Lækkun húshitunarkostnaðar

Mánudaginn 13. maí 1996, kl. 15:26:52 (5929)

1996-05-13 15:26:52# 120. lþ. 136.1 fundur 304#B lækkun húshitunarkostnaðar# (óundirbúin fsp.), iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur

[15:26]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. þm. að fyrirheit eru gefin um það í stjórnarsáttmála þessarar ríkisstjórnar að unnið skuli að lækkun orkukostnaðar fyrir heimilin í landinu. Ákvörðun var tekin þegar menn settu sér það markmið að ná fjárlagahalla niður í 4 milljarða kr. á árinu 1996 að halda þessum lið, þ.e. niðurgreiðslu til húshitunar, með sömu upphæð og var í fjárlögum ársins 1995. Þegar hins vegar breyting var gerð á gjaldskrám orkufyrirtækjanna, Landsvirkjun óskaði eftir hækkun og hækkaði sína gjaldskrá um 3%, þá lá það fyrir að orkufyrirtækin þyrftu líka að hækka um sambærilega upphæð. Sú hækkun hefði leitt til þess að raunhækkun á gjaldskrá heimilanna hefði þá orðið um 5%. En í samstarfi við Rafmagnsveitur ríkisins og í samstarfi við Orkubú Vestfjarða og fyrir beina tilstuðlan iðnrn. tóku þessi tvö fyrirtæki þátt í því að leggja fram aukna fjármuni til þess að halda þessari hækkun eins lítilli og nokkur kostur var. Hún fór ekki upp fyrir 3%.

Það sem hefur síðan gerst er þetta: Nefnd skipuð af iðnrn. hefur verið komið á fót til þess að leita leiða til orkusparandi aðgerða. Sú nefnd er farin af stað. Einnig hefur verið skipuð nefnd til þess að fara yfir skipulag orkumálanna. Sú nefnd er líka farin á stað. Megintilgangurinn og meginmarkmiðið með báðum nefndunum er einmitt að ná því fram sem hv. þm. var að spyrja um, þ.e. að draga úr þeim kostnaði sem heimilin verða fyrir vegna mikils orkukostnaðar.