Skýrsla um stöðu og þróun jafnréttismála

Mánudaginn 13. maí 1996, kl. 15:33:30 (5934)

1996-05-13 15:33:30# 120. lþ. 136.1 fundur 305#B skýrsla um stöðu og þróun jafnréttismála# (óundirbúin fsp.), BH
[prenta uppsett í dálka] 136. fundur

[15:33]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Á Skrifstofu jafnréttismála er gefið út blað sem heitir Vogin og í 1. tölublaði þess sem kom út í mars sl. er dálkur á baksíðu undir fyrirsögninni ,,Frá stjórnvöldum.`` Þar segir, með leyfi forseta:

,,Ætla má að nú hafi félmrh. kynnt ríkisstjórn og Alþingi mat á árangri gildandi framkvæmdaáætlunar í jafnréttismálum auk tillögu til þingsályktunar. Þar eru gerðar tillögur um breytingar sem fela í sér að ákveðnum verkefnum verður frestað eða þau felld niður og öðrum nýjum bætt við. Mikilvægustu breytingarnar eru að gerðar eru tillögur um að fram fari athugun á stöðu jafnréttismála hjá öllum ráðuneytum og opinberum stofnunum með tíu starfsmönnum eða fleiri og að farið verði út í tilraunaverkefni þar sem starfsmati verði beitt í einni eða tveimur stofnunum á vegum ríkisins.``

Í þessari frétt sem ég ítreka að kom í blaði sem var gefið út af Skrifstofu jafnréttismála í mars sl. er væntanlega verið að vitna til þess sem kveðið er á um í 17. gr. jafnréttislaga. Þar segir að félmrh. skuli leggja fyrir Alþingi till. til þál. um áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára í senn og jafnframt að áætlunina skuli endurskoða á tveggja ára fresti og að í tengslum við það skuli félmrh. leggja fram á Alþingi skýrslu um stöðu og þróun jafnréttismála.

Þar sem Jafnréttisráð hefur ákveðið hlutverk í þessum efnum samkvæmt 16. gr. jafnréttislaganna, spurðist ég fyrir um þetta á Skrifstofu jafnréttismála. Þar var mér sagt að Skrifstofa jafnréttismála hafi fyrir nokkru lokið sinni vinnu til undirbúnings skýrslunnar. Því spyr ég hæstv. ráðherra: Hvað líður þessari vinnu í félmrn.? Og kannski ekki síður: Hvað tefur?