Lækkun húshitunarkostnaðar

Mánudaginn 13. maí 1996, kl. 15:28:40 (5930)

1996-05-13 15:28:40# 120. lþ. 136.1 fundur 304#B lækkun húshitunarkostnaðar# (óundirbúin fsp.), EKG
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur

[15:28]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Ég get sagt um þetta að mjór er mikils vísir skulum við vona. Ég verð að játa það að mér finnst þetta svar ekki mjög uppörvandi fyrir þau okkar sem búa á landsvæðum þar sem orkukostnaðurinn er hvað mestur. Það er ljóst að orkukostnaður er sligandi á mörgum heimilum úti um landið þar sem hann er hvað mestur. Það þarf ekki að telja upp einstök dæmi í því sambandi. Þó að ég viðurkenni að það sé e.t.v. hægt að ná einhverjum árangri með orkusparandi aðgerðum, þá minni ég á að það hefur auðvitað verið gert mjög mikið í þessum efnum og fólk er að draga úr orkunotkun sinni vegna þess hvað orkukostnaðurinn er mikill.

Mér finnst líka mjög óljóst hvað breyting á skipulagi orkumála hefur í för með sér. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki sé fyrirhugað t.d. að Landsvirkjun auki afslátt sinn til húshitunarmála, hvort ekki sé ætlunin með einhverjum slíkum aðgerðum að reyna að draga úr orkukostnaði heimilanna og hvort ekki komi til greina í tengslum við samninga um hugsanlega stóriðju að gera átak í því að lækka orkukostnað heimilanna.