og hver sé áfanginn sem menn ætli sér að reyna að ná með þessari vinnu.